föstudagur, september 03, 2004

síðburðurinn er 2ja ára í dag. fyrir tveimur árum var ég með illt í maganum og kveið fyrir því sem koma skyldi. hóf starfsemina rétt undir morgun og sú stutta buslaði út rétt fyrir miðnætti. það var ansi langur dagur.
mikið er ég fegin að vera ekki að fæða barn í dag.

brúðkaup á morgun. best að fara að dusta rykið af mary poppins skónum mínum og brúðkaupsdressunum. vonandi er liðið búið að gleyma kjólunum mínum síðan í síðustu brúðkaupum. þá get ég farið að byrja umferð 2 í dressanotkun. ég tími engan veginn að vera að spreða í brúðkaupsföt, enda ekki föt sem ég nota oft og mörgum sinnum. þá vil ég frekar eiga eins og 3-4 umganga sem ég nota svo bara alltaf í hring, get skreytt dæmið með mismunandi fylgihlutum og treysti svo bara á lélegt minni fólks. reyndar eru alltaf einhverjir sem leggja föt annarra á minnið... merkilegt nokk. en þá verð ég bara að bíta í það súra að lenda á svarta listanum í þeim efnum. ekkert til að verða andvaka yfir. amk.ekki í mínum heimi.

barnaafmæli á sunnudaginn. verst að vita ekki hversu margir koma. en ég geri sosum alltaf alltof margar kökur hvort eð er þannig að það ætti ekki að vera mikið mál. mér finnst gott að eiga kökur í morgunmat í viku eða svo eftir hátíðleg tækifæri. þá nýtur maður þeirra lengur.

bekkjarpartý á mánudaginn. þá verður frumburðurinn 9 ára. ég tímasetti þetta allt svona fínt til að taka bara barnaafmælarassíu einu sinni á ári og ekkert rugl.
ætla þá bara að panta pizzur, kaupa kók og henda liðinu með geislaspilara og plastglös niður í kjallara þar sem þau geta farið í flöskustút og danskeppnir og hreinlega ganga af göflunum.

svo fer ég í frí í ár.

í kvöld ætla ég að halda kökuskreytingafund með brother louie.

Engin ummæli: