þá er fyrstu kennsluviku ársins lokið. hún var aldeilis viðburðarík og þá er vægt til orða tekið. ég er búin að sitja ófáa fundina, mis-skemmtilega, búin að ljósrita á hálfan regnskóg, læra nöfnin á um þrjátíu nemendum (þá eru bara um 90 eftir), bera bækur og hefti fram og tilbaka um skólann, standa í bréfaskriftum og undirbúningi og vera sökuð um einelti á vinnustað. og þá eru óupptalin kennslan sjálf, skráningar í tölvukerfi og fleira.
magnað hvað það eru margar gerðir af fólki á svona stórum vinnustað. maður veit svo sannarlega aldrei hverju er hægt að eiga von á. stundum, án þess að eiga von á því, lendir maður svo í uppákomum sem skilja mann eftir með kjálkann á gólfinu gapandi gónandi hissa. ég lendi nú sjaldnast í vandræðum með fólk, enda hef ég yfirleitt átt ansi gott með að umgangast það og vinna með því. en stundum lendir maður í fáránlegum aðstæðum. þá er bara að vinna sig í gegnum þær. oseisei. ég er núna að slíkri vinnu.
nema hvað, að óræðu tali slepptu er bara allt skrambi fínt að frétta.
jólaskrautið farið niður og búið að grýta jólatrénu í höfuðið á manni.
það er reyndar svolítið skemmtileg saga. eða svoleiðis, þú veist... makinn var sko að spara sér flutningana með því að skutla trénu bara niður af svölum og á gangstéttina þar sem það átti að enda. hann leit í kringum sig hægri vinstri og svo aftur áður en hann dúndraði trénu niður. um leið og hann sleppti takinu sá hann mann sem sat á bekk nákvæmlega þar sem trénu hafði verið miðað. náfölur og skjálfandi kom hann inn af svölunum með hjartað í hálsinum og kökk í augunum og sagðist sennilega hafa verið að enda við að drepa mann. svo hljóp hann niður til að tékka og þegar niður var komið mætti hann manni sem var óskaplega hissa að sjá. hann hafði þá sem betur fer bara fengið toppinn á trénu í fangið en þetta var þeldökkur túristi sem fór strax að hugsa hvort íslendingum væri svo illa við svertingja að þeir hentu jólatrjánum sínum í þá í skjóli myrkurs. makinn baðst afsökunar eins og hann ætti lífið að leysa og útskýrði að hann hefði einfaldlega ekki séð hann og gekk svo úr skugga um að greyið hefði ekkert meitt sig. svo tókust þeir bara í hendur og fóru hvor sína leið. jólatréð fór líka sína leið.
þessi litla dæmisaga kennir okkur að það er ekki sniðugt að henda trjám niður af svölum. en þetta var samt hrikalega fyndið eftirá, sko tilhugsunin um að sitja á bekk og fá jólatré í fangið. ég get allavega flissað ennþá.
en núna þarf ég að fara að velja 5 uppáhalds lögin mín (og þá er átt við ekki bara núna heldur yfir ævina), fyrir leik sem ég er flækt í. það er erfiðara en það virðist.
hvaða lög myndir þú velja?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli