ég hata flugurnar með löngu mjóu leggina. þessar sem eru eins og fiðrildis-flugu-kóngulær. fljúga allar einhvernvegin í flækju fyrir sjálfum sér og þvælast inn til mín í tíma og ótíma. óþolandi helvíti. þær eru jafnvel enn verri en feitu svörtu fiskiflugurnar sem eru svo heimskar að þær eru stanslaust að fljúga á gluggana og svo heyrist svona zzzzþúmpzzzzzþúmpzzzz út í eitt. svo þoli ég ekki skordýr sem stinga, sérstaklega ekki ef þau fljúga og stinga. mér er illa við kóngulær í návígi. þær sem hafa vit á því að gera vefinn utaná glugganum sleppa. þær sem voga sér inn eru skrímsli (ý?).
mér finnst ánamaðkar vera slepjulegir og sniglar valda mér gæsahúð. samt á ég einhverra hluta vegna óskaplega erfitt með að kála þessum skröttum. ég klessi reyndar miskunarlaust mosquito-flugur sem vilja blóð úr mér eða mínum, en öðrum skordýrum geri ég yfirleitt ekki mein. ég veiði geitunga og aðrar hlussur í glas og sleppi þeim úti. ég ýti kóngulóm pent þangað sem þær angra mig ekki, ég hristi snigla aftur í grasið og ég tek ánamaðka upp með priki þegar þeir eru að þorna upp á gangstéttum eftir rigningardaga. svo skutla ég þeim aftur út í mold. ég stíg heldur ekki á ánamaðka nema ég sé alveg viss um að þeir séu ekki með lífsmarki.
ég veiddi einu sinni marhnút á bryggjunni á Hólmavík. mér var sagt að sparka í hann og drepa hann, en þegar ég ætlaði að sparka var eins og æðra afl hefði gripið í fótinn á mér og stöðvað hann. marhnútnum var sleppt aftur hressum og kátum út í atlantshafið.
í fyrra var ég á gangi ásamt frumburðinum heim úr skólanum í höfuðborg þeirra mexíkana þegar ég sá lítinn fuglsunga. hann var ógeðslegur að sjá, greinilega nýskriðinn úr egginu, fjaðralaus og bleikur með útstæð svört augu. þarna lá þetta litla kríli steindautt og hafði greinilega dottið ofan úr hreiðrinu sem ég sá glitta í lengst uppi í tré. frumburðurinn hafði ekki tekið eftir unganum og við héldum áfram göngunni. einum 30 skrefum síðar sá samviska mín sér ekki annað fært en að snúa við. ég sýndi drengnum fuglinn og við ákváðum að grafa hann við rætur trésins. sem betur fer var örlítill moldarblettur sem ekki hafði verið malbikað yfir og þar grófum við holu. þar sem hvorugt okkar gat hugsað sér að snerta stykkið fundum við okkur lítið prik sem við notuðum til að ýta honum ofaní holuna og svo mokuðum við yfir. þetta sama prik brutum við í tvennt og með litlu bandi (það er ýmislegt að finna á gangstéttum í mexíkó), bundum við prikin í kross. þessum pínulitla krossi var svo stungið við leiðið og við signuðum hann og héldum svo göngunni áfram. mikið var ég fegin að hafa snúið við. þarna liggur hann svo vonandi ennþá í litlu gröfinni sinni við götuna Huasteca í norðurhluta borgarinnar. í friði.
ó mæ god hvað ég hlýt að vera búin að safna mér fínu karma...ha!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli