miðvikudagur, september 08, 2004

blessaður skoðunarmaðurinn kom hreinlega og sótti mig heim í gær. átti víst leið niður í bæ og ákvað að veita mér far út í útnára til að sækja bílinn minn.
hann keyrði og keyrði og ég fann fyrir vissri gleði þegar ég hugsaði til þess að ég skuli búa í landi þar sem ég þyrfti mjög ólíklega að vantreysta þessum miðaldra manni í bláum samfestingi sem ég þekki andskotann ekki neitt.
hann sótti mig á jeppanum sínum og við spjölluðum um bíla og bifreiðaskoðun (enda það eina sem við eigum sameiginlegt) og ég gerði í því að lýsa yfir fávisku minni í þeim efnum í þeim tilgangi að vekja hjá honum samúð og löngun til að hjálpa og styðja litlu elskulegu mig í gegnum skoðunarvandræðin.
svínvirkar.
hann keyrði og keyrði og keyrði þangað til við vorum komin út í rassgat heim til hans. þar skellti ég nokkrum seðlum í lófa kauða og hann skilaði mér bíllyklinum auk þess sem hann bauðst til að finna ókeypis handa mér nýjan afturhlera á bílinn og kannski eitthvað ljós sem vantar og kannski eitthvað fleira.
hvílík elska.
og svo var kominn tími til að keyra heim. takk fyrir og bless vinkaði ég þar sem ég keyrði úr hlaði. blágalli horfði á eftir mér keyra út af bílastæðinu og beygja í vitlausa átt.
ég sá hrúgu af ljósum í fjarska og vonaði að strætóskynið færi nú ekki með mig í ógöngur. svo keyrði ég og keyrði og keyrði og hlustaði á jerry rivera syngja ljúfa tóna. eitthvað þótti mér þó vera orðið gruggugt þegar ég endaði á bílastæði og gatan var búin. á bílastæðinu var einn bíll fullur af ástföngnu pari sem var að kela í myrkrinu.
ég snéri bílnum við en um leið og ég gaf í til að fara til baka rakst ég í flautuna og hef sennilega brugðið blessuðum turtildúfunum.
nema hvað... svo keyrði ég og keyrði og eyddi um hálftíma í einhverja endemis ruglingsþvæluferð um gjörvallan grafarvog. var farin að halda að það yrði mín gröf.
svo fann ég vatnsendaveg. eftir það fóru málin að skýrast og ég muldraði með sjálfri mér ,,þarna er þá reykjavík".

Engin ummæli: