fimmtudagur, janúar 01, 2009

og þá kom nýtt ár. ég upplifi árin sem svona dagalista sem byrjar efst og fer niður. í gær var ég neðst, í dag er ég komin aftur efst.
mér tókst að sofa til klukkan tvö. alveg ótrúlegt að hægt sé að snúa sólarhringnum svona á hvolf. það verður hægara sagt en gert að koma mér aftur í vinnugírinn, svefnlega séð.
í gær var mikið gaman. byrjaði ansi rólega með hrikalega góðum mat heima hjá mor og far. þar spiluðum við tíkort og horfðum á skaupið og fannst bara fínt og gaman. eftir það skelltum við okkur á vígvöllinn fyrir framan stóru kirkjuna þarna, æi hvað heitir hún?... þessi sem er alltaf á póstkortunum. nema hvað, þar sprengdum við draslið okkar og horfðum á aðra lýsa himininn upp. svo sló klukkan tólf og allir fengu koss.
en þá var nóttin bara að byrja... rétt eftir miðnætti fór síðburðurinn heim með foreldrunum en við hin strunsuðum á söntu maríu til að undirbúa áramótapartý ársins.
það byrjaði frekar hægt og á tímabili höfðum við áhyggjur af því að hafa drullað uppá bak. en svo var eins og skrúfað hefði verið frá krana og liðið streymdi inn. mikið var spilað, sungið, dansað, trallað og drukkið alveg til klukkan 6 en þá urðum við að gera allt tilbúið fyrir morgunverðarhlaðborð hótelsins. ég var dyravörður ársins. kannski ekki alveg karakter í hlutverkið og það var einhver slatti af fólki sem lak inn sökum góðmennsku minnar en mér tókst þó ágætlega að halda fyllibyttum og leiðinlega drukknu fólki úti. einn ungur maður hafði það á orði að ég væri flottasti dyravörður sem hann hefði séð og það gerði margt gott fyrir fröken egóið mitt.
en þetta var semsagt gasalega gaman og allir sýndust mér fara hinir ánægðustu út í morgunsárið.
núna ætla ég að setja myndir frá matarboðinu og hallgrímskirkju á míns eigins fésbók og svo ætla ég að setja myndir úr partýi ársins á söntu maríu fésbókið. í myndabunka þeim kennir ýmissa grasa.
þegar ég verð búin að setja inn myndirnar ætla ég að halda áfram að slefa með hálf opinn munninn í heiladauðu sombíástandi.
svo fer bara vinnan að byrja rétt strax. jibbí kóla!

Engin ummæli: