systir mín nefndi á vinsælli bloggsíðu sinni að hún hefði verið í heimsókn hjá mér þar sem hún horfði uppá mig klippa vörtu af syni mínum og dóttur mína tyggja ostsneiðar og hrækja þeim í sófann.
leyfist mér að útskýra.
já, ég er með drenginn í vörtuplástrameðferð eftir að hafa borgað fyrir heimsókn til heimilislæknis í þeim tilgangi að láta sprengja draslið af ilinni á barninu. einhvernveginn tókst læknunni að sannfæra mig um að það væri miklu gáfulegra að ég færi í apótekið og keypti vörtuplástra og væri svo með barnið í 12-14 daga meðferð sem í felast fótaböð, húðrasp, kropp, klipp og almenn eituráhrif. í raun og veru var mér aldrei boðið að láta djúpfrysta vörtuskrattann eins og ég hafði hugsað mér að gera í læknisferðinni. um leið og ég settist inn og sagðist vilja láta hana skræla burtu vörtuna á frumburðinum leit hún á hann og sagði ,,nú ætla ég að kenna mömmu þinni að taka sjálf af þér vörtuna", svona eins og til þess að ég hætti að eyða dýrmætum tíma hennar í smámuni og rugl. svo teiknaði hún vörtu á post-it miða með nafni á lyfjafyrirtæki, hripaði niður stikkorð eins og fótabað, skrapa, blaðra, 12-14 dagar. ég stakk miðanum í vasann. búið. næsti.
það rifjaðist upp fyrir mér þarna hvers vegna ég fer yfirleitt ekki til heimilislæknisins míns. ég sem ég hélt að ég yrði betur sett eftir að ég skipti um lækni. ætli ég haldi ekki bara áfram að notast við læknavaktina þegar eitthvað er að í alvöru og apótekakonurnar þegar eitthvað er að sem ég get mögulega læknað sjálf...eins og vörtur.
nema hvað,
síðburðurinn er hrifinn af osti í sneiðum og hún er búin að komast að því nýlega að það getur verið sniðugt að skyrpa, annað hvort til að sjá hvað kemur út eða til að fá viðbrögð frá foreldrum sínum, sem hún svo skemmtir sér konunglega yfir.
hún er nefnilega frekar spes karakter blessunin. svona sambland af hmmm... tjaa... nú veit ég ekki...en hún er allavega rosalega fyndin. frumburðurinn hefur líka sinn húmor en hann er dottinn inní einhverskonar simpson-látbragðsleikara-jim carrey-enskuslettu-ofurhetju-brjálæðishúmor sem er hreint ekki á allra færi að skilja. en hann sjálfur skemmtir sér vel og það er fyrir öllu.
um helgina voru bæði afkvæmin eitthvað slöpp og vorum við því öll heima saman í marga marga marga klukkutíma. í herbergi frumburðarins hljómuðu til skiptis eminem diskurinn og quarashi diskurinn sem hann fékk í jólagjöf frá ömmu minni og lóu frænku. (og já, það var ég sem sagði að hann langaði í þessa diska... skjótið mig). ofaní rappið hljómaði monsters inc. á spænsku sem síðburðurinn var að horfa á með öðru auganum (og já, ég losa mig við börnin mín með sjónvarpi og öðru afþreyingarefni).
nema hvað, ofaní semsagt rappið og spænska disney-döbbið hljómuðu börnin mín um það bil svona: mammamammamamma har ertu? mamma farta pissa? mamma sjáðu... disco stu is on a mission...mamma mamma sjáðu, dúkkan fara lúlla. fattaru þetta... disco stu mission failed... mamma borða melónu... mamma, má ég borða egg? má ég fara í tölvuna?...mamma ég langarí nammi... búna kúka... mamma, veistu að það er búið að finna upp nýtt orð til að segja mother fucker?... núna segja þeir mófó!... mamma ekki taka bleyjuna... meiri melónu.... my name is slim shady...
og hausinn á mér sprakk.
mér er svosem nær að skíra börnin mín eftir yfirlýstum prakkara og íbúa á skarkalagötu.
mikið hlakka ég til að senda alla í stofnanavædda pössun á morgun.... hehehe
Engin ummæli:
Skrifa ummæli