mér þykir ansi merkilegt að hlusta á fólk tala um femínisma undanfarið. (þá er ég samt ekki að fjalla um hann ingó, enda trúi ég því staðfastlega að hann sé haldinn djúpum og stundum ansi óræðum húmor).
nema hvað, ég finn mig oftast verða hissa þegar ég geri mér grein fyrir því að sumt fólk sem rökræðir málið er alls ekki að grínast.
ég hef af óskýranlegum orsökum oft orðið vitni að umræðum um femínisma síðustu daga, vikur og mánuði, og umræðan er yfirleitt einstaklega svipuð. þeir sem hafa ekkert lesið sér til um femínisma nema það sem aðrir ólesnir hafa skrifað kvarta mikið yfir femínistum, segjast samt vilja jafnrétti og að þeir kjósi að kalla sig jafnréttissinna því að femínismi séu öfgar. þau rök eru oftast studd með dæmum um bandbrjálaðar gellur sem halda að þær geti eitthvað breytt heiminum standandi í bleikum bolum með spjöld fyrir utan strippklúbba og fegurðarsamkeppnir.
baráttumálin eru þó flest gúteruð, en þó vill fólk skella þeim undir jafnréttissinna-hattinn frekar því femínistar eru kjánalegir. það eru allir sammála um að fólk ætti að fá sömu laun fyrir sömu störf og að kvensal í vændisheiminum sé hið versta mál. ekki hef ég heldur heyrt neinn neita því að uppræta þurfi félags-líkamlega sjúkdóma eins og anorexíu og búlimíu eða heimilisofbeldi og nauðganir.
þeir sem samþykkja þörfina fyrir upprætinguna koma þó sjaldnast með uppástungur að nálgunaraðferðum eða mögulegum aðgerðum.
svo er alltaf þetta með jákvæðu mismununina og karlahatrið. það er ekki körlum að kenna að konur þori ekki og sæki ekki eins mikið í stóru stöðurnar. það eru nú fleiri konur í háskólanum en karlar en svo er aftur annað mál að þær sækja meira í að vera heima með börnunum (og eru líka betri í því) og eru þar af leiðandi óstabílli starfskraftar... og það er sko ekkert jafnrétti í því að verða að velja konu í stöðu ef maður og kona eru jafn hæf til starfans. aumingja karlarnir sem sækja um, eins og eitthvað sé þeim að kenna... og svo eru femínistarnir alltaf að væla yfir öllu, nöldra yfir auglýsingum, skemmtiþáttum og bloggsíðum. þær hafa engan húmor og fatta ekki að stundum er fólk bara að skemmta sér og að það er bara fallegt og gaman að horfa á sætar stelpur dilla sér. þær vilja þetta, þeir vilja þetta, hvað er málið?
vandamálið við femínista er að þetta er yfirleitt frekar menntað fólk, oftar en ekki vel lesið og kemur ósjaldan úr félagsvísindagreinum eða öðrum húmanískum fögum. þetta er fólk sem hefur lesið óteljandi kenningar og hefur tileinkað sér þá list að geta horft á samfélagið í gegnum hin ýmsu gleraugu og séð heildarmyndina.
það skoðar hegðun fólks í dag útfrá ríkjandi samfélagslegum mynstrum, sögulegri þróun, ríkjandi siðferðisreglum og öðrum óskrifuðum reglum,trúarbrögðum og fleiru. þetta er svo allt fléttað saman og útkoman gefur ákveðna sýn á hvert samfélag fyrir sig.
það fólk sem prófar að setja upp femínismagleraugun á ekki oft endurkvæmt. nálgunin er þó alls ekki persónuleg. rök eins og þau um frændann sem fékk ekki starfið útaf því að það kom kona á móti honum og hann lenti í jákvæðri mismunun tilheyra annarri umræðu. femínistinn vill breyta heildarmyndinni. til þess þarf að grafa djúpt og byrja að reyta arfann á botninum. bleikir bolir fyrir utan fegurðarsamkeppnir hljóma sennilega eins og húmbúkk þegar þeir eru dregnir uppá persónulega stigið. en fyrir fólk sem er að reyna að pota sér leið inní hugmyndafræði almennings og vill opna augu annarra fyrir því að hlutirnir séu ekki eins og þeir eru af einhverjum náttúrulegum orsökum og að forsendurnar á bak við hegðun karla og kvenna séu komnar til vegna aldagamallar og úreltrar félagsmótunar sem er ekki endilega jákvæð þó hún sé gömul, eru svosem ekki margar leiðir færar. en þær gefast ekki upp og gera sitt besta til að benda á það sem þær hafa séð í gegnum gleraugun sín. þær sjá samfélagið abstrakt. þær fá persónuleg mótrök.
á þennan hátt mun rifrildinu aldrei ljúka.
ég er þeirrar skoðunar að það sé til tvennskonar fólk.
þeir sem nota gleraugu og þeir sem nenna ekki til augnlæknis.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli