ég ætlaði að skrifa á föstudaginn. ég hefði skrifað á föstudaginn. en þá kom andrés önd, með hjálparhönd.
sko...
rauðhærður maður (það að ég skuli taka fram að hann hafi verið rauðhærður er ekki merki um fordóma gagnvart rauðhærðum, heldur er þetta gert í því skyni að gera frásögnina myndrænni og skýrari fyrir lesendur), en semsagt...rauðhærður maður á óræðum aldri var ráðinn af húsfélagi suðurlandsbrautar nr. eitthvað, til þess að klæða veggjarstubb uppi á þaki (á erfitt með að lýsa á þennan sama myndræna hátt þakaskipan suðurlandsbrautar) en allavega þá var þessi maður þarna fenginn til að ganga frá og klæða einhvern skrattans vegg sem þarf að klifra uppá þak á húsinu fyrir aftan til að komast að, og þarna var manngufan að djöflast með heyrnartól á höfðinu í bláum galla á föstudagsmorgni. á sama svæði og þakrenna þaksins fyrir ofan vegginn sem hann stóð á hinu þakinu til að laga, lá mjó og grá óræð snúra. snúran virtist liggja útum einhvern glugga þarna á næsta húsi við og niður um þakið á lyftuhúsinu á þakinu við hliðina á þakinu sem maðurinn stóð á til að laga vegginn undir þakinu sem snýr að suðurlandsbraut. allavega var snúran að þvælast fyrir honum. eitthvað var tilvera blessaðrar snúrunnar að trufla þennan rauðhærða mann, og hann sá ekki betur en að hún væri trosnuð og tók í framhaldi af því þá ákvörðun með sjálfum sér að snúrudruslan hefði sennilega hvort eð er engum sérstökum tilgangi að þjóna. hvað er ein snúra til eða frá...?
nema hvað, tók þá kauði sig til með öllu sínu rauða hári og klippti barasta snúrukvikindið í sundur og rúllaði endunum pent í hönk eins fjarri veggskrattanum sem hann var að laga og hann mögulega gat. þetta gerðist kl. 9:27 á föstudagsmorgni. frá og með þeirri stundu var heil hæð í húsinu við hliðina á þakinu sem hann stóð á til að laga vegginn undir þakinu á húsinu fyrir framan, sambandslaus við umheiminn, nema í síma, sem kom að litlu gagni þegar engar voru upplýsingarnar fáanlegar í tölvunni til að þjóna þeim sem hringdu.
ég var á sandölum og í pilsi í vinnunni þennan dag. mín voða hress og kát og sumarleg svona á fallegum föstudegi. en þegar mér var kippt úr sambandi stóð mér ekki á sama og ég gat ekki hugsað mér annað en að láta aulabárðinn vita af því sem hann hafði gert. nú og svo klifraði ég í allri minni lofthræðslu upp á helvítis þakið sem maðurinn stóð á til þess að benda honum á mjög kurteisislegan hátt á hvað hann væri mikill endemis blábjáni. og það gerði ég án þess þó að særa blygðunarkennd eins né neins. gott ef hann gerði sér nokkuð grein fyrir því að hann hafi verið skammaður á annað borð... hmmm... oh, ég er of kurteis... arg...
nema hvað. stuttu síðar kom önnur persóna upp á þakið, en það var gaurinn frá tölvufyrirtækinu sem hafði verið kallaður til að reyna að bjarga málinu. hann kom og skammaði rauðhaus líka á kurteisislegan hátt og skoðaði snúruna (sem voru nú orðnar tvær). svo ætluðum við niður en þegar hann var um það bil að fara að klöngrast af stað gólaði ég "pant fyrst því ég er í pilsi!". hann tók því að vísu ekki illa þó svo að ég hafi síðar grunað hann um að hafa viljandi ætlað niður á undan til að geta séð svörtu lukkunærbuxurnar mínar... en það tókst honum ekki því ég er pen og vel upp alin stúlka.
nema hvað. ekkert varð sambandið þangað til í morgun þegar tölvugaurinn, sem ég kýs nú að kalla bubba í höfuðið á bubba sem byggir vegna galla-smekkbuxnanna sem hann klæddist í dag, datt í hug að fá rafvirkja á staðinn, sem hann og gerði. rafvirkinn var lægri og enn þjappaðri en bubbi, sem þó leit út fyrir að vera duglegur í ræktinni, og þar sem ég horfði hugfangin á tvo samanrekna vöðvastælta ljóshærða strípaða bláeygða menn og annan í smekkbuxum, gat ég ekki annað en rekið upp bros.
netið er komið í lag.
halelúja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli