fimmtudagur, júní 07, 2007

ég er búin að fara út að keyra ein og yfirgefin hér í landi umferðarníðinga andskotans. og ég sem er algerlega áttavitalaus í kollinum komst meira að segja heim án þess að keyra hringinn í kringum bæinn. enginn klessti á mig og ég klessti ekki á neinn. halelúja.
kvefið er á undanhaldi, mér sýnist þau vera hætt við að reyna að drepa mig. í bili.
ekki nema þetta með bandvitlausa kettlinginn sem einhver er alltaf að lauma inn til mín sé hluti af stærra plani. einhverra hluta vegna er ég bara hrifin af dýrum úr fjarska. þegar ég er komin í návígi er ég hreinlega ekki eins hrifin. eiginlega bara hrædd.
einu sinni þegar ég var lítil stelpa í sveitinni á enni bjó þar hundur sem hét lappi. lappi var ljósbrúnn labrador. lappi er eina dýrið sem ég man virkilega eftir að hafi verið vinur minn. svo dó hann.
þegar ég var smábarn, svo ung að ég man ekki eftir því áttum við víst ketti sem allir hétu halldór ólafur. ég er fegin því vegna þess að ef ekki hefði verið fyrir kettina héti ég í dag halldóra ólafía. halldórarnir ólafarnir dóu allir í bílslysum ef ég man rétt.
pabbi minn er kallaður týri. konunum sem unnu með mömmu þegar keyrt var yfir halldór ólaf og honum hent í ruslatunnu fengu sjokk þegar hún sagði þeim frá því í vinnunni. þær höfðu alltaf staðið í þeirri meiningu að halldór ólafur væri eiginmaðurinn og týri kötturinn... eins og gefur að skilja.
ég man ekki eftir neinum halldóri ólafi. bara lappa.

nafnlausi kettlingurinn sem er alltaf að klóra sófann minn þykir mér ekki skemmtilegur.
ég átti einu sinni gúbbífiska. þeir voru fjórir. svo blikkaði ég augunum og þá urðu þeir þúsund. ég var búin að gefa hálfu breiðholti gúbbífiska þegar ég gafst upp. síðan þá fæ ég hálfgerða klígju þegar ég kem nálægt skrautfiskum.
ég er hrædd við hesta og allt sem er stærra en ég. kindur virka flestar grimmar á svipin og hvað þá geitur.
nja... mér dettur ekkert dýr í hug sem ég gæti hugsað mér að halda á og klappa.
ég gæti svosem klappað henni lóu systur minni.... ég er nú eiginlega ekkert góð í því heldur...

Engin ummæli: