miðvikudagur, júlí 25, 2007

fór með frumburðinn til tannréttingalæknis áðan til að halda áfram þar sem frá var horfið á snorrabraut. sá heppni heitir javier (borið fram havíer). hann er brúnn á brá og með spegilslétt afturgreitt hárið líktist hann mest suðrænni sápuóperustjörnu. hefði ábyggilega fengið hlutverk flagarans sem elskar allar konurnar og kann aldeilis að hvísla í eyru þeirra því sem þær vilja heyra svo að þær kikna í hnjáliðunum.
aðstoðarkonan hans javier er lágvaxin en þó í góðum hlutföllum. hlutföllin atarna mátti vel greina í gegnum níðþröngan gulan stuttermabolinn með glimmerstöfunum yfir barminn og álíka þröngum, ef ekki þrengri brúnar mittisbuxurnar sem sáu til þess að ekki færi framhjá neinum að innanundir þeim væru oggulitlar tannþráðarnærbuxur (kannski við hæfi á tannlæknastofu...).
ég er yfirleitt voða ónæm á strauma í kringum mig. en inni á litlu tannlæknastofunni var eitthvað í loftinu. eitthvað næstum áþreifanlegt.
ég leiddi hugann svosem lítið að því í upphafi, enda upptekin við að horfa uppí frumburðinn minn, en svo var það eitt augnablik að ég sá hvað var í gangi. ég sá hvernig javier laumaðist til að mæla rassinn á aðstoðarstúlkunni út þar sem hún beygði sig fram til að útbúa drulluna sem er notuð til að taka mót af gómum. hún snéri sér við og javier horfði lostafullu augnaráði á glitrandi gulan barminn. tannlæknastofan ilmaði öll af framhjáhaldi tannlæknisins með aðstoðarstúlkunni. einhverstaðar á þessu augnabliki sem það tók fyrir þau að daðra þegjandi og mig að kveikja á perunni leit hún í augun á mér. svipurinn á henni sagði ,,úps!". eftir það passaði hún sig að halda sig frá honum svo að þetta yrði ekki vandræðalegra en það var þegar orðið. ég passaði mig bara að halda augnaráðinu föstu við jaxla sonarins þangað til allt var yfirstaðið.
einhverra hluta vegna leit hún aldrei upp á meðan hún rukkaði mig og gaf mér tíma á föstudaginn.
framhald á föstudaginn...

Engin ummæli: