fór í það sem mér skilst að hafi verið fyrsta algjörlega spænskumælandi brúðkaupið á landinu um helgina. presturinn frá argentínu gifti gumann frá kólumbíu og gumuna frá venezuela. nunnurnar frá mexíkó og argentínu sungu og spiluðu á gítar og gestirnir frá chile, hondúras, kúbu, mexíkó, venezuela, kólombíu, argentínu og breiðholti skemmtu sér vel. engin ræðuhöld eða formlegheit. hvítar blöðrur bundnar á bogna stöng yfir brúðkaupstertunni, svolítið prom-legt lúkk, diskar og kampavínsglös úr plasti, ekkert prjál. það sem skipti máli var að gleðjast saman, borða saman, dansa saman og njóta dagsins. kakan etin fyrst ásamt kampavíni og svo kom kjötið. get ekki sagt annað en að bragðlaukarnir mínir eru vanari sætindunum síðast svo að mér leið eins og mér hefði verið spólað afturábak. en eigi kvarta ég þó, enda ekki yfir neinu að kvarta. góður matur góður bjór gott fólk. mér þykir ekki leiðinlegt að tilkynna mig sem sjálfkrýnda salsadrottningu íslands. vilji einhver skora mig á hólm getur sú hin sama byrjað að svitna í lófunum og skjálfa í hnjánum því ég er ekkert annað en snillingur. þó ég segi sjálf frá. að minnsta kosti gat ég ekki séð betur eftir eina 5 bjóra. hmmm...kannski spurning um að prófa aftur edrú áður en ég kem mér í vandræði...
nema hvað, stórskemmtilegt brúðkaup og þarna rifjaðist upp fyrir mér eina ferðina enn hversu margt og mikið við landarnir getum lært af hreinræktaðri gleði og mannvænlegum glaumi erlendinga á íslandi.
áhugasömum vil ég svo benda á argentísku nunnurnar tvær en þær má sjálfsagt nálgast í gegnum kaþólsku kirkjuna við landakot. þær eru nefnilega alveg brilljant góðar og skemmtilegar við söng og gítarspil og auk spænsku laganna sem börn og fullorðnir geta skemmt sér yfir geta þær sungið frost á fróni svaða-vel og það eftir aðeins 4 mánuði á landinu. og já, þær syngja semsagt ekki bara trúartónlist.þær eru sko trúboðar og vilja ólmar fá að umgangast allt mögulegt fólk í þeim tilgangi að kristna. ég er svosem ekkert ógur-hrifin af því að láta fólk kristna mig, en þær eru bara svo assgoti skemmtilegar að ég mátti til með að leyfa þeim að skjóta.
og já, það er eitthvað krúttílega súrrealískt að djamma með nunnu í fossvoginum.
en hvað um það.... gaman gaman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli