tengdaforeldrarnir farnir og heimilið að síga aftur í sitt gamla far. ég hef ekki enn heyrt neinn kvarta yfir því. það var fínt að fá þau í heimsókn en heimsóknir verða alltaf að taka enda. annars hættir að vera gaman.
nema hvað. í gærkvöldi fór ég í bað, aldrei þessu vant. þegar ég kom uppúr langaði mig að vera voða pen og fín, aldrei þessu vant, og bar krem á fæturna á mér. kremið smurði ég hátt og lágt frá rist og upp undir bikinílínuna. svo núði ég afganginum á hendurnar á mér.
ég ber ekkert krem á restina af mér því ég er svo mjúk, en ég skellti líka smá ólívukremi í andlitið. sem betur fer. (sem betur ferið skýrist eftir augnablik).
svo skoppaði mín tindilfætt og hrein og mjúk inn í svefnherbergi, skellti sér í ljósbláa stuttermabolinn sem á stendur ,,no te metas con mi cucu", nærbuxur á sinn stað og skreið að lokum undir sæng og las nokkrar síður í agötu kristí áður en svefn hinna réttlátu náði yfirhöndinni.
í morgun um kl. 7:15 hringdi vekjarinn í símanum. eftir snús í uþb korter dröslaðist sú mjúka á fætur og rölti inn á bað.
þegar ég lyfti upp cucu bolnum og gerði mig tilbúna til að fara í fötin sá ég hvað hafði gerst.
ég bar á mig brúnkukrem.
hver í andskotanum smyglaði brúnkukremi í baðherbergisskápinn minn?!
ég fer ekki í sund næstu vikur...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli