ég lenti í smá dilemmu í morgun. að sjálfsögðu er ég enn fír og flamme í hjólabransanum, bruna til og frá vinnu á bláa tryllitækinu með hnakkinn í rassinum. en. í dag er svo svaaakalega gott veður að mig langaði óneitanlega til að dusta rykið af sumarfötunum mínum sem hafa ekki fengið að líta dagsins ljós síðan ég var síðast í Acapulco (lööng saga fyrir þá sem ekki þekkja til lífs míns). nema hvað, sumarfötin mín eru voða létt og lítil. ég átti óskaplega erfitt með þetta alltsaman, enda ekki auðvelt að púsla saman flaksandi sólarlandafatnaði og hjólreiðatúrum. ég valdi að lokum blátt hnésítt pils, svona vafið um mig, hvíta blússu með bláum útsaumuðum blómum, ljósar nælonsokkabuxur, rosa stuttar stuttbuxur undir pilsið (til að losna við vandræðagang með hnakkinn og vindinn), og sandala. þetta virkaði allt voða sumarlegt og sætt þegar ég lagði af stað úr húsi með bleikan gloss, bros á vör og bláa tryllitækið í klofinu.
vandræðin hófust þegar ég hraðinn fór að mynda vind og pilsið var eiginlega frekar orðin lítil blá mittisskykkja. þá prísaði ég mig sæla fyrir að hafa verið nógu klók til að hafa látið mér detta stuttbuxurnar í hug. allt í góðu með það. þegar ég var komin langleiðina að nordica hótelinu voru nælonsokkabuxurnar og sandalarnir farin að pirra mig all svakalega með sleipleika sínum, það var einhvernvegin ekkert stamt á milli þeirra.
þar sem ég hossast niður af kanti og tek framúr tveimur miðaldra þýskum túristum tókst mér einhvernvegin að missa annan sandalann af mér og það sem hefði annars verið voða graceful framúrtaka hjá mér var nú orðinn klaufalegur þumbaragangur og hökt á einum fæti með hjólið á milli læranna og allt í hring til að veiða sandaladjöfulinn aftur. það tókst að lokum og ég brosti kjánalega og sagði guten tag..ehe... eða eitthvað svoleiðis. svo hjólaði ég áfram. fyrir framan hótelið stóð hellingur af japönum. ég hafði heitið mér að halda stílnum það sem eftir væri ferðarinnar en það tókst nú ekki betur en svo að ég krækti hælnum í eitthvað drasl á hjólinu og fékk lykkjufall frá hæl og upp. beint fyrir framan japanina. held samt ekki að þeir hafi verið nógu fljótir að munda myndavélina til að ná skoti.
þegar þarna var komið sögu voru glæsileikinn og sexapíllinn minn orðnir ískyggilega sorgmæddir. en ég djöflaðist áfram með bláu skykkjuna, lykkjufallið og sleipu sandalana út um allt. restin af leiðinni gekk þó áfallalaust fyrir sig þangað til ég var komin beint fyrir utan bygginguna þar sem ég vinn. lokatrukkið í hjólreiðaferðinni er pínkulítil brekka sem ég hjóla upp til þess að komast að innganginum þar sem ég geymi hjólið.
um leið og ég lagði af stað upp brekkuskrattann birtist óvenju glæsilegur ungur maður í jakkafötum, voða fínn og straujaður og sætur. ég sá mér að sjálfsögðu ekki annað fært en að reyna að djöflast upp brekkuna á eins áreynslulausan hátt og eins tignarlega og mér var mögulega unnt.
ég veit ekki hvað er að gírunum en þeir eiga stundum til að skipta sér sjálfir án þess að spyrja drottningu né prestsfrú. um leið og ég spyrnti í til að komast á smá fallegan skrið upp brekkuna ákvað hjólið mitt að skella sér í 1. gír og poing, ég skall niður með fótinn, skutlaði sandalanum lengst niður eftir bílastæði og skakklappaðist útaf hjólinu. svo hugsaði ég ,,djöfulsins andskotans helvítis", en sagði bara ,,jesús minn!" því ég var enn að reyna að líta ekki út eins og algjör fáviti og brussa dauðans í augum jakkafatans. þegar ég hugsa þetta þó í retrospectiv þá er mér sosem drullusama hvað hann hugsaði. ég er samt hætt að hjóla í sumarfötum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli