einhver sagði einhverntíman einhverstaðar eitthvað svona að allt byggðist á eldri hugmyndum...eða svoleiðis. þið grípið um skaftið á mér.
nema hvað, þórdís og fleiri bloggfræðingar hafa tjáð sig undanfarið um nýjasta úrskurð mannanafnanefndar þar sem bambi komst á kortið...muahaha, bambi... þeir banna sataníu en leyfa bamba. hvað næst?
mannanöfn, alveg minn tebolli. eitt af þessum umræðuefnum sem valda mér gæsahúð og fleiri líkamlegum einkennum af spenningi. samstarfsfólk mitt af skrifstofunni getur verið til vitnis um það.
ég væri alveg vís til þess að lesa þjóðskránna eins og hún leggur sig en ég er eiginlega að bíða eftir útgáfu af henni þar sem hægt verður að fá hvert nafn aðeins upp einu sinni. þá á ég við að allar önnurnar og guðrúnarnar og jónarnir og guðmundarnir og það lið birtist ekki hvert eitt og einasta heldur yrði valinn ein forsvarsmanneskja nafnahópsins. í þessari útgáfu þjóðskrár yrði líka hægt að sigta út fólk sem heitir algerlega útlendum nöfnum, enda ekkert fyndið við að heita kim ding dong ef það er í réttu samhengi. hinsvegar væri fyndið að heita guðmundur dong jónsson.
ég viðurkenni að hafa lagt af stað í lestur þjóðskrár. ég hef lesið slatta í henni. sumt fólk hefur bara önnur áhugamál en annað fólk. ég er sum.
eins og ég les yfirleitt kennitölur og finn mynstur (þegar unnið er með mikið magn kennitalna byrja mynstur að koma í ljós), þá þykir mér einnig gaman að finna mynstur í nafnagjöfum landsmanna og kvenna. nafngiftatískustraumar eru tímabilatengdir. svo mikið er víst. nefnum samt engin nöfn... tíhí
ég fann það sjálf þegar ég var með börn í maganum (eitt í einu bara), að mér var mikið í mun að finna rétta nafnið. ég var haldin valkvíða, ég var vansvefta og hálf vangefin á þessu tímabili sökum þess hversu bágt ég átti með að taka ákvörðun um nafn. í bæði skiptin endaði ég svo með nöfn sem flestum finnast fín, að ég held, en þó fékk ég skrýtna svipi frá einstaka þröngsýnu og gamaldags fólki í upphafi, samt nöfn sem allir þekkja og hafa heyrt skrilljón sinnum.
minn höfuðverkur var sá að ég þurfti að finna nöfn sem hægt er að bera fram bæði á íslensku og spænsku. þar með var td. nafn föður míns dottið út þó svo að það hefði að öllum líkindum verið auðveldasti kosturinn, ætti ég íslenskan maka. svo er þó ekki.
en það er ekki það sem ég ætlaði að fjalla um hér og nú heldur störf mannanafnanefndar. hvar sækir maður um að komast í þessa blessaða nefnd? pant ég vera með! mikið væri ég svakalega til í að fá að taka þátt í vali á nýjum og stílfærðum íslenskum nöfnum. algerlega brilljant. ég væri jafnvel til í að fresta forsetaembættinu ef mér byðist sæti í mannanafnanefnd. nema auðvitað ef hægt er að stunda bæði.
Í algerlega óspurðum fréttum er eitt af mínum uppáhalds nafnið kapitola. ég myndi ekki skíra barnið mitt þessu nafni en mér þykir gaman að sjá að það er í notkun. bókin var ansi skemmtileg.
en semsagt... mæli með lestri þjóðskráar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli