miðvikudagur, ágúst 04, 2004

ég hef ákveðið að hætta við skáldsöguna mína. eftir fyrsta kaflann komst ég að því að við skildum aldrei hvor aðra.

ég er í voða góðum sköpum í dag. líkamlegum og andlegum. í tilefni af því hef ég klambrað saman skrifstofusöng dagsins. hann skal syngja við hið valinkunna lag um kokkinn og mig langar að biðja dömurnar um að raða sér í einn hring og herrana í annan hring. hringur herranna skal vera fyrir utan og snúa inn, en konurnar fyrir innan og snúa út. svo skal stiginn dans. báðir hringir byrja á því að stíga til hægri, en þá munu þeir, ef útreikningar mínir standast, fara sitt í hvora áttina.
þegar lagi lýkur skal stöðvað og hver og einn tekur til við að dansa við þá manneskju sem á móti stendur.
endurtekið að vild.
og syngjum nú saman...

rangárþing og hafnarfjarðarhöfn
fallera
bessi og randver eru skrýtin nöfn
fallera
biskupstungur, fellsendi og vík
fallera
í þessu djobbi aldrei verð ég rík
fallera

þetta var lag dagsins.

að auki langar mig einhverra hluta vegna til að rifja upp hvernig happahnetan mín kom til.
ég var sko til einu sinni búsett í smá stund í höfuðborg hinna síðu yfirhafna. þar eyddi ég áramótunum gott ef ekki 98-99. á þeim tímamótum var þar stödd fjölskyldan mín nánasta frá landi ísa og elda auk nokkurra skyldmenna makans frá landi pýramída og indíána sem sumir skírðu sig eftir mér. maja.
nema hvað. strollan ákvað að vera voða cosmopolitan og höfðum við hugsað okkur að eyða miðnættinu í mannþrönginni á los campos eliseos. sökum einstaklega bjánalegrar tímasetningar og lélegra samgangna á þessu kvöldi, vildi því miður ekki betur til en svo að þegar klukkan sló tólf vorum við öll í bunka staðsett á metróstöðinni við bastilluna. þar kysstist liðið og setti upp kjánalegan ,,nú jæja" svip og nýtt ár hófst á frekar klaufalegan hátt (enda varð 1999 frekar klaufalegt ár hjá mér).

nema hvað, ég var með 3ja ára barn í kerru sem var gersamlega að ganga af göflunum úr þreytu og pirringi. blessað barnið öskraði og grenjaði og æpti og vældi (samheitaorðabókin enn á ferðinni), og ég var mjööög nálægt því að fara á taugum, enda pirruð fyrir á öllu stressinu, ruglinu og látunum.
þegar lestin kom gerðist snapp í hausnum á mér, ég horfði á eftir bunkanum hverfa inn í lestina sem var á leið niður í bæ, vippaði mér með kerruna upp og niður, upp og niður stiga, kom mér yfir á hina hlið brautarpallsins og hoppaði með grenjandi krakkann í kerrunni upp í næstu lest heim.
í lestinni fékk ég sæti við dyrnar, enda fáir á ferli, og þar hallaði ég höfðinu upp að glugganum og fór að gráta. spennufall í sérflokki.
ég var löngu hætt að heyra í barninu, enda var hann sem betur fer farinn að gefa eftir svefninum á þessu stigi málsins.
þar sem ég sat þarna og átti bágt á kvöldi sem ég hafði verið alin upp við að ætti að vera svaka skemmtilegt og allir í stuði, og lestin hægði á sér við eina af stoppustöðvunum, kom upp að mér gamall maður.
hann var lítill og skítugur róni með mikið grátt skegg. maðurinn stakk höndinni ofaní djúpan vasa á jakkalarfinum sínum og kom upp aftur með hnetu í hendinni. hann rétti mér hnetuna, brosti og sagði ,,bon anné". svo opnuðust dyrnar og hann gekk út.

þessa hnetu þótti mér einstaklega vænt um og ég var lengi með hana í veskinu mínu þangað til einn góðan veðurdag að hún var horfin.

stundum hittir maður engla.

Engin ummæli: