hundskaðist í líkamsræktarsalinn í gær. ég hef ákveðið að láta viðmið sem vind um eyru þjóta og vera bara á sokkunum. mér verður annars svo heitt á tánum að ég missi alla einbeitingu og fer bara að rugla með óráði. nema hvað, ég stóð nokkra meðræktendur að því að horfa á sokkana mína. er þó ekki alveg viss hvort þeir voru að horfa af því að ég var ekki í skóm eða af því að ég var í sitthvorum sokknum. einum bláum og einum svörtum.
nema hvað.
allan daginn í gær var ég haldin óhemjandi syfju og það var alveg sama hvað ég sprautaði mig með koffíni í vökvaformi, ég var þreytt. þetta með að fara í líkamsrækt á öðrum eins þreytudegi var ekkert nema pjúra níska og nirfilsháttur af minni hálfu, en samviska mín var búin að naga á mig gat sökum þess að ég hafði aðeins mætt einu sinni síðan á jólunum. samviskan hafði semsagt mun meiri áhyggjur af peningalegu hliðinni á málinu heldur en því líkamlega, en eins og þeir vita sem vita er ég hreint ekkert í svo slæmu formi. vantar bara aðeins að tappa af vífilfellsafurðinni sem velkist um á milli hnjáa og rasskinna. eða svoleiðis... lóa fattar þennan væntanlega... heh
nema hvað, syfjan mikla gerði það að verkum að ég gat ekki hætt að geispa allan daginn. ég hafði þó ekki tekið eftir því fyrr en ég sat á tóli sem á að þjálfa undirupphandleggsspikið. þegar ég leit upp og sá svipinn á einkaþjálfaranum á næstu græju gerði ég mér grein fyrir að ég sæti þarna eins og slytti, í sitthvorum alltofstórum sokknum, götóttum risastórum joggingbuxum og geispaði í takt við handabeygjurnar.
ég er með hassperur í höfðinu. blogga frekar á morgun...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli