þá er vinnan komin í gang og er það vel. rútínan er sem fagurt fljóð sem liðast eftir árfarvegi alheimsins í gegnum stjörnuþoku vináttunnar. eða eitthvað.
ég var að fá niðurstöður úr kennslukönnun sem var gerð fyrir áramót meðal nemenda minna. jíha hvað ég er ánægð með það og hve þungu fargi er af mér létt. mér þykir nefnilega hrikalega erfitt að láta meta mig og hvað þá svona huglægt.
en það er yfirstaðið og ég fékk ósköp fátt annað en góða dóma. það eru svona dagar sem bæta fyrir pirringinn, þreytuna, örvæntinguna og uppgjafartilfinninguna sem hellist stundum yfir mann eftir erfiðar kennslustundir. það er þetta sem fær mig til að langa áfram til að vera kennari. meira að segja vantaði gaurinn sem vantar eiginlega aldrei í úrtakið, þennan sem hatar mann útaf lífinu. hann hefur amk ekki svarað könnuninni ef hann er þarna einhverstaðar. fallega gert af honum.
nú langar mig að gera enn betur og enn meira. uppveðruð er ég já já.
svo eldaði ég mat tvo daga í röð sem í bæði skiptin fengu góða dóma fjölskyldumeðlima. svo góða að hann kláraðist báða dagana. slíkt hefur aldrei gerst áður í manna minnum. um daginn fór ég líka í sund og var þá á óskiljanlegan hátt 3 kílóum léttari en þegar ég fór síðast á sömu vigt.
ég er farin að halda að 2009 sé mitt ár. allavega er þetta mín vika. eða eitthvað.
skiptir ekki máli. ég er glöð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli