föstudagur, júní 29, 2007

litla raðhúsahverfið er rauðglóandi. fólk hvíslar sín á milli með froðu í munnvikunum og ráfar eins og uppvakningar með reytt hár á milli húsa. það er einhver rauð glóð í augunum á þeim öllum í dag.
forsaga reiðinnar er sú að gabríel í húsi 7 er að ljúka tímabili sínu sem umsjónarmaður. umsjónarmaður er sá sem rukkar alla og sér um garðyrkjufólkið, hliðlögguna, ruslakallana og svona. hann er víst ekki búinn að standa sig vel. og svo svindlar hann og segist vera búinn að breyta allskonar reglum eftir að hafa látið kjósa um það og fengið meirihluta húsanna með sér í lið. eftir nánari rannsókn kom uppúr kafinu og þessar ,,kosningar" hans voru bölvað svindl og svínarí og fátt af því sem hann hefur gert á sér löglegar forsendur. karlarnir eru núna saman heima hjá einum þeirra að spila dómínó og plotta einhverja svakalega starfsemi fyrir fundinn sem á samkvæmt löglegum kosningum að vera haldinn á morgun. ivonne konan hans gabríels er að fara að synda á laugardaginn svo að hún vill ekki láta halda fundinn á morgun (föstudag - það er ekki enn komið miðnætti hjá mér). þess vegna segir gabríel nei. en flestir hinir já.
svona er allskonar bull og vitleysa búið að hrærast í hausnum á körlunum sem eru sjóðandi bullandi brjálaðir og kerlur þeirra annað eins, enda góðar í slúðrinu og í því að láta smæstu sögur hljóma löðrandi safaríkar.
aumingja gabríel er víst orðinn hálf smeykur og vill helst sleppa við fundinn. láta loreto og fefu bara hafa umsjónarmennskuna undir borðið og þurfa ekkert að horfa framaní reiða lýðinn. það gerir lýðinn ennþá reiðari.
merkilegt hvað svona lítið samfélag getur orðið flókið.
við litla fjölskyldan í númer átta höldum hlutleysi okkar, enda utanríkismál. hús númer átta stendur nefnilega á íslenskri jörðu. við erum sendiráð. samkvæmt mér.
við erum líka alveg græn í þessu öllu, enda nýkomin. og satt best að segja gæti mér ekki verið meira sama.

dæmi um smámunasemi fólks í hverfinu: veronica setti málningardós ofaní aðra dós og í ruslið. ruslakarlarnir hrifsuðu dósirnar og smá hvít málning sullaðist á milli tunnanna. hún vill ekki segja neinum af því (nema mér því ég er sendiráð), því að hún skammast sín svo mikið. dularfulla málningarsullið er búið að vera á vörum kvennanna alla vikuna. hvernig stendur á því að löggan sá ekkert? gætu það hafa verið börnin í boltaleik? en þau voru hrein! löggan segist hafa fylgst með ruslaköllunum og ekkert séð. gæti hann verið að ljúga?

hann var útsmoginn og snar, enginn vissi hver hann var.....

Engin ummæli: