það er sumt sem mér finnst leiðinlegt að gera.
mér þykir til dæmis alltaf óskaplega leiðinlegt að bursta í mér tennurnar. ég geri það samt alltaf, og meira að segja tvisvar á dag. en í hvert skipti sem ég kreysti tannkrem á burstann hugsa ég með mér ,,úff, þetta er leiðinlegt". svo sting ég honum inn og fer yfir rútínuna.
ofaná öllum jöxlum, að innanverðu byrja neðst og upp, og uppi byrja efst og niður. svo þegar það er komið þarf að taka að utanverðu að neðan og upp og svo uppi að ofan og niður.
ég fer yfirleitt að hressast þegar ég er komin að utanverðunni því þá er svo stutt eftir. það er innanverðan sem pirrar mig mest, enda krefst hún tæknilegra úlnliðshreyfinga og svo þarf obssessiv-compulsive hluti minn alltaf að gera þetta svo svakalega vel að ég er oftar en ekki ansi lengi að bursta tennurnar. sérstaklega að innanverðu. nú svo þegar öllu þessu er lokið hellast átta eggjarauður.... nei, ó. þegar öllu þessu er lokið skyrpi ég og svo bursta ég (enn með tannkremsleifunum á burstanum) vel yfir tunguna. samt ekki of aftarlega því þá fer kúgun í gang.
þetta með að bursta tunguna lærði ég af hreinlætisgúrúunum í mexíkó en mér hafði aldrei dottið það í hug. eftir að ég komst að því að sú aðgerð losar mann við 90% meira af andfýlunni en bara tannburstunin, get ég bara alls ekki sleppt því úr rútínunni.
mér finnst ekkert voðalega leiðinlegt að bursta tunguna því það er svo fljótlegt. verst þegar ég fer óvart aðeins of aftarlega og fæ smá kúg. en það sleppur.
af öllu illu þykir mér morgunburstunin skárri en kvöldburstunin. morgunburstunin er fljótleg, meira svona til að koma mér í gírinn og geta feisað fólk án þess að kæfa mann og annan. kvöldburstunin er hreinsunarátak, verkefni sem þarf að vinna eftir langan og strangan dag hinna ýmsu áta til að koma í veg fyrir vandræði og verki síðar meir. á kvöldin þarf að taka allt draslið í gegn vel og vandlega, en þá er ég bara orðin svo þreytt.
alltaf þegar sá tími kvöldins rennur upp að ég þarf að fara að bursta líður mér eins og ég sé örmagna á leið í eróbikk. ég þoli ekki eróbikk.
en jæja. það er ýmislegt á sig lagt til að halda stellinu. að auki þætti mér ansi sárt ef ég færi að verða þekkt sem ,,þessi andfúla".
svo er það náttúrulega tannþráðurinn....en þar erum við komin yfir á annað og alvarlegra svið sem ég ráðlegg engum að spyrja mig nánar útí.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli