alltaf þykir mér jafn kómískt þegar ég reyni óvart að vera fyndin við húmorslaust fólk. það er nefnilega svo að ekki er alltaf hægt að sjá fyrir hvernig fólk muni bregðast við bjánalegum kommentum frá fólki eins og mér sjálfri. ég (og reyndar systir mín líka) er þessi týpa sem er alltaf blaðrandi. kem inn í búð og heilsa og það bregst ekki að kommentin byrja að vella útúr mér. bara eitthvað um hvað sem er, yfirleitt í svona huh huh tóni því mér finnst ég nefnilega vera oft svo assgoti sniðug. uppáhalds fólkið mitt eru þeir sem fatta húmorinn og taka þátt svo að bullið nær að halda aðeins áfram og allir halda sína leið með glott á vör. svo eru þeir sem reyna að vera með en eru samt ekki alveg að fatta og samræðurnar misfarast svolítið, en ég fer samt út með bros því að þetta var góð tilraun og ágæt samskipti.
ein týpan segir bara já og humm og einmitt án þess að hafa hvorki áhuga né gaman af tilraunum mínum til að eiga mannleg samskipti við ókunnuga í amstri hversdagsins.
eftir svoleiðis fólk brosi ég þá helst að því hversu húmorslaus viðkomandi var.
svo er það fólkið sem einfaldlega þykist ekki heyra eða er svo svakalega skítsama og þykir ég svo hrikalega hvimleið og asnaleg að það svarar ekki. verða heyrnarlaus, mállaus og blind. tómt augnaráð og samandregnar varir.
þá líður mér eins og uppblásnu trúðatrölli sem er í engu samhengi við nokkurn skapaðan hlut. svo þagna ég og set upp herpta-rassgatsvipinn og er alvarlega konan sem kom bara inn til að skoða.
eins og það getur stundum verið gaman að eiga smá orðaskipti við ókunnuga.
ég á oft erfitt með að skynja í lyftum hvort það sé mál að skella fram eins og einu kommenti um veðrið, spegilinn eða eitthvað, eða hvort það sé best að stara á tölurnar uppi við loft og bíða eftir að sleppa útúr þrúgandi þögninni.
þá er oft þægilegra bara að segja einhvern fjandann. það versta samt við að segja eitthvað er að þá er best að halda áfram þangað til ferðinni er lokið því að það eina sem er verra en þrúgandi þögn er þrúgandi þögn á eftir kommenti.
já, listin að eiga við ókunnuga er flókin og spennandi.
ef þið hittið á förnum vegi tvær síðhærðar snótir, önnur dökkhærð og hávaxnari og hin ljóshærðari og minna hávaxnari, og þær blaðra við gesti og gangandi um eintóma steypu og hlægja svo oftar en ekki á eftir. tékkaðu þá hvort þær heiti ekki lóa og maja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli