ég sakna gula heftarans míns.
spurning um að kíkja á skrifstofuna og gá hvort ég geti sannfært einhvern um að leyfa mér að eiga hann. annars er mér sagt hér að ég fái styrk til að kaupa penna og svoleiðislagað, sem gæti falið í sér heftara, en það er einhvernvegin ekki það sama. það var eitthvað sérstakt á milli okkar, einhverskonar samband sem myndaðist þegar við í sameiningu heftuðum saman skilagreinar og fylgiskjöl í hundraðatali. ekkert skrýtið að tilfinningabönd myndist við svo nána samvinnu.
en kannski er kominn tími til að horfa fram á veginn og sleppa því sem áður var. hver veit nema heftarinn minn sé kominn í samband við aðra manneskju sem leyfir honum að halda áfram að festa saman skilagreinar og fylgiskjöl. það mun ég ekki geta veitt honum hérna, enda fátt um skilagreinar og enn færri eru fylgiskjölin.
það gæti verið honum fyrir bestu að fá að búa áfram á gamla skrifborðinu mínu innanum tölvuna sem hann þekkir svo vel, pennana sem hafa verið þarna jafn lengi og hann og gatarann sem gerir stundum bara eitt gat og fékk þá mig og alla litlu íbúa skrifborðsins til að hlægja dátt innra með okkur.
ætli það væri ekki best að leyfa honum að halda áfram störfum sínum án mín, ég held mig þá bara í fjarska til þess að hann geti horft fram á veginn án mín og án þjáningar. það getur verið erfitt að flytja og skipta um starf á sama tíma og ég vil ekki hafa slíkt á samviskunni. það er erfitt að segja til um hversu mikið litlir gulir heftarar geta þolað. þeir þola amk ekki mjög mörg hefti í einu, hvað þá með breytingar?
nú hef ég komist að niðurstöðu. ég ætla að leyfa honum að halda sínu striki og smám saman mun ég komast yfir söknuðinn. kannski kaupi ég mér jafnvel nýjan heftara.
það verður samt aldrei eins og ég mun aldre gleyma hinum gamla. ég mun minnast hans í bænum mínum þar sem ég mun óska honum farsældar og hamingjusamrar framtíðar í höndum næstu skilagreinaumsjónarmanneskju.
adios, au revoir, auf wiederschen, arrivaderchi, good bye, farvel, hej, chiao og bless
sniff
Engin ummæli:
Skrifa ummæli