í gær fékk ég bara error þegar ég ætlaði að komast hingað inn á mína kæru bloggsíðu. varð semsagt ekkert mikið úr því.
nema hvað... í dag er jú föstudagur. skýin draga örlítið úr fúttinu og gera þetta allt mánudagslegra, en þó einhverstaðar inni við bein veit mín litla sál að það er að koma helgi. helgar eru góðar.
ég tek aldrei neitt sérstaklega eftir fólki sem er úti að hjóla. ég sé það kannski í fjarska svona rétt til að átta mig á hvert það stefnir svo að ekki verði árekstur, en það er allt og sumt. samt þegar ég er að hjóla hef ég á einhvern gersamlega fáránlegan hátt á tilfinningunni að allir sjái mig svo vel og skýrt. ég hef áhyggjur af því hvort það sé ekki fáránlegt að vera með hnakkinn svona á kafi í rassgatinu á sér, hvort buxnaskálmin í sokknum sé ekki fíflaleg og hvort ég sé með hor í nefinu. þegar ég svo sest niður og hugsa málið til enda geri ég mér grein fyrir því að enginn, og þá meina ég enginn, hefur tekið heftir ofantöldu, og þó svo væri að einhver hefði leitt hugann að samruna hnakksins og rassssins á mér hefur sá hinn sami verið búinn að gleyma því á sama augnabliki og hugsunin fór í gegn. þannig að í rauninni eru þessar vangaveltur mínar tímasóun, orkusóun og bull. það er alveg hrikalegt hvað við getum verið gagnrýnin á okkur sjálf. sérstaklega við kvenfólkið. talandi um að sjá flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin, þá mætti eiginlega segja að útlitslega séð væru konur oft duglegar við að sjá flísar í augum annarra, en það er þá kannski frekar til að losna við að hugsa um regnskóginn sem við sjáum stanslaust í eigin augum. báðum.
eftir þessar pælingar er kominn tími til að stinga batanga.com í vinstra eyra, slökkva á heilanum, skrá kennitölur og bíða eftir því að það verði komin helgi.
góða slíka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli