ætli það sé einhver tenging á milli þess að tilheyra, tiltala og vera tileygð?
gæti verið...
ég er reyndar ekki tileygð þó svo að ég geti stundum tiltalað og er að auki mikill tilhlustandi. eða er það tilheyrandi?
allavega er mér oft mikilvægt að tilheyra.
ég hef tilheyrt ýmsu um dagana og ekki fer því fækkandi. fyrst tilheyrði ég leikfélagahóp í leikskóla. þegar því lauk tilheyrði ég vinahóp í grunnskóla. svo hætti ég að tilheyra honum þegar ég skipti um skóla og þá tók mig smá tíma að fara að tilheyra öðrum hóp. svona fer fólk í gegnum ýmsar tilheyringar eftir því sem hinum ýmsu stigum samfélagsins er náð. einu lýkur, öðru er breytt og allt stokkast upp. fólk hættir að tilheyra einu macro-samfélagi en nær yfirleitt að aðlagast og byrja að tilheyra öðru slíku.
ég tilheyri enn gömlum vinkvennahópi síðan í grunnskóla. innan þess hóps tilheyri ég svo sérstaklega einu góðu vinasambandi.
ég tilheyrði meðal annars mjög litríkum lærdómshópi í gegnum háskólanámið, en eftir að því lauk fór hver að dútla við sitt og ef við hittumst í dag yrði það allt hálf ó-tilheyrandi. forsendurnar eru farnar.
forsendurnar fyrir því að tilheyra bekk hverfa þegar skipt er um skóla. þó svo að maður hitti bekkinn aftur og þekki alla er upplifunin önnur. það er ekki það sama að þekkja og tilheyra. samkvæmt mér allavega.
ég hef tilheyrt ýmsum skemmtilegum hópum, vinahópum, leikfélagahópum, lærdómshópum, samstarfshópum, nemendahópum og frændsystkinahópum. fæstum þeirra tilheyri ég enn í dag. ég þekki ennþá fólkið, en ef ég hitti gaurinn sem ég var að vinna með og sló alltaf í rassinn í vinnunni (sexual harassment hérnamegin!), þá yrði ansi fáránlegt fyrir mig að gera það aftur, enda forsendurnar fyrir þeirri hegðun ekki til staðar. það yrði meira svona ,,gaman að sjá þig...hvað er að frétta?" kind of thing.
þegar maður hættir að tilheyra hópi getur það verið ómeðvituð þróun en líka meðvitað og jafnvel dapurleg upplifun. svo er líka gaman að kynnast nýju fólki og verða partur af einhverju nýju og ólíku (td. blogggrúppu..hehe).
þó svo að það sé tæknilega ómögulegt að halda sambandi við allt það fólk sem einhverju sinni hefur verið hluti af lífi manns eru samt alltaf einhverjir sem festast.
ein gömul æskuvinkona, ein vinkona úr hverfinu, ein sérstök frænka, tveir gamlir vinnufélagar, einn gamall nágranni og nokkrir góðir skólafélagar. lítið mósaík af öllum tilheyringunum í gegnum tíðina. sé þessum hóp svo skellt saman kemur út frekar sniðug blanda.
flestir tilheyra líka ástarsamböndum. sumir fleirum en aðrir. oftar en ekki er erfitt að hætta að tilheyra þeim. stundum er það betra.
það góða er að flest tilheyrum við alltaf einhverstaðar. sérstaklega innan fjölskyldunnar, hvaða form svo sem er á henni.
einhvern daginn þegar ég var döpur yfir því að vera búin að missa sambandið við góðan vin sagði mamma við mig ,,þó svo að þú hættir að hitta manneskjuna hættir þér aldrei að þykja vænt um hana"
amen við því.
ps. eins og glöggir taka eftir þá er einhver melankólía í gangi. ætli það séu ekki eðlilegar afleiðingar af öllum þeim breytingum sem þessi blessaði ágústmánuður ber í skauti sér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli