sem minnir mig á það... í vetur síðastliðinn fór ég enn sem oftar með fjölskylduna mína í bónus. holtagarðar urðu fyrir valinu einhverra hluta vegna. þetta var föstudagseftirmiðdagur gott ef ekki rétt fyrir jólin eða rétt fyrir páska. amk var þetta svona föstudagur sem fyllir bónusverslanir bæjarins.
við kjarnafjölskyldan vorum búin að gera okkar stykki, safna nauðsynjavörum og öðrum síður nauðsynlegum vörum í gulu kerruna og sigldum í átt að kössunum. þegar þangað var komið stillti ég mér upp með kerruna og síðburðinn innanborðs í því sem mér sýndist vera stysta röðin af mörgum löngum. makinn fór að skoða kassaúrvalið til þess að ákveða hvort ætti að splæsa í plastpoka eður ei og frumburðurinn fór eitthvað að væflast við blaðastand frá dv sem stóð þarna bísperrtur við enda raðanna. þar tók hann til við að lesa fyrirsagnir dagsins.
hann stóð ansi langt frá mér blessaður guttinn. þar sem ég hallaði mér fram á kerruna og gúaði framaní síðburðinn heyrði ég rödd frumburðarins í fjarska. ,,mamma".
ég leit í átt til hans og gaf honum merki um að ég heyrði lítið. þá hækkaði minn röddina eins mikið og hann gat og gólaði til mín ,,MAMMA". ég kinkaði kolli svona til að láta hann sjá að ég hefði heyrt í honum en án þess þó að vekja of mikla athygli á sjálfri mér, enda reyna flestir að vera ósýnilegir í svona innkaupaferðum.
mínum þótti kinkið ekki nóg svo hann kláraði setninguna:
,,MAMMA, HVAÐ ÞÝÐIR KYNLÍFSÞRÆLL?".
Það var eins og allir búðakassarnir hefðu hætt að segja bíp á sama augnabliki og spurningin fór svo sannarlega ekki framhjá neinum viðstaddra. að auki var orðið ansi skýrt á þessum tímapunkti hver var mamman. sumir litu beint á mig glottandi, aðrir flissuðu og kíktu á mig á síður augljósan hátt, nokkrir földu sig á bak við hillur og seríóspakka í hláturskasti og ein kona snéri sér að mér með bros á vör og sagði ,,svaraðu nú!".
ég fann hvernig andlitið á mér varð rautt og þrútið þar sem ég reyndi að hverfa á bak við slefandi síðburðinn. en drengurinn virtist ekkert fatta að það var eitthvað skrýtið við stemminguna á staðnum og ætlaði að byrja aftur: ,,MAMMA!"
þá fann ég mig knúna til að segja eitthvað og ég hálf hvíslaði til hans, en þó þannig að hann heyrði ,,ég svara þér seinna...".
ég er ekki enn búin að svara enda var hann búinn að gleyma spurningunni þegar við komum útúr búðinni.
ég vil hér með biðja forsvarsmenn dv um að nota orðaforða á fyrirsagnir sem kemur foreldrum ekki í bobba.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli