ó mæ god hvað ég ætlaði að slá í gegn og vera sniðug í dag. og ó mæ god hvað það misfórst hrikalega.
ég lá, eins og endranær, andvaka í gærkvöldi með vinnuna á heilanum og reyndi að láta mér detta í hug leiðir til að festa tungumálið í höfðum minna ástkæru nema. seint um síðir kviknaði á nokkrum perum og mér datt í hug að vera nú skemmtileg og sniðug og klár, allt í einum pakka, og útbúa spurningakeppni. þemað var að sjálfsögðu kennsluefnið og bekknum yrði skipt í lið og hvert lið yrði að svara spurningum um málfræði, þýðingu orða og beygingar sagna og að launum fyrir rétt svör fengjust stig. restin af bekknum átti að æfa tölustafina með því að telja tímann sem svarliðið fengi hverju sinni á meðan það lið kepptist við að finna lausnina. allt átti þetta að þjálfa fólk í efninu, rifja upp, létta lund og kæta ungar sálir.
í dag fékk ég svo enn eina ferðina að reyna að raunveruleikinn er yfirleitt ekki jafn skemmtilegur og einfaldur og það sem gerist þegar ég er að ímynda mér hlutina. í fyrsta lagi fékkst enginn til að telja tímann upphátt, í öðru lagi voru allir með vesen yfir því hvort tíminn væri of mikill eða of lítill, í þriðja lagi voru allir á fullu að finna leiðir til að snúa á þessar litlu einföldu reglur sem ég hélt að myndu nægja og í fjórða lagi voru allir æpandi og öskrandi yfir allt í einhverjum endemis æsingi og stressi og spennu og látum við að reyna að rakka hina niður.
þar sem ég er ekki átorítetskarakter og ekki týpan í að slá hnefa í borð og fá alla til að þagna samstundis, leið mér eiginlega eins og bjánalegasta bjána norðan alpafjalla með blessaðan leikinn minn. í hita leiksins var mér meira að segja tjáð af einum þeim stressaðasta að þetta væri leiðinlegasti leikur sem hann hefði lent í.
mental note: aldrei að vera með keppni í kennslustund.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli