í morgun var blátt hús í beinu sjónfæri út um baðherbergisgluggann minn. eiginlega beint á ská til hægri hinumegin við bílastæðið við hliðina á.
núna er þar ekkert hús.
ég bý nefnilega á reitnum sem fjallað hefur verið um lauslega í blöðum undanfarið. þessum sem byggingaframkvæmdamafían er búin að ráðstafa undir verslanamiðstöðvar og fjölbýlishús og lúxusíbúðir fyrir framtíðar uppaíbúa miðbæjarins.
ég er skít grút hund fúl yfir þessum bölvuðu skúrkum sem rífa niður gömlu bárujárnshúsin með þríhyrningsþökunum og byggja ferhyrnd ferlíki í staðin. sjarmi 0%
en ég er líka blönk og þegar miðaldra mafíósar með fulla vasa fjár bjóða í litlu köldu og skökku íbúðina þína meiri pening en þú getur nokkurntíman vonast til að fá fyrir hana, þá er ekki á allra færi að segja nei af prinsíppástæðum. sérstaklega ekki þegar um er að ræða íbúð með of fáum barnaherbergjum, einföldu gleri, ónýtum ofnum, ónýtu þaki, ómálaðri bakhlið og tveggjafermetra eldhúsi undir súð.
það er hægara sagt en gert að vernda gamla bárujárnstimbrið og hægara gert að finna endalausar samviskuróandi réttlætingar á því að hafa leyft þeim að kaupa sig. og hér er ég.
mér til málsbóta minni ég sjálfa mig á að í staðin keypti ég lítið bárujárnshús með þríhyrningsþaki sem ég þarf að vernda gegn nýbyggjandi brjálæðingnum sem er búinn að skella upp einn einu helvítis lúxusboxhúsnæðinu við hliðina á. honum tókst ekki að kaupa mig út. enda þyrfti miklu miklu miklu miklu meira til vegna þess að nýja húsinu fylgir óryðgað þak, tvöfalt gler, virkir ofnar, rifsberjarunnar, róla, sandkassi og meira að segja forláta fánastöng.
en ég seldi samt þessa íbúð sem ég er í núna og í hvert sinn sem ég lít út um baðherbergisgluggann og horfi á vinnuvélarnar tæta í sig ruslið sem var bláa húsið, hugsa ég til þess að næst muni þeir taka gula húsið og svo framvegis þangað til þeir rusla niður húsinu mínu. svo fæ ég pínulítinn hroll.
gömlu hjónin við hliðina á mér eru þau einu sem neita enn að selja. þau eru bundin húsinu tilfinningaböndum og vilja ábyggilega fá að deyja þar. þau hafa ábyggilega ekki heldur lán og yfirdráttarheimildir sem þeim liggur á að losna við. þau eru á öðrum stað í lífinu en ég. þau standa fast á sínu á meðan svikarar eins og ég seljum allt í kringum þau og hundskumst úr húsunum með misfeitar ávísanir í vasanum. ég vona bara að þau þurfi ekki að lifa það að sjá hús lífs síns rifið.
ég sá síðasta vegg bláa hússins detta niður.
í fallinu kramdi hann fatasnúru gömlu konunnar og heila runu af runnunum hennar. hún er of gömul til að rjúka út og rífast. ég er of mikill ræfill.
væri ég hetja ef ég hefði ekki selt? eða selja allir þegar nógu hátt er boðið?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli