föstudagur, ágúst 31, 2007

gerði skúffuköku í dag (fimmtudag), bara til að prófa. hún varð að molum. helvítis gasofnar. ég er samt eiginlega búin að fatta hann. en mikið fjandi er pirrandi að baka ljótar kökur. hún var góð á bragðið, það vantar ekki, en ljótur andskoti.

tengdamóðirin er komin til að hjálpa við afmælisundirbúning. þetta verður stærsta barnaafmæli sem ég hef haldið hingað til. ég er vön kaffisamsætum á milli 3 og 6 en ekki risafjölskylduteitum frá morgni til kvölds. en þetta verður gaman. o sei sei.

nieves kemur að hjálpa mér á morgun. ég ætla að gefa henni ljótu skúffukökuna.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

konurnar hérna tala mikið um þær sem þrífa hjá þeim. það er ýmislegt sem þeim líkar ekki, og líki þeim ekki eitthvað eru þær yfirleitt snöggar að losa sig við þrifurnar. sumar vilja að þær búi hjá sér. í flestum húsum er vinnukonuherbergi sem þær útbúa með rúmi, skúffum og litlu sjónvarpi. og eigin baðherbergi.
þrifurnar mega ekki þvælast fyrir. þær mega ekki tala mikið. þær eiga helst að vita fyrirfram hvað þær eiga að gera svo að húsmóðirin þurfi ekki að vera á eftir henni að útskýra eða biðja um hitt og þetta. þær mega ekki vera með fjölskyldumeðlimi á svæðinu, nema í sérstökum tilfellum lítil börn. þær mega ekki fara í burtu nema á sunnudögum. þær mega ekki segja nei. þær mega ekki nota önnur baðherbergi eða sjónvörp en sín eigin. þær verða að þrífa vel. þær verða að elda vel. þær verða að nenna börnunum á heimilinu. þær verða að gera það sem þær eiga að gera þegar þær eiga að gera það. helst áður en einhverjum dettur í hug að þær þurfi að gera það. þær mega ekki koma með gesti og þær strauja mikið. og þær fá 600-900 krónur á dag í laun. 900 þær sem koma og fara. 600 þær sem búa á heimilinu af því að þær fá húsnæði og mat og afnot af þvottabretti til að þvo fötin sín. þvottavélin og þurrkarinn eru fyrir fjölskyldumeðlimi.
ég er með hálfgert allsherjar samviskubit gagnvart þessum konum. eða stelpum, sumar eru ekki nema um 16-17 ára. þessar ungu eru víst góðar af því að þær hlýða vel og eru ekki með fyrirframgefnar hugmyndir...og eiga ekki börn. samviskubitið stafar af því að þetta er hálfgert þrælahald. mér er sagt að þetta sé það eina sem þær geta gert, þær hafi enga menntun og fái hvergi annarstaðar vinnu. nema eitthvað sem er hvort eð er skít-illa borgað. og að þetta sé mannlegra og öruggara en margt annað sem þær gætu lent í. það er samt eitthvað sem stingur mig.
ég ætlaði alltaf að neita aðstoð. svo kom nieves sem sagði mér að þetta væri það eina sem hún kann að gera, að hún þurfi að sjá fyrir börnunum sínum fimm og hvort ég væri svo væn að leyfa henni að vinna fyrir mig. fyrir utan hvað það er gott að fá hana leið mér betur þegar ég sá hvað hún var þakklát fyrir að fá að vinna heima hjá mér. ég borga henni 900 kall svo að ég skemmi ekki harmóníuna í hverfinu með því að vera sú sem spillir vinnukonunum. en ég bið hana ekki um neitt. ég myndi ekki einu sinni kunna við það. hún gerir bara það sem henni finnst hún eiga að gera, stundum stoppa ég hana af þegar mér finnst hún hafa gert of mikið, og ég sendi hana heim með mat sem á hvort eð er eftir að fara til spillis í ísskápnum mínum, föt sem passa ekki lengur á börnin mín og tréliti og dótarí sem flæða útúr barnaherbergjunum hérna en koma sér vel fyrir börnin hennar í skólanum. hún straujar ekki, eldar ekki og kemur með börnin sín með sér þegar hún hefur engan stað fyrir þau. þau eru orðin góðir vinir dóttur minnar og hún verður fúl ef krakkarnir koma ekki með.
mér dettur heldur ekki í hug að kvarta þegar kerlurnar sitja og kvabba yfir ,,sínum" konum. þannig held ég samviskunni minni rólegri. það er samt alltaf eitthvað inni í mér.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

ég fór í líkamsrækt í fyrsta sinn í langan tíma í morgun. núna á ég erfitt með að fara upp og niður tröppur.
nágrannakonurnar byrjuðu í jóga á sama tíma. þær ætla að fara í jóga daglega. og kannski líka eróbikk tíma. mér skilst að þær segi þetta á hverju hausti en hætti svo að fara eftir nokkrar vikur. mér skilst líka að loreto, þessi sem sofnar þegar hún hlær, prumpi svo mikið í jógatímum að engin hinna nái að einbeita sér. þess vegna fer ég ekki í jóga. ekki af því að hún prumpar, heldur af því að ég er hrædd um að gera það sjálf. og ef einhver prumpar í jógatímum mun ég vera sú fyrsta sem byrjar að hlæja og sú síðasta sem hættir. ég á mjög erfitt með svoleiðis aðstæður.
loreto, þessi sem sofnar og prumpar, segist aldrei prumpa fyrir framan eiginmann sinn og að hann prumpi ekki heldur fyrir framan hana. ég hef heyrt af fleiri svoleiðis hjónaböndum hérna í mexíkó. einn vinur makans fer alltaf inná klósett til að prumpa, svona eins og ónefnd nafna systur minnar frænka gerir á morgnana. einhvernvegin þykir mér það skrýtið. kannski er það bara af því að ég er alin upp við prumpusamkeppnir og ropmeting.
ég er heimilisprumpari. prumpa þar sem ég er afslöppuð og á heimavelli. fer líka eftir félagsskap. rop er fyrsta stig. svo kemur hitt.
það væri nú eiginlega spennandi að rannsaka þetta fyrirbæri, hvort afstaða til prumps sé menningar- eða einstaklingsbundin. hmmm....

ætluðu ekki fleiri að gefa mér kökuuppskriftir?

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

sitjum með sveitta skalla við að bögglast með frumburðinum í gegnum stærðfræðiheimanám 12 ára bekkjar. mig er farið að gruna gloppur í minninu. kenni þó ekki aldri um, enda ung mjög.

annars er ég almennt tóm í hausnum. hvað skal segja?

kökur?

laugardagur, ágúst 25, 2007

erum heima hjá tengdaforeldrunum yfir helgina. makinn með salmonellu. mikið gaman.
hér niðri í tveimur íbúðum búa tvær systur tengdapabbans. þær eru um sjötugt en rífast eins og litlar systur og skella hurðum hvor á aðra. svo tala þær ekki saman í nokkra daga, vikur eða mánuði. þær rífast oftast útaf ketti annarar eða yfir því hvor þeirra sé meiri kerling. ég held að þær tali saman í dag. er samt ekki viss.

púslukerlingarnar og ég fórum saman að borða morgunmat á veitingahúsi í morgun. hérna fara heimavinnandi húsmæður oft saman út að borða á morgnana á meðan indíánakonur þrífa húsin þeirra og börnin eru í skólanum. þar borða þær megrunarmorgunmat, en leggi þær í eitthvað sem er ekki megrunar, tala þær endalaust um það. svo kvarta þær yfir öðrum konum, kennurum barna sinna og gæludýrunum sínum og skiptast á ráðleggingum um heimilishald og barnauppeldi.
ég borða bara eitthvað sem mér finnst gott og hlusta.

áðan var ég dregin inná hárgreiðslustofu. hérna fyrir framan tengdaforeldraheimilið er lítil hárgreiðslustofa sem heitir the world. sem er fyndið af því að starfsfólkið getur ekki borið nafnið fram og svarar þessvegna frekar kjánalega í símann. þau þekkja mig frá fornu fari og um leið og ég birtist var ég dregin inn. hárið á mér litað, sem er fínt því þau gráu voru farin að gægjast fram, og snyrtir endarnir. núna er ég voða sæt.

en dóttirin er að grenja úr þreytu svo ég er farin í bili.

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

fór áðan til javiers tannlæknis. kynþokkafulla aðstoðarstúlkan er horfin og önnur eldri, þéttvaxnari og síður spennandi komin í staðin. og einhverra hluta vegna byrjaði javier allt í einu að segja mér frá börnunum sínum. fékk mig til að hugsa...
en hann skellti amk. krónu yfir ónýta jaxlinn en til þess að koma henni fyrir þurfti hann að ýta tannholdinu vel í burtu. og nú ligg ég og grenja af sársauka. myndi helst vilja sofna og vakna þegar allt væri komið í lag aftur. en ég er ekki syfjuð.
ég sem ætlaði að vera svo úberhress eftir prófin er komin undir sæng og vil ekki tala við neinn. nema ykkur auðvitað...
en á morgun verð ég fín. pottþétt.
systir mín litla er komin yfir hafið til ameríkunnar. núna er hálf familían á íslandi og hinn helmingurinn í vestri. ég er í suðvestri. lóa bara í vestri. vona að hún villist ekki í vestrinu. mexíkanar kalla bandaríkjamenn gringos. bandaríkin kalla þeir gringolandia. það finnst mér hnyttið.
nema hvað... mér er illt.
vinsamlegast haldið áfram að koma með kökuuppskriftirnar. ég ætla nefnilega að baka svo mikið. er að fá um 50 manns í afmæli og það krefst margra kakna.
kakna?

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

JAAAHÚÚÚ! ég er frjáls. ég er frjáls. frjáls eins og fuglinn er, frjáls og ég skemmti mér, ég er frjáls.
prófin búin, gekk bara hreint ágætlega, yrði amk mjög hissa á falli það er víst.
núna ætla ég að láta eins og ég eigi fjölskyldu.

kerlurnar í næsta húsi eru byrjaðar á fjórða 1000 bita púsli. ég er að hugsa um að segja pass.

það er eins og heilu fjalli hafi verið af mér létt.
og það er að koma föstudagur.
lífið gæti ekki verið betra.

svo er ég að fara að undirbúa afmælisveislur afkvæmanna. hugmyndir að kökum? anyone?

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

þetta er að koma. í dag er síðasti dagur í próflestri, á morgun er prófið og voilá.
í gær fór ég í fyrra prófið, keyrði ein alla leið í háskólann sem er hér í næsta bæ og ráfaði þar um ganga þar til ég fann veronicu. konuna sem bauðst svo fallega til þess að aðstoða mig við að taka próf. hún reyndist vera um fimmtugt, sennilega rúmlega það, ljóshærð og bláeygð af því að ömmur hennar og afar voru öll þýsk. veronica tók á móti mér með stóru faðmlagi og kossi á kinn eins og hún hefði þekkt mig alla ævi og verið farin að sakna mín. hún kallaði mig elskuna sína, lífið sitt og himininn sinn í hvert sinn er hún sagði eitthvað við mig. hún skellti prófinu á skrifborðið sitt þar sem ég settist, hún settist við tölvuna, kveikti á bítlunum, drakk kaffi og spjallaði í símann og við einhvern á msn. og ég skrifaði. þessar mjög svo heimilislegu aðstæður komu mér í afslappaðan gír ólíkt því sem ég upplifi þegar ég sit í algerri þögn innanum tugi stressaðra nema og manneskja situr fyrir ofan mig og skimar hópinn.
ég er að hugsa um að taka öll mín próf í framtíðinni á skrifstofunni hjá veronicu.

mánudagur, ágúst 20, 2007

hey maja
já?
gangi þér vel í prófunum!
þakka þér fyrir, fallegt af þér að hugsa til mín

laugardagur, ágúst 18, 2007

makinn vaknaði með bullandi hita. þar fór lærdómsfriðurinn. hann liggur í rúminu og dóttirin yfir mér.
mamma komdað púsla, mamma púsla, mamma komdað púsla, maaaaammaaaa....
ég þarf að læra fyrir próf elskan mín.
hvað eru próf?
nú þá fer ég í skóla þar sem einhver passar mig á meðan ég skrifa allt sem ég veit um það sem ég er að lesa núna og svo fæ ég einkunn.
hvað er einkunn?
það er númer sem ég fæ, ég fæ 10 ef ég verð roooosalega dugleg að læra, 8 ef ég er ágætlega dugleg að læra, 5 ef ég er ekkert rosalega dugleg að læra og ég ætla að reyna að fá góða einkunn.
ókey mamma, ég skil.
(þögn)
mamma.
já.
má ég eiga hana?
hana hverja?
einkunnina þína?
já já, þú mátt eiga hana.
frábært, þá ætla ég að setja hana í sparibaukinn minn og fara svo með hana í bankann.

föstudagur, ágúst 17, 2007

foreldrarnir komnir í leitirnar. ég var við það að hringja í víkingasveitina.
sólin komin undan skýjunum. ég var við það að hringja í veðurstofuna.
sonurinn kominn útúr veikindunum. ég var við það að hringja á sjúkrabíl.
dóttirin komin á lappirnar. ég var við það að hringja uppá slysó.
makinn kominn með fæturna á jörðina. ég var við það að hringja í flugbjörgunarsveitina.
ég komin áfram í próflestrinum. ég var við það að hringja í sálfræðing.

það er aldeilis sem ég hef sparað símtölin í dag. það er eitthvað við blessaða föstudagana sem veitir gleði inní sálartetrin. sérstaklega þegar sólin skín og glaðleg tónlist hljómar í bakgrunni. ég er að hugsa um að slaka á í próflestrinum í dag, halda uppá lífið og tilveruna í staðin. á morgun ætlar svo makinn að fara í bæjarferð með börnin heim til móður sinnar hvar þau munu eyða tíma sínum framá sunnudagskveld og þar af leiðandi gefa mér frið til að lesa og lesa og lesa og lesa í tvo heila daga. brjóst mitt fyllist þakklæti og ró. ró er góð. ró ró ró jor bót djentlí dán ðe strím.

gleðilegan föstudag.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

hér er allt óspennandi í dag. frumburðurinn með hita. síðburðurinn með sárabindi um ökkla eftir óvarlegt rúmhopp í gær. ég að lesa undir próf og makinn að búa til peninga. úti er skítafýla einhverra hluta vegna, sólin falin á bak við ský og ég með ofnæmi fyrir kettinum. ekki alveg uppáhalds dagurinn minn....
ég er að minnsta kosti búin að vökva blómin svo að þau eru kát.

foreldrar mínir virðast hafa gufað upp af yfirborði jarðar. ef einhver rekst á par rétt undir og yfir 60 ára, hún lágvaxin í drapplitum og vínrauðum fötum, hann grá-létthærður með derhúfu í sportlegum fötum merktum regatta, þau gætu jafnvel verið með golfkylfur í hönd, þá má viðkomandi endilega biðja þau um að svara tölvupóstinum sínum.
og hafandi sagt það held ég áfram að lesa.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

vér erum vaknaðar, búnar með ritgerð og komnar í stuð. stuðið stafar af stanslausri strákslegri stafrænni stútun á stútfullu statífi af ....arg... kóki. ég er búin að drekka svo mikið kók á meðan ég var að skrifa ritgerðina mína að fingur mínir fljúga um lyklaborðið eins og majur á mykjuskán. hugurinn er víðs fjarri eins og harri darri. vekur upp minningar. svei mér þá. veronica á nýjan lítinn svartan labrador sem heitir maja. ég er hin stoltasta af hundinum og mér. sérstaklega mér.
ég var í sveitinni um helgina. kallar með hatta og konur með hár og krakkar með skalla. eitthvað fyrir alla. og blindur hundur. hann var með blindramann til að leiða sig um. ha ha. góður þessi. mikið assgoti borðaði ég ógeðslega mikið af fábjánalega góðum mat. þessar sveitakerlur þær kunna sko að elda. það skal ég segja ykkur. vel upp aldir andskotar. og svo var það karlinn sem átti sveitabýlið. hann erfði það og systir hans dó. þau fæddust í herberginu fyrir ofan innganginn. fjölskyldusaga einhver mikil. karlinn stakk hendinni í vél sem krakki og allt draslið skarst af nema lilliputti stýrimann. sá var svo festur í miðjuna sem krókur og núna er blessaður kallinn með krónískt fokkjú á hendinni. svo kom makinn minn fullur og sagði gimmí fæv. fékk svo harðlífi af eftirsjá. ójá. nú og ég kom heim drullu sullu bullu þreytt og svaf og svaf og svaf og svavar gests, það var nú meiri kallinn... javier stakk uppí harðjaxlinn og nú er kjafturinn á mér í sótthreinsun. steríll andskoti. og svo fór ég að skrifa. drakk sterílt kók úr dós. kók í bauk. baukur fyrir hauk sem lauk sér aldrei af.
já já já... svo segja þeir....
hvernig í fjáranum á ég að ná mér niður til að geta sofnað? kannski með því að skoða myndasíðuna mína. hmmm... kannski er ég bara búin að setja nýjar myndir þangað inn. kannski bara. ertu ekki forvitin?
ef koffín væri nýtt í dag yrði það ábyggilega bannað.

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

sem minnir mig á það... verð frá frá morgundeginum til sunnudags.
sjáumst eftir helgi.
í dag eiga foreldrar mínir brúðkaupsafmæli ef ég man rétt. til hamingju með það.

dagurinn í dag fór í djúphreinsun heimilisins og tannlæknaferð. ég gafst upp á harðjaxlinum og fór að heimsækja hann javier. hann lagfærði ýmislegt. það var skondið að liggja í stólnum og fylgjast með því hvernig hann horfði rómantísku augnaráði á hana yfir kjaftinn á mér á meðan hann stakk nál ofaní tannrótina mína. mig grunar að hann hafi haldið að ég yrði að loka augunum af sársauka. en ég er hörkutól.
annars er maðurinn drullugóður tannlæknir. og þrisvar sinnum ódýrari en sá sem ég fór til í mexíkóborg. ég sagði nú bara takk fyrir kaffið við hann skal ég segja þér.

og núna á ég að vera að skrifa ritgerð. villtist bara aðeins hingað inn.
bráðum set ég inn myndirnar úr sundlaugunum.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

jæja, nú erum við skriðin í bæinn eftir 3 daga í hita. merkilegt að það sé hægt að keyra í um 2 tíma og koma sér þannig í allt annað veðurfar. hefur víst eitthvað með hæðina yfir sjávarmáli að gera.
við eyddum þessum dögum okkar við að sulla í sundlaugum, sitja við sundlaugarbakkann, borða og spila dómínó. ansi kósí.
afleiðingarnar eru þreytt börn og brennt bak og bringa. ég sem þóttist hafa verið svo samviskusöm í sólarvörninni.

hótelið sem við vorum á var gömul svona ,,hacienda" í bæ sem heitir cocoyoc. mjög fallegur staður.

en núna erum við semsagt komin heim með nóg af rökum fötum sem eiga að fara í þvottavél, engan mat í ísskápnum, kött sem þarfnast athygli og króníska syfju.
á morgun gerum við okkur svo klár til að fara á fimmtudagsmorgni til tlaxcala á ,,rancho" þar sem við munum að því er mér skilst eyða helginni við að veiða fisk, fara á hestbak og borða góðan mat. og ég verð líka að læra.
sem minnir mig á það....

sunnudagur, ágúst 05, 2007

nú er laugardagskveld og ég að pakka niður. við erum á leið í pínku ferð til cocoyoc þar sem við munum svamla í sundlaugum og sleikja sólina í 3 daga. undir sólinni mun ég liggja með skólabækur í annarri, bjór í hinni og sólgleraugu á nefi.
svo komum við heim í 2 daga og förum aftur í 4.
en ég læt örugglega heyra frá mér á þriðjudaginn og skelli inn einhverju af myndum.

hasta banana....

föstudagur, ágúst 03, 2007

til er fólk sem er duglegt við að rækta sinn innri mann (gefandi okkur að konur séu líka menn eins og þar stendur).
svo er til fólk sem eru duglegt við að rækta sinn ytri mann.
á íslandi þekki ég góðan slatta af fólki sem er duglegt við bæði. hérna þekki ég líka þannig fólk en þó aðallega fólk sem ræktar sinn ytri mann eða hvorugt.
við hliðina á okkur býr t.d. fjögurra manna fjölskylda sem stolt segir okkur frá því að enginn meðlimur hennar lyftir nokkurntíman bók. hafa ekki áhuga. til hvers að hafa fyrir því þegar það er hægt að sjá myndina?
ég hef ekki enn heyrt samræður um annað en það sem þessi sagði við þessa eftir að hinn sagði hitt útaf því að einhver annar gerði eitthvað voðalega asnalegt/vitlaust/fyndið. konurnar hérna í húsunum eru allar heimavinnandi og lifa ansi passívu lífi. þær eru margar hættar að klæðast öðru en jogginggöllum og sjást gífurlega sjaldan tilhafðar. kannski þegar einhver á afmæli. engin þeirra sem ég þekki stundar nokkurskonar hreyfingu aðra en að ýta kerrum um verslanir. reyndar eru þær langflestar duglegar við að mæta í laser-tímana sína þar sem hárvextinum á fótleggjum, bikinísvæði, handakrikum og yfirvaraskeggi er eytt endanlega. og svo fara þær í jogginggallana yfir hárleysið. karlarnir eru að heiman frá 9-9 því þeir þurfa að vinna svo mikið til að halda herlegheitunum á floti. svo eru þeir í stanslausu stressi yfir því að halda vinnunni því að það eru svo margir um hituna í svona fjölmennu landi.
þetta er millistéttin.

hérna í mexíkó er rosalega mikil stéttskipting. á botninum eru indíánarnir. hér ríkir eiginlega reglan, ,,því meiri mexíkani, því lægri í þjóðfélagsstiganum". indíánarnir vinna flestir frá barnæsku við líkamlegu störfin, að búa til og bera múrsteina, sjá um uppskeru á ökrum og hirða rusl. næst fyrir ofan indíánana eru þeir sem mexíkanar kalla ,,nacos" (nakos). Það er fólk sem býr í borgum, á eitthvað af pening, oft fyrir að keyra leigubíla, strætóa, selja ósmekklegt dót eða ólöglega geisladiska. s.k. nacos hafa litla sem enga menntun, hrikalega klunnalegan smekk (sbr. gaurinn sem ég sá við sundlaug íklæddan níðþröngri bleikri hlébarða sundskýlu). Þeir eru líka subbur sem henda rusli útum bílgluggann og eru alltaf til í að rífast af því að þeir eru í stöðugri vörn gegn öllu og öllum.
svo kemur millistéttin. fólk flest með menntun, margar konur heimavinnandi eftir að börnin fæðast og enda í jogginggöllum. karlarnir vinna mikið. flestir hafa ferðast eitthvað og börnin fara í einkaskóla.
einhverstaðar þarna í kringum millistéttina er ákveðinn hópur fólks sem eru bóhemarnir. fólk sem gefur lítið fyrir efnisleg gæði, les mikið og skapar list. reykir gras og ræðir heimspekileg málefni.
annar hópur fólks sem er ágætlega statt efnahagslega, sennilega efri millistétt, eru svokölluð jarðarber (fresas). það er fólk sem finnst það vera yfir restina hafið, fer í dýrustu skólana, á flottustu bílana og fer bara á staði fyrir fólk sem er ,,nice" eða ,,de la high". þau sletta mikið á ensku því þau eru næstum því of fín til að vera mexíkanar. klæða þjónustustúlkurnar á heimilinu í einkennisbúning og jarðarberjakvenfólkið lætur aldrei sjá sig öðruvísi en óaðfinnanlegar. margir úr þessum hópi vinna við sjónvarp og popptónlist og þessháttar. mikið um brjóstaígræðslur og annarskonar lýtaaðgerðir.
svo er það ríka fólkið. það skiptist í nýríka sem eru yfirleitt nacos sem hafa verið heppnir í viðskiptum, og ríkar fjölskyldur sem muna varla eftir öðru en að vera ríkar, eigendur stórra fyrirtækja eða pólitíkusar. það er fólk sem lítur út eins og frakkar, spánverjar eða eitthvað frá evrópu. jafnvel gyðingar eða frá líbanon. en þau líta ekki út einsog orgínal mexíkanar.
stíllinn í húsum þeirra nýríku er mjög ólíkur stíl þeirra gamalríku.
og svo eru það þeir langríkustu. það eru eiturlyfjabarónarnir. þeir eru ósýnilegir.

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

hún á ammælí dag
hún á ammælí dag
hún á ammælún mamma mín
hún á ammælí dag
húrra húrra húrra húrra!

mamma mín, afmælisbarnið, hefur þann sið að syngja fyrir afmælisbörn. hún syngur þetta lag sem allir syngja, en gerir það við annað lag, öllu háfleygara. ef hún hittir ekki viðkomandi afmælisbarn syngur hún í símann. ef ekki í símann finnur hún leið, það eitt er víst að hún syngur.
ég ætla að syngja fyrir hana í símann. bara venjulega lagið samt. held ég.

fyrst ætla ég að fara að sofa.

miðvikudagur, ágúst 01, 2007

stundum langar mig að vera endalaust á ferðinni. eiga ekkert merkilegt annað en það nauðsynlegasta og þvælast um laus við skuldbindingar. gera bara það sem mig langar að gera. skulda engum neitt.
stundum langar mig að eiga lítið sætt hús með góðum og fínum húsgögnum, fallegu eldhúsi sætum barnaherbergjum og grónum garði. vinna á góðum vinnustað (veit þegar um einn sem hentar mér fullkomlega), og ferðast þegar ég á frí.
yfirleitt er ég einhverstaðar mitt á milli og það getur verið ruglandi.
en vegir liggja til allra átta um leið og hver vegur að heiman er vegurinn heim, enda ekkert fegurra en vorkvöld í reykjavík. og tilvera okkar er undarlegt ferðalag þar sem einn dag úti regnið grætur og næsta dag sól sól skín á mig.
hvað er að þér nú
þig vantar alla trú
ertu eitthvað sár
það streyma niður tár
þett´er ekki neitt
þú getur þessu breytt
æ og skammastu þín nú.
(syngist)