miðvikudagur, júní 30, 2004

mér finnst mjög ósmekklegt af forríkum fyrirtækjum og stofnunum að vera að senda fátæku fólki reikninga um hver mánaðarmót. þá ætti amk að vera til happdrætti hjá þeim þar sem í hverjum mánuði myndu 100 manns sem eru með undir einhverjum mörkum í heildartekjur fjölskyldu, fá strokaðar út skuldir sínar þann mánuðinn. þetta ríka lið munar ekkert um svoleiðis smápening. ég væri hins vegar alveg til í að sleppa við eina og eina skuld endrum og eins. nú skulda ég td. bankanum, lánasjóðnum, íbúðarlánasjóði og mömmu. svo þarf að borga rafmagnið og hitann, símann,fótboltaæfingar frumburðarins, dagmömmuna, visakortið, tryggingarnar og leikjanámskeiðin. í ofanálag er dreginn af mér skattur sem má þá teljast til enn eins kostnaðarliðarins. sem minnir mig á það...bíllinn minn er í viðgerð...það kostar líka.
ég hreinlega næ ekki utanum þetta alltsaman.
mánaðarmót eru grimm.

þriðjudagur, júní 29, 2004

ég hata flugurnar með löngu mjóu leggina. þessar sem eru eins og fiðrildis-flugu-kóngulær. fljúga allar einhvernvegin í flækju fyrir sjálfum sér og þvælast inn til mín í tíma og ótíma. óþolandi helvíti. þær eru jafnvel enn verri en feitu svörtu fiskiflugurnar sem eru svo heimskar að þær eru stanslaust að fljúga á gluggana og svo heyrist svona zzzzþúmpzzzzzþúmpzzzz út í eitt. svo þoli ég ekki skordýr sem stinga, sérstaklega ekki ef þau fljúga og stinga. mér er illa við kóngulær í návígi. þær sem hafa vit á því að gera vefinn utaná glugganum sleppa. þær sem voga sér inn eru skrímsli (ý?).
mér finnst ánamaðkar vera slepjulegir og sniglar valda mér gæsahúð. samt á ég einhverra hluta vegna óskaplega erfitt með að kála þessum skröttum. ég klessi reyndar miskunarlaust mosquito-flugur sem vilja blóð úr mér eða mínum, en öðrum skordýrum geri ég yfirleitt ekki mein. ég veiði geitunga og aðrar hlussur í glas og sleppi þeim úti. ég ýti kóngulóm pent þangað sem þær angra mig ekki, ég hristi snigla aftur í grasið og ég tek ánamaðka upp með priki þegar þeir eru að þorna upp á gangstéttum eftir rigningardaga. svo skutla ég þeim aftur út í mold. ég stíg heldur ekki á ánamaðka nema ég sé alveg viss um að þeir séu ekki með lífsmarki.
ég veiddi einu sinni marhnút á bryggjunni á Hólmavík. mér var sagt að sparka í hann og drepa hann, en þegar ég ætlaði að sparka var eins og æðra afl hefði gripið í fótinn á mér og stöðvað hann. marhnútnum var sleppt aftur hressum og kátum út í atlantshafið.
í fyrra var ég á gangi ásamt frumburðinum heim úr skólanum í höfuðborg þeirra mexíkana þegar ég sá lítinn fuglsunga. hann var ógeðslegur að sjá, greinilega nýskriðinn úr egginu, fjaðralaus og bleikur með útstæð svört augu. þarna lá þetta litla kríli steindautt og hafði greinilega dottið ofan úr hreiðrinu sem ég sá glitta í lengst uppi í tré. frumburðurinn hafði ekki tekið eftir unganum og við héldum áfram göngunni. einum 30 skrefum síðar sá samviska mín sér ekki annað fært en að snúa við. ég sýndi drengnum fuglinn og við ákváðum að grafa hann við rætur trésins. sem betur fer var örlítill moldarblettur sem ekki hafði verið malbikað yfir og þar grófum við holu. þar sem hvorugt okkar gat hugsað sér að snerta stykkið fundum við okkur lítið prik sem við notuðum til að ýta honum ofaní holuna og svo mokuðum við yfir. þetta sama prik brutum við í tvennt og með litlu bandi (það er ýmislegt að finna á gangstéttum í mexíkó), bundum við prikin í kross. þessum pínulitla krossi var svo stungið við leiðið og við signuðum hann og héldum svo göngunni áfram. mikið var ég fegin að hafa snúið við. þarna liggur hann svo vonandi ennþá í litlu gröfinni sinni við götuna Huasteca í norðurhluta borgarinnar. í friði.
ó mæ god hvað ég hlýt að vera búin að safna mér fínu karma...ha!

mánudagur, júní 28, 2004

hananú. ég toppaði allt draslið um helgina. það hlaut eitthvað að vera. bölvaðar hormónasveiflur.
frumburðurinn er nýskriðinn í hús eftir eyjaferðina miklu. ég er ekki búin að hitta hann, en get ímyndað mér svitastorknu fótboltasokkana og annað sem ég á eftir að draga uppúr töskunni hans. ég sá nefnilega á myndum frá mótinu að blessaðir drengirnir voru í sama gallanum alla ferðina. (vissi að ég hefði ekki þurft að pakka svona miklu niður)
annars er það að frétta að við makinn sátum inni alla helgina yfir síðburðinum sem fékk sér hita og einhverja bölvaða vellu. þá var um lítið annað að ræða en vídeó og nammi á allt heila klabbið. svo var lítið sofið vegna þess að þessi kríli eru einhverra hluta vegna alltaf verst þegar ég hef mesta þörf fyrir ró og frið. í dag er ég þessvegna með fagurbláa bauga undir augum og frekar slappt augnaráð. er samt í assgoti fínu skapi. gæti haft með það að gera hvað það er ágætt að sleppa útúr húsi eftir svona veikindatarnir.
nema hvað, í gær var mótmælaganga í mexíkó. gengið var um allt land, en í höfuðborginni mættu víst vel ríflega 2 milljónir og allir hvítklæddir. Þetta var borgaraleg hreyfing sem er að mótmæla aumingjaskap yfirvalda í baráttunni gegn mannránum, morðum og almennu óöryggi landsmanna. það er vonandi að eitthvað verði gert.

ef ég ætti 10 óskir myndi ég óska mér eftirfarandi:

1. að ég og makinn gætum unnið við það sem okkur þykir skemmtilegt að gera og haft ágætlega uppúr því.

2. að glæpum myndi fækka og engin óöryggistilfinning fylgdi því að vera í öðrum löndum.

3. að flugmiðar yrðu muuun ódýrari.

4. að enginn sem ég þekki (including myself) verði nokkurntíman veikur eða þyrfti að deyja.

5. að ég ynni í víkingalottó.

6. að ég gæti lært ein 10 tungumál í viðbót.

7. að ég dytti allt í einu í ofsalega gott líkamlegt form (alveg áreynslulaust) og festist þannig það sem eftir er.

8. að ég fengi tilboð um að skrifa kvikmyndahandrit, bók eða handrit að sápuóperu, og gæti gert það vandkvæðalaust með góðum árangri.

9. að bíllinn minn væri sjálfskiptur að því leyti að hann skipti sjálfur um allt sem hann vantaði. bensín, olíu, dekk, kúplingu...osfrv.

10. að bandaríkin og allt sem þeim fylgir myndu læra hógværð og hættu að bossast með okkur hin.

ef þessar óskir rætast, allar, sumar eða jafnvel bara ein, verð ég með kátari manneskjum allra tíma.

óskir óskast...

föstudagur, júní 25, 2004

drengurinn er búinn að vinna 3 leiki, jafna 1 og tapa 2. það er fjör í eyjum.
annað en hér. engin föstudagsstemming. fólk er svartklætt, eins og í jarðarför. það er hálf jarðarfararlegt úti. sumarið er dáið. pollýanna myndi vera fegin að vera ekki í garðavinnu núna, en pollýanna er slöpp í dag. mánaðarmótin nálgast. þau verða líka jarðarfararleg hjá mér í þetta sinn eins og svo oft undanfarið. ég er eiginlega hálf pirruð á þessu öllu saman í augnablikinu. nú vantar mig bara að toppa allt draslið og byrja á túr. það væri nú.
ég á samt yfirleitt erfitt með að vera fúl lengi. spurning hvort það sé einhver genetískur galli. fjölskyldan mín er yfirleitt mjög fljót að afgreiða pirring. við erum hálfgerðir fýluleysingjar. ég er oftast óvart farin að hoppa og dansa aftur áður en ég veit af. sem er sosum ágætt ef út í það er farið. ég nenni samt ekki að dansa í dag. amk. ekki í augnablikinu. kannski á eftir.
hversdagsleikinn ætlar mig lifandi að drepa. ég er ekki á leið í sumarfrí á næstunni svo ég hef fá tilhlökkunarefni. ég er bara að skrá kennitölur og iðgjöld í vinnunni þessa dagana, ekki mikill spenningur þar. hjólið er komið aftur í geymsluna þar sem það bíður betra veðurs. garðurinn minn er blautur og drullukenndur. reikningarnir eru vafðir utanum hálsinn á mér og skítalabbinn sem ætlaði að leigja okkur plássið á laugarvegi sveik okkur. bíllinn minn er í hassi einu fríhelgi sumarsins hjá makanum og heima hjá mér er einfalt gler.
ég er þó búin að taka til og það er vissulega kostur. hreint hús er þægilegra og síður þunglyndisvaldandi en skítugt hús. spurning hvort það sé nóg...
ég held að ég sé ekki skemmtileg í dag.

fimmtudagur, júní 24, 2004

jæja þá er barasta kominn vetur aftur. til hamingju með það. frekar fúlt hvernig okkur eru send sýnishorn af góðu veðri til að gera okkur spennt, en svo er fólk ekki fyrr búið að rífa upp sumarfötin (og farið að hjóla í þeim) en þetta er orðið lopapeysuveður aftur. skrambinn.
en ég kom ekki hingað til að tala um veðrið.
nú er það að frétta að bíllinn minn sem ég skírði chachy (tsjatsí) fór að hikksta í gær. í morgun tjáði ljóshærður ungur maður í bláum samfestingi mér að kúplingin væri að klárast. klárast kúplingar? merkilegt hvað svona fjölhæf manneskja eins og ég sjálf er mikill óviti þegar kemur að bílum. en semsagt, eitt stykki kúpling í bíl kostar um 50.000 krónur íslenskar. þá er eins gott að herða sultarólina enn frekar (ég er reyndar komin í síðasta gat), og sleppa því að fara í útilegu um helgina. svo er sosum spáð leiðinlegu veðri, en ég er semsagt ekki hérna til að tala um það...
alveg er það merkilegt hvernig óvæntur kostnaður og nýir reikningar hlaðast á mann þegar fjármálin eru tæpari en ella. ég fer að hallast að hugmyndinni um samsæri. samsæri gegn afkomendum kommúnista? samsæri gegn fólki með mannfræðipróf? samsæri gegn mökum útlendinga? samsæri gegn anti-sportistum? samsæri gegn fyrrv. blokkarbörnum úr breiðholtinu? samsæri gegn bókaormum? samsæri gegn fólki sem á ekki gasgrill? samsæri gegn fólki á ryðguðum toyotum? samsæri gegn fólki með beyglaðar tær?
spurning um að taka einhvern þráðinn upp og rekja, það gæti orðið forvitnilegt að sjá hvert það leiðir.
en það er eitthvað í gangi....

miðvikudagur, júní 23, 2004

er að fara með frumburðinn á bsí til að fara á shell mót í eyjum. það er forgangur í dag.
ps. veit einhver um ódýrt lítið verslunarhúsnæði á laugarvegi eða skólavörðustíg?

þriðjudagur, júní 22, 2004

ég lenti í smá dilemmu í morgun. að sjálfsögðu er ég enn fír og flamme í hjólabransanum, bruna til og frá vinnu á bláa tryllitækinu með hnakkinn í rassinum. en. í dag er svo svaaakalega gott veður að mig langaði óneitanlega til að dusta rykið af sumarfötunum mínum sem hafa ekki fengið að líta dagsins ljós síðan ég var síðast í Acapulco (lööng saga fyrir þá sem ekki þekkja til lífs míns). nema hvað, sumarfötin mín eru voða létt og lítil. ég átti óskaplega erfitt með þetta alltsaman, enda ekki auðvelt að púsla saman flaksandi sólarlandafatnaði og hjólreiðatúrum. ég valdi að lokum blátt hnésítt pils, svona vafið um mig, hvíta blússu með bláum útsaumuðum blómum, ljósar nælonsokkabuxur, rosa stuttar stuttbuxur undir pilsið (til að losna við vandræðagang með hnakkinn og vindinn), og sandala. þetta virkaði allt voða sumarlegt og sætt þegar ég lagði af stað úr húsi með bleikan gloss, bros á vör og bláa tryllitækið í klofinu.
vandræðin hófust þegar ég hraðinn fór að mynda vind og pilsið var eiginlega frekar orðin lítil blá mittisskykkja. þá prísaði ég mig sæla fyrir að hafa verið nógu klók til að hafa látið mér detta stuttbuxurnar í hug. allt í góðu með það. þegar ég var komin langleiðina að nordica hótelinu voru nælonsokkabuxurnar og sandalarnir farin að pirra mig all svakalega með sleipleika sínum, það var einhvernvegin ekkert stamt á milli þeirra.
þar sem ég hossast niður af kanti og tek framúr tveimur miðaldra þýskum túristum tókst mér einhvernvegin að missa annan sandalann af mér og það sem hefði annars verið voða graceful framúrtaka hjá mér var nú orðinn klaufalegur þumbaragangur og hökt á einum fæti með hjólið á milli læranna og allt í hring til að veiða sandaladjöfulinn aftur. það tókst að lokum og ég brosti kjánalega og sagði guten tag..ehe... eða eitthvað svoleiðis. svo hjólaði ég áfram. fyrir framan hótelið stóð hellingur af japönum. ég hafði heitið mér að halda stílnum það sem eftir væri ferðarinnar en það tókst nú ekki betur en svo að ég krækti hælnum í eitthvað drasl á hjólinu og fékk lykkjufall frá hæl og upp. beint fyrir framan japanina. held samt ekki að þeir hafi verið nógu fljótir að munda myndavélina til að ná skoti.
þegar þarna var komið sögu voru glæsileikinn og sexapíllinn minn orðnir ískyggilega sorgmæddir. en ég djöflaðist áfram með bláu skykkjuna, lykkjufallið og sleipu sandalana út um allt. restin af leiðinni gekk þó áfallalaust fyrir sig þangað til ég var komin beint fyrir utan bygginguna þar sem ég vinn. lokatrukkið í hjólreiðaferðinni er pínkulítil brekka sem ég hjóla upp til þess að komast að innganginum þar sem ég geymi hjólið.
um leið og ég lagði af stað upp brekkuskrattann birtist óvenju glæsilegur ungur maður í jakkafötum, voða fínn og straujaður og sætur. ég sá mér að sjálfsögðu ekki annað fært en að reyna að djöflast upp brekkuna á eins áreynslulausan hátt og eins tignarlega og mér var mögulega unnt.
ég veit ekki hvað er að gírunum en þeir eiga stundum til að skipta sér sjálfir án þess að spyrja drottningu né prestsfrú. um leið og ég spyrnti í til að komast á smá fallegan skrið upp brekkuna ákvað hjólið mitt að skella sér í 1. gír og poing, ég skall niður með fótinn, skutlaði sandalanum lengst niður eftir bílastæði og skakklappaðist útaf hjólinu. svo hugsaði ég ,,djöfulsins andskotans helvítis", en sagði bara ,,jesús minn!" því ég var enn að reyna að líta ekki út eins og algjör fáviti og brussa dauðans í augum jakkafatans. þegar ég hugsa þetta þó í retrospectiv þá er mér sosem drullusama hvað hann hugsaði. ég er samt hætt að hjóla í sumarfötum.

mánudagur, júní 21, 2004

ég fór í bæinn aðfaranótt sunnudags sem er vissulega í frásögur færandi.
ég var í gæsapartýi ásamt fjölmörgum vinkonum og ákvað að vera nú ekki partípúper og fara með á djammið eftir partý. nokkuð sem ég geri svotil aldrei. það var einróma álit viðstaddra að "staðurinn" væri mojito eða mojitos eða það þarna uppi á lofti fyrir ofan apótek. allar í okkar fínasta pússi stilltum við okkur upp fram nú allar í röð og lentum eiginlega alveg fremst. ég gat nú ekki ímyndað mér að við yrðum að bíða lengi þegar röðin var ekki lengri en þetta. svo bættist og bættist aftaní hana og enn vorum við með þeim fremstu. en enginn inn. hinumegin við dyraverðina safnaðist líka fólk. það voru sko celebin sem þar voru á ferðinni og runnu smurt inn og út eins og þeim sýndist. á meðan húktum við almúginn í röðinni og trömpuðum hvert annað niður í hvert sinn sem dyravarðaraulinn skipaði okkur að bakka um eitt skref (við vorum víst að verða of plássfrek fyrir þessa elsku). svo leið og beið og inn fór eiður smári ásamt fylgiliði, hin ýmsu andlit úr fréttatímum landsmanna, popp-tíví gúrú og fleiri. kjánatilfinningin sem bærðist innra með mér fór stigvaxandi þar sem ég stóð með laust munnbeinið sökum drykkju og úthúðaði þessum smáborgaralega skrýl sem vælir yfir mannréttindum og lýðræði í frétta- og umræðuþáttum en misnotar svo aðstöðu sína til að vaða yfir okkur plebeyjana á skítugum skónum þegar slökkt er á kamerunni.(ég var sko búin með nokkuð marga bjóra og orðin mun pólitískari en ella). eftir tæpan klukkutíma í troðningi og traðki varð ég að spyrja mig hvort þessi staður væri þess virði að fórna stolti mínu og sjálfsvirðingu. ég kaus mig, smeygði mér útúr raðarandskotanum og rölti heim með bros á vör, ánægð yfir því að hafa tekið afstöðu. svo er aftur annað mál hvort einhverjum sé ekki alveg sama og hvort sú staðreynd að ég hafi heitið mér að fara aldrei inn á þennan blessaða skemmtistað muni hafa áhrif á rekstur og gengi staðarins. mmm... það getur sosum allt gerst... en ég er hætt í skemmtistaðaröðum. mér finnast þær vera vandræðalegar og sérstaklega kjánalegar þegar fólk fær að vaða framfyrir þær endalaust. ég hef heldur ekki enn fundið stað sem er virkilega þess virði að eyða klukkutíma í bið til að komast inn. má ég þá frekar biðja um kók, súkkulaði og vídeóspólu. og smá snefil af stolti.

föstudagur, júní 18, 2004

jújú það var þjóðhátíð í gær. ég er nú farin að verða minna og minna spennt fyrir henni eftir því sem árin færast yfir mig. enda varð ég fegin að sleppa í vöfflur og pan au chocolat til mömmu. frumburðurinn 8 ára sagði mér í gær að hann skildi ekki alveg tilganginn með því að ráfa um bæinn, skítkaldur, til þess að sjá fólk. það eru greinilega fleiri gamlar sálir í minni fjölskyldu en ég sjálf. reyndar var hann mun spenntari fyrir tónleikunum um kvöldið. þar var kúl að vera. fullt af unglingum og frægir söngvarar og soleis. við foreldrarnir létum okkur hafa birgittu og kalla bjarna til að viðhalda barnslegri gleði og spenningi á þjóðhátíðardeginum. það er sama hvað ég er orðin afhuga þessari stemmingu, mér finnst að hann verði nú aðeins að upplifa múgæsinginn og fiðringinn sem fylgir svona dögum. ég er reyndar mun meira fyrir menningarnóttina. enda menningarleg mjög. ehemm... (eru flugeldar ekki menning?)
nema hvað, tvær ókeypis blöðrur. ein flaug og hin sprakk. entust allt í allt í einar 25 mínútur. eitt kandífloss til styrktar íþróttafélaginu val (vali? valur? vals? was??)
og pulsa.
vöfflurnar og franska brauðið voru best.
ég var meira að segja til í að horfa á fótbolta til þess að fá að vera áfram inni. þá er mikið sagt.

miðvikudagur, júní 16, 2004

nú er ég búin að halda hádegisfund. hádegis-matarfund meira að segja. ég fékk mat frá shalimar í austurstræti og get svei mér þá mælt með honum. hafði aldrei smakkað en var mjög ánægð og allir viðstaddir sömuleiðis. það var svolítið gaman að sjá karlana þegar þeir byrjuðu að svitna á skallanum því þetta er nett spicy, eins og slíkur matur á að vera. gott mál.
ég labbaði í vinnuna í dag. gerði mér grein fyrir því um leið og hann keyrði útúr innkeyrslunni að makinn var með báða lyklana að hjólageymslunni. ég rauk af stað á eftir honum æpandi og gólandi en hann hélt bara áfram. svo varð hann stopp á rauðu ljósi á næsta horni og ég gaf allt í botn á hlaupunum og vinkaði eins og ég ætti lífið að leysa. þegar ég var alveg að ná honum kom grænt og minn lullaði sér af stað eins og ekkert hefði í skorist og ég neyddist til þess að labba bölvandi og ragnandi alla leið. mætti nottlega of seint, en það var víst óumflýjanlegt miðað við aðstæður. svo var ég ekki einu sinni með klink í vasanum til að fara í strætó. aldrei á ég klink þegar ég þarf á því að halda.
ef einhver sá dökkhærða stúlku í svörtu vesti vera að hlaupa öskrandi og baðandi út öllum öngum á hverfisgötunni snemma í morgun, þá var það ég.
svo er hann alltaf að minna mig á að nota baksýnisspegilinn...

þriðjudagur, júní 15, 2004

attí kattí nóa
attí kattí nóa
emissa demissa dollaramissa dei
setra kolla missa rató
setra kolla missa rató
attí kattí nóa
attí kattí nóa
emissa demissa dollaramissa dei

hver samdi þetta rugl eiginlega? eða er þetta kannski einhver gamall miskilningur?

ég bara spyr...

mánudagur, júní 14, 2004

fór í 125 ára afmæli um helgina. tvö 30 og eitt 65. get varla opnað augun úr þreytu í dag enda alveg komin úr þjálfun í að drekka mikið, kjafta mikið, syngja og dansa mikið og vaka lengi. svo hjólaði ég heim. guð hjálpi mér.
svaf framyfir hádegi í gær, nokkuð sem ég hef heldur ekki gert síðan ég veit ekki hvenær. svo fór ég snemma að sofa aðfaranótt dagsins í dag, en það virðist ekki hafa verið nóg. kerfið er allt komið úr sambandi og ég er andlega og líkamlega í tómu rugli. samt skemmti ég mér hrottalega vel. ég uppgötvaði á laugardagskvöldið að tónlistarsmekkurinn minn er yfir höfuð ekki vel liðinn hjá íslendingum. ég spilaði lag eftir lag af eintómum perlum og reyndi mikið að velja ekkert nema það auðmeltanlegasta og skemmtilegasta, en þrátt fyrir allt var ég púuð niður og yfirgnæfð með trompetlausum lögum á ensku. þegar rapp á dönsku var tekið framyfir mariachi vargas de tenochtitlan, var mér allri lokið. ég segi hér með af mér sem partý-plötusnúður. ef einvher vogar sér að segja gott skal sá aðili látinn dúsa með mér í stuði yfir geisladiskasafninu mínu í heila helgi.
enska sprenska...puh.... þetta lið kann ekki gott að meta, fúlsuðu við pedrito fernandez og pedro infante. ég rétt svo fékk að klára heilt lag með carlos vives...
vitleysingar.

föstudagur, júní 11, 2004

í gær fékk ég bara error þegar ég ætlaði að komast hingað inn á mína kæru bloggsíðu. varð semsagt ekkert mikið úr því.

nema hvað... í dag er jú föstudagur. skýin draga örlítið úr fúttinu og gera þetta allt mánudagslegra, en þó einhverstaðar inni við bein veit mín litla sál að það er að koma helgi. helgar eru góðar.

ég tek aldrei neitt sérstaklega eftir fólki sem er úti að hjóla. ég sé það kannski í fjarska svona rétt til að átta mig á hvert það stefnir svo að ekki verði árekstur, en það er allt og sumt. samt þegar ég er að hjóla hef ég á einhvern gersamlega fáránlegan hátt á tilfinningunni að allir sjái mig svo vel og skýrt. ég hef áhyggjur af því hvort það sé ekki fáránlegt að vera með hnakkinn svona á kafi í rassgatinu á sér, hvort buxnaskálmin í sokknum sé ekki fíflaleg og hvort ég sé með hor í nefinu. þegar ég svo sest niður og hugsa málið til enda geri ég mér grein fyrir því að enginn, og þá meina ég enginn, hefur tekið heftir ofantöldu, og þó svo væri að einhver hefði leitt hugann að samruna hnakksins og rassssins á mér hefur sá hinn sami verið búinn að gleyma því á sama augnabliki og hugsunin fór í gegn. þannig að í rauninni eru þessar vangaveltur mínar tímasóun, orkusóun og bull. það er alveg hrikalegt hvað við getum verið gagnrýnin á okkur sjálf. sérstaklega við kvenfólkið. talandi um að sjá flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin, þá mætti eiginlega segja að útlitslega séð væru konur oft duglegar við að sjá flísar í augum annarra, en það er þá kannski frekar til að losna við að hugsa um regnskóginn sem við sjáum stanslaust í eigin augum. báðum.
eftir þessar pælingar er kominn tími til að stinga batanga.com í vinstra eyra, slökkva á heilanum, skrá kennitölur og bíða eftir því að það verði komin helgi.
góða slíka.

miðvikudagur, júní 09, 2004

ég er svei mér ekki frá því að rassinn á mér sé að lyftast upp eftir að ég fór að hjóla. reyndar er ég bara búin að hjóla tvisvar þannig að þetta er kannski tálsýn og draumsýn og óskhyggja, en ég ætla samt að halda mig við hina jákvæðu niðurstöðu. rassinn á mér er að lyftast upp. nú verð ég bara að passa að hann haldi ekki áfram að lyftast og lyftast og lyftast þangað til ég verð eins og igor.
það sem af er degi hef ég setið hér á nákvæmlega sama stað og pikkað inn kennitölur og iðgjöld. með stóran bunka af blöðum á vinstri hönd, reglustiku til að fylgjast með í hvaða línu ég er stödd, hægri hönd á lyklaborði og svo skrái ég eina línu, færi reglustikuna niður, aðra línu, niður.. osfrv. þangað til blaðið er búið, þá prenta ég út fylgiskjalið og skrái fylgiskjalsnúmerið á blaðið. svo vippa ég því yfir og það fer á hvolf í bunka á hægri hönd. þetta var það sem ég gerði í dag og mun gera í uþb klukkutíma í viðbót. af þeim sökum hefur hugarflug mitt og andleg náðargáfa verið kæfð í mollu og drullu og ég get ómögulega látið mér detta nokkur einasti skemmtilegur hlutur í hug. hinsvegar var ég ansi góð í að útskýra húsnæðisfjármögnun í gestabókinni minni. guess it comes with the territory....ég er öll á þessháttar bylgjulengd eftir veru mína hér í talnaheimum.
nú skil ég hvernig persónu jack nicholson leið undir lokin í who flew over the coocoo´s nest (hvernig skrifar maður annars kúkú?)

þriðjudagur, júní 08, 2004

ég þekki persónu sem talar og talar og talar og talar og talar og segir svo eitt orð að lokum. einfaldar spurningar verða að flóknustu svörum og löngum fyrirlestrum og er engin leið að stöðva flóðið þegar tappinn hefur verið tekinn úr. ég hef gert tilraunir þar sem ég hef prufað að spyrja spurninga sem í hugum flestra ættu aðeins að bjóða uppá já eða nei svar. þessi manneskja hefur þó aldrei klikkað á því að breyta jái eða neii í amk. hálftíma upplýsingaflæði. upplýsingarnar eru reyndar mis-merkilegar mjög.
þetta þykir mér merkilegur en jafnframt óæskilegur hæfileiki. ég hef staðið sjálfa mig að því að rausa lengi um lítið og hætta ekki fyrr en allt of seint. en ég þykist þó vita hvenær ég á bara að segja já eða nei.
já og svo er ég farin að hjóla í vinnuna. er að bíða eftir að fá sigg á rassinn til þess að það hætti að vera sársaukafullt þarna í neðra, en ég finn sosum kannski ekkert svo svakalega fyrir því þegar harðsperrurnar í lærunum yfirgnæfa sársaukann. svo er ég líka eitthvað skrýtin í bakinu. ég segi það og skrifa, íþróttir eru óhollar.
það versta er að ég vinn við að sitja. aðal verkfærið mitt er bilað, getur fólk fengið veikindapening út á auman rass?

mánudagur, júní 07, 2004

ég ætlaði að skrifa á föstudaginn. ég hefði skrifað á föstudaginn. en þá kom andrés önd, með hjálparhönd.
sko...
rauðhærður maður (það að ég skuli taka fram að hann hafi verið rauðhærður er ekki merki um fordóma gagnvart rauðhærðum, heldur er þetta gert í því skyni að gera frásögnina myndrænni og skýrari fyrir lesendur), en semsagt...rauðhærður maður á óræðum aldri var ráðinn af húsfélagi suðurlandsbrautar nr. eitthvað, til þess að klæða veggjarstubb uppi á þaki (á erfitt með að lýsa á þennan sama myndræna hátt þakaskipan suðurlandsbrautar) en allavega þá var þessi maður þarna fenginn til að ganga frá og klæða einhvern skrattans vegg sem þarf að klifra uppá þak á húsinu fyrir aftan til að komast að, og þarna var manngufan að djöflast með heyrnartól á höfðinu í bláum galla á föstudagsmorgni. á sama svæði og þakrenna þaksins fyrir ofan vegginn sem hann stóð á hinu þakinu til að laga, lá mjó og grá óræð snúra. snúran virtist liggja útum einhvern glugga þarna á næsta húsi við og niður um þakið á lyftuhúsinu á þakinu við hliðina á þakinu sem maðurinn stóð á til að laga vegginn undir þakinu sem snýr að suðurlandsbraut. allavega var snúran að þvælast fyrir honum. eitthvað var tilvera blessaðrar snúrunnar að trufla þennan rauðhærða mann, og hann sá ekki betur en að hún væri trosnuð og tók í framhaldi af því þá ákvörðun með sjálfum sér að snúrudruslan hefði sennilega hvort eð er engum sérstökum tilgangi að þjóna. hvað er ein snúra til eða frá...?
nema hvað, tók þá kauði sig til með öllu sínu rauða hári og klippti barasta snúrukvikindið í sundur og rúllaði endunum pent í hönk eins fjarri veggskrattanum sem hann var að laga og hann mögulega gat. þetta gerðist kl. 9:27 á föstudagsmorgni. frá og með þeirri stundu var heil hæð í húsinu við hliðina á þakinu sem hann stóð á til að laga vegginn undir þakinu á húsinu fyrir framan, sambandslaus við umheiminn, nema í síma, sem kom að litlu gagni þegar engar voru upplýsingarnar fáanlegar í tölvunni til að þjóna þeim sem hringdu.
ég var á sandölum og í pilsi í vinnunni þennan dag. mín voða hress og kát og sumarleg svona á fallegum föstudegi. en þegar mér var kippt úr sambandi stóð mér ekki á sama og ég gat ekki hugsað mér annað en að láta aulabárðinn vita af því sem hann hafði gert. nú og svo klifraði ég í allri minni lofthræðslu upp á helvítis þakið sem maðurinn stóð á til þess að benda honum á mjög kurteisislegan hátt á hvað hann væri mikill endemis blábjáni. og það gerði ég án þess þó að særa blygðunarkennd eins né neins. gott ef hann gerði sér nokkuð grein fyrir því að hann hafi verið skammaður á annað borð... hmmm... oh, ég er of kurteis... arg...
nema hvað. stuttu síðar kom önnur persóna upp á þakið, en það var gaurinn frá tölvufyrirtækinu sem hafði verið kallaður til að reyna að bjarga málinu. hann kom og skammaði rauðhaus líka á kurteisislegan hátt og skoðaði snúruna (sem voru nú orðnar tvær). svo ætluðum við niður en þegar hann var um það bil að fara að klöngrast af stað gólaði ég "pant fyrst því ég er í pilsi!". hann tók því að vísu ekki illa þó svo að ég hafi síðar grunað hann um að hafa viljandi ætlað niður á undan til að geta séð svörtu lukkunærbuxurnar mínar... en það tókst honum ekki því ég er pen og vel upp alin stúlka.
nema hvað. ekkert varð sambandið þangað til í morgun þegar tölvugaurinn, sem ég kýs nú að kalla bubba í höfuðið á bubba sem byggir vegna galla-smekkbuxnanna sem hann klæddist í dag, datt í hug að fá rafvirkja á staðinn, sem hann og gerði. rafvirkinn var lægri og enn þjappaðri en bubbi, sem þó leit út fyrir að vera duglegur í ræktinni, og þar sem ég horfði hugfangin á tvo samanrekna vöðvastælta ljóshærða strípaða bláeygða menn og annan í smekkbuxum, gat ég ekki annað en rekið upp bros.
netið er komið í lag.
halelúja.

fimmtudagur, júní 03, 2004

ég er að fara að vinna vinna vinna á nýjum stað stað stað ligga lái lái lái það er svo gaman gaman gaman að ég sprella sprella sprella niðrí hné hné hné og hann sté sté sté sér til höfuðs höfuðs höfuðs en þá kom einn einn einn lítill api api api í góðu skapi skapi skapi og það var satt satt satt. þetta er gleðilagið mitt sem ég samdi í tilefni dagsins.
það verður reyndar nett fúlt að yfirgefa hið afslappaða og þægilega andrúmsloft sem ríkir hér á vinnustað mínum núverandi, en það kemur þá bara vonandi eitthvað annað gott í staðin. þetta býður þó amk uppá að ég taki höfuðið útúr rassgatinu á mér og fari að stunda sjálfstæða hugsun og öðlist smá ábyrgðartilfinningu. heilanum mínum er óhollt að liggja í leti tímunum saman og dögunum saman og vikunum saman og mánuðunum saman. á endanum fer ég bara að skrifa setningar eins og þá sem fer á undan þessari, og það er ekki gott mál heldur ansi léleg íslenska.
svo er ég að fara að láta taka myndir af eldri borgurum með skrípalæti á eftir. vonandi verður það eins gaman og það hljómar, svei mér þá.
ps. ef einhver var að velta því fyrir sér þá er ég á mjög báðum áttum (mjög báðar sko) um ákvörðun ólafs ragnars grímssonar forsetissonar dorritssonar bessastaðasonar. þetta er mál sem þarfnast analíseringar við á mannfræðilegan hátt og lágt í alla staði og víðs vegar, sem er dregið af víðum vegi. málið er hreinlega ekki alveg svart og hvítt og hvað þá síður svart-hvítt. fjölmiðlar og almenningsálit... stohórhættuleg blanda, frímúrararar og völd... önnur svipuð blanda. tvær hættulegar blöndur saman í glasi, flæðir uppúr. ekki spurning.

miðvikudagur, júní 02, 2004

ársfundur hinn síðasti yfirstaðinn og önd mín verpir léttar. ég er sár á sinni yfir rigningu og vesæld, en er þó fegin fyrir hönd grasfræjanna minna sem eru eflaust hin ánægðustu að verða blaut, því vatn er jú líf. reyndar er sólin það líka og áður en yfir lýkur mun ég hefja upp raust mína og kvarta út í bláinn (eða gráinn í þessu skýjafari) yfir sólarleysi. þangað til geri ég fátt gáfulegra en að teygja úr mér á bláa skrifborðsstólnum, snúa höfðinu í hringi, láta braka í öxlum og hálsliðum og kreista sólargeislana útúr suðrænum tónum í litlu heyrnartóli sem er tengt á einhvern hátt sem ég kann ekki skýringar á, við útvarpsstöðina www.batanga.com, sem ég hef auglýst áður sælla minninga, hér á síðunni. þetta var eitt helvíti af langri setningu, svo ég þýði nú bara beint uppúr enskunni.
þá sem lifa í þeim misskilningi að latino-tónlist sé ekki skemmtileg vil ég biðja um að bíta í tungurnar á sér og leyfa tónunum að tæla holdið í dunandi dans.
he he he... ég er nú meira fíflið í dag. svona geta ársfundir farið með fólk.
weeepa!!.....

þriðjudagur, júní 01, 2004

í gær hljóp ég í hringi á meðan frumburðurinn synti um, eiginmaðurinn réðst á girðingu og síðburðurinn át bílastæði. á sama tíma var faðir minn mállaus, móðir mín lystarlaus og afi minn tannlaus. systir mín eignaðist skipulagðan hest og amma stakk af á svipuðum tíma og nágranninn talaði, píparinn varð batteríslaus og snakkið brann. sem minnir mig á að ég þarf að tékka á reikskynjurunum því þeir gáfu ekki frá sér eitt einasta píp.

ef ofangreindir atburðir eru settir í annað samhengi má sjá að ég er að reyna að notfæra mér orð í þeim tilgangi að láta gærdaginn hljóma meira spennandi en hann myndi hljóma á annars venjulegu frásagnarmáli. skoðum muninn:

í gær fór frumburðurinn í sund með sigga vini sínum. nágranninn bað makann um að hjálpa sér að rífa niður grindverkið sem er á milli húsanna, og var það gert með kúbeini. síðburðurinn, sem er á ansi erfiðum aldri rottaðist um bílastæðið í þeim tilgangi að troða munninn á sér fullan af steinum, en ég hafði ekki undan við að elta hana og tæma á henni túlann.
pabbi er í grikklandi og talar ekki grísku. hann ætti þó að bjarga sér á enskunni. svo talar hann sænsku ef í hart fer. mömmu var boðið í mat en hún var ekkert alltof spennt fyrir því. afi svaf vært með góminn í glasi þar sem hann jafnaði sig eftir veikindi. systir mín keypti sér skipulagningarbók með mynd af hesti (geri ég ráð fyrir) sem hún er mjög ánægð með, og amma er á leið til útlanda. nágranninn hefur verið eitthvað úrillur undanfarið, en í gær heilsaði hann og spjallaði aðeins um orkuveituna og annað spennandi. ég hafði beðið vin okkar sem er pípulagningamaður um að koma við og kíkja á ofn sem er að stríða okkur, en hann komst því miður ekki og um leið og hann tilkynnti mér það varð gemsinn hans batteríslaus. makinn ákvað eftir girðingarniðurrifið að gæða sér á einhverju nýju snakki sem honum hafði verið gefið, hann last 3 mínútúr á pakkanum (þetta er sko örbylgjusnakk) og skellti því inn. svo fór minn og pissaði, skellti sér í náttbuxur og settist inn í stofu til mín að spjalla. eftir einhverja stund sagði hann ,,hefurðu tekið eftir því hvað 3 mínútur eru lengi að líða?". eftir nokkrar heimspekilegar vangaveltur um upplifun hans á tímanum heyrðist bíp í örbylgjuofninum. hann rölti rólegur inn í eldhús en svo heyrðist hóst og púff og öhh og ðaahhh og úbb og æ. mikill reykmökkur breiddist um íbúðina en við rukum til og opnuðum alla glugga og dyr til að lofta út. reykskynjaraskrattinn sagði ekki múkk.
að dramanu loknu (og eftir að makinn fór og sótti snakkpokann sem hann hafði hent í örvinglan út um gluggann og datt næstum því á hausinn á nágrannanum sem er rétt nýhættur að vera í fýlu útí okkur), þá tók ég mig til og las leiðbeiningarnar á pakkanum. þar stóð:
unaðslegt snakk á innan við 3 mínútum!! stingið pokanum í örbylgjuofn og stillið tímann (svo kom listi yfir nauðsynlegan tíma miðað við styrk ofnsins). takið pokann út, hristið hann, snúið honum við og stingið aftur inn í jafn langan tíma.
makinn las ...bla bla bla... 3 mínútur!!!... bla bla...

þetta snakk á ekki eftir að slá í gegn.