fimmtudagur, júní 21, 2007

naggrís kominn í hús. hún heitir krúsí og var skírð af síðburðinum. stundum heitir hún dúlla sæta. yfirleitt krúsí.
skjaldbökurnar eru orðnar þrjár. terroristarnir synir fráskildu konunnar áttu eina sem átti víst í vök að verjast enda mikið fjör á því heimili. hún var ættleidd í dag af frumburði mínum sem er gífurlega samviskusamur skjaldbökufaðir.

púsluspilið gengur ágætlega. ég er farin að venjast því að þurfa að borða með diskinn á borðbrúninni því að hann kemst ekki fyrir á stóra eldhúsborðinu vegna fjölda púsla. það er þó farið að taka á sig mynd með mikilli aðstoð nágrannakvennanna sem hafa eytt hér mörgum klukkustundum við púsl. þær eru hinar áhugasömustu um aðgerðina og hafa sannarlega fleytt mér vel áfram, en ég er sú eina úr fjölskyldunni sem er ekki búin að gefast upp. enda þrjósk.

tengdamóðirin kom í heimsókn í dag. hún er gæðablóð. eini gallinn við hana er smekklausa hjálpsemin. hún er voða upptekin af því að gera heimilislegt hjá okkur og er alltaf að koma færandi hendi með punt og skraut og þessháttar. vandamálið felst í því að flest það sem hún hefur keypt, eins og tildæmis úber-silfruðu kerlingamyndarammarnir sem hún kom með í dag, fellur vægast sagt illa að smekk heimilisfólks. hvað gera bændur þá spyr ég sjálfa mig. nú mun líta skringilega út þegar hún kemur næst í heimsókn að forljótu rammarnir munu hvergi hanga uppi. nema þá helst inni á gestaklósetti þar sem henni hefur hvort eð er tekist að skreyta með undarlegheitum.
þessi elska var næstum því búin að fylla eldhúsið af beljuþema áður en ég kom til landsins. makanum tókst blessunarlega að afstýra því, en núna á ég beljumyndaramma, beljuklukku og beljukrukkur inni í skáp. hún varð svosem ekkert sár, amk ekki sjáanlega. hún sætti sig við að við héldum eldhúsgardínunum með gulu og bláu blómaskreytingunum. ég reyni bara að horfa ekki mikið á þær.

nema hvað... næst á dagskrá er að þýða umsóknarbréf úr spænsku á ensku fyrir svilkonuna sem er að reyna að senda son sinn, hinn óþolandi, á sumarnámskeið í herskóla í bandaríkjunum. hún er líka komin með nóg af honum.

Engin ummæli: