fimmtudagur, maí 06, 2004

það eru ársfundir á næstunni. því fylgir mikil ljósritun, heftun, bréfaklemmun, innbinding í möppur og plastvasa, röðun og flokkun. fundargögn verða afhent viðstöddum á fundarstað.
ég get þó ekki neitað því að ljósritunarvélin er tilbreyting frá tölvunni og kennitölubunkanum mínum. mér þykir líka spennandi að fylgjast með hvaða stærð af bréfaklemmu kemur upp þegar ég sting vísi- og þumalfingri saman ofaní bréfaklemmuboxið. stundum eru þær of stórar en svo kemur fyrir að ég fæ þessar minnstu sem ná ekki utanum nema þunna bunka og þá verð ég að gera aftur. ég fæ að telja svartar möppur og ef ég er heppin eru þær ekki nógu margar og ég fæ að fara alla leið út í pennann. þá hoppar litla skrifstofuhjartað mitt af gleði og ég skokka hýr og kát út í hallarmúla.
ljósritunarvélin á til að flækja blöðin, þá segi ég ,,bréfasulta" og brosi í milljónasta skipti að þessum annars frábæra orðaleik. svo finnst mér gaman að reyna að komast að því hvort blaðið er flækt í hólfi A, B, C eða D. eða jafnvel E, en ég hef ekki enn getað fundið út hvar það er. (sem er spennandi útafyrir sig)
nú einnig þarf að ljósrita í lit með haus. alveg er það merkilegt hvað hægt er að skemmta sér yfir því hvernig bréfsefnið á að snúa í skúffunni til að textinn lendi á réttum stað.
já, það er gaman að vinna í lífeyrissjóði. ég skil hreinlega ekki hvað ég hef verið að hugsa undanfarið þegar ég hef verið að sækja um vinnu og nám út um hvippinn og hvappinn.
vanþakkláta ég.

Engin ummæli: