veitingastaðurinn okkar litli er ósköp kósí vinnustaður. reyndar hef ég svosem ekki mikið beinlínis unnið þar undanfarið ef frá er talið allur undirbúningur bókhalds, tímaútreikningar, lokun kassa á kvöldin og andlegur stuðningur við framkvæmdaeigandann sem er stundum á barmi taugaáfalls yfir annríkinu. nema hvað, staðurinn er kósí því starfsfólkið er fínt og gott upp til hópa og það sem mér finnst heimilislegast er hvernig næstum allir heilsast og kveðjast með kossi. ég fæ oftar en ekki nokkra kossa á kinn þegar ég mæti á svæðið og þegar ég fer aftur. það þykir mér kósí.
þegar ég var skiptinemi fyrir ár og öld heilsuðust allir þar með kossi á kinn líka. það tók stundum tímana tvenna að komast eftir löngum göngum þegar þurfti að kyssa hvern einasta sem maður mætti. en það var kósí. vinalegt. gleðiaukandi.
hér með mælist ég til þess að verða heilsað með kossi á hverjum morgni þegar ég mæti í vinnuna mína. annars neyðist ég til þess að segja upp störfum.
eða kannski ekki alveg samt...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli