ég fór í bæinn aðfaranótt sunnudags sem er vissulega í frásögur færandi.
ég var í gæsapartýi ásamt fjölmörgum vinkonum og ákvað að vera nú ekki partípúper og fara með á djammið eftir partý. nokkuð sem ég geri svotil aldrei. það var einróma álit viðstaddra að "staðurinn" væri mojito eða mojitos eða það þarna uppi á lofti fyrir ofan apótek. allar í okkar fínasta pússi stilltum við okkur upp fram nú allar í röð og lentum eiginlega alveg fremst. ég gat nú ekki ímyndað mér að við yrðum að bíða lengi þegar röðin var ekki lengri en þetta. svo bættist og bættist aftaní hana og enn vorum við með þeim fremstu. en enginn inn. hinumegin við dyraverðina safnaðist líka fólk. það voru sko celebin sem þar voru á ferðinni og runnu smurt inn og út eins og þeim sýndist. á meðan húktum við almúginn í röðinni og trömpuðum hvert annað niður í hvert sinn sem dyravarðaraulinn skipaði okkur að bakka um eitt skref (við vorum víst að verða of plássfrek fyrir þessa elsku). svo leið og beið og inn fór eiður smári ásamt fylgiliði, hin ýmsu andlit úr fréttatímum landsmanna, popp-tíví gúrú og fleiri. kjánatilfinningin sem bærðist innra með mér fór stigvaxandi þar sem ég stóð með laust munnbeinið sökum drykkju og úthúðaði þessum smáborgaralega skrýl sem vælir yfir mannréttindum og lýðræði í frétta- og umræðuþáttum en misnotar svo aðstöðu sína til að vaða yfir okkur plebeyjana á skítugum skónum þegar slökkt er á kamerunni.(ég var sko búin með nokkuð marga bjóra og orðin mun pólitískari en ella). eftir tæpan klukkutíma í troðningi og traðki varð ég að spyrja mig hvort þessi staður væri þess virði að fórna stolti mínu og sjálfsvirðingu. ég kaus mig, smeygði mér útúr raðarandskotanum og rölti heim með bros á vör, ánægð yfir því að hafa tekið afstöðu. svo er aftur annað mál hvort einhverjum sé ekki alveg sama og hvort sú staðreynd að ég hafi heitið mér að fara aldrei inn á þennan blessaða skemmtistað muni hafa áhrif á rekstur og gengi staðarins. mmm... það getur sosum allt gerst... en ég er hætt í skemmtistaðaröðum. mér finnast þær vera vandræðalegar og sérstaklega kjánalegar þegar fólk fær að vaða framfyrir þær endalaust. ég hef heldur ekki enn fundið stað sem er virkilega þess virði að eyða klukkutíma í bið til að komast inn. má ég þá frekar biðja um kók, súkkulaði og vídeóspólu. og smá snefil af stolti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli