föstudagur, maí 14, 2004

Ég hef verið að prófarkalesa ritgerðir undanfarið. Nú fer að verða hægt að sannfæra mig um að íslenskan sé tungumál í útrýmingarhættu. Hún er að minnsta kosti í mikilli breytingarhættu. Reyndar er fólk misjafnt, en þegar á heildina er litið má segja að ótrúlega stór hluti hálf-fullorðins fólks sem er að skríða útúr háskólum, sé íslensku-fatlað að einhverju leyti. Stafsetningafötlunin er reyndar ekki sú versta, þó eru n og y að þvælast fyrir mörgum (það er svosem bara klassík), en verst þykir mér sú staðreynd að fólk er að skrifa lokaritgerðir sínar á talmáli. Oftar en ekki eru setningar greinilega íslenskufærðar enskuslettur sem er mjög auðvelt að sjá í gegnum og fæstir virðast hafa vald á því að skrifa bókmenntamál (reyndar hef ég ekki lesið yfir fyrir neinn úr íslensku- eða bókmenntadeild, og geri ráð fyrir því að það fólk hífi þetta upp á annað plan). og já, ég er sko dóttir föður míns (fyrir þá sem skilja)
(glöggir lesendur taka kannski eftir því að ég notast við hástafi og lágstafi í þessum pistli í þeim tilgangi að sýna framá eigið skriftarvit ehemm...)
en yfir í aðra sálma... júróvisjón á morgun. ruslana... algjör snilld. ég horfði reyndar á keppnina í fyrra þar sem ég var stödd í mexíkóborg. mexíkanska sjónvarpið sýnir hana þó ekki (sem er sosum ekkert skrýtið ef út í það er farið). en semsagt var ég í húsi þar sem television española var í boði, en það er sko spænska ríkissjónvarpið. spánverjarnir klikkuðu auðvitað ekki á júró og ég eyddi heilum eftirmiðdegi í herlegheitin (tímamismunurinn gerði það að verkum að þetta var ekki kvöldstund). úti var um 30 stiga hiti og ég var með opna glugga og sjónvarpið í botni. á neðri hæðinni var fjölskyldusamkunda tengdafjölskyldunnar en mér hafði ekki tekist að fá þau með mér í gott júróvisjón-partý, sem var reyndar synd því þetta er hresst fólk og skemmtilegt og þau voru þar að auki að staupa sig og svona... en well, ekki verður á allt kosið. þarna var ég semsagt ein dansandi og voða hress við opinn gluggann þegar ég tók eftir því að samkundan á neðri hæðinni var þögnuð. skvaldur og hlátur og latino-tónlistin voru þögnuð. hvað kom fyrir? hugsaði ég þar sem ég ýtti á mute-takkann á fjarstýringunni og lagði við hlustir. þá datt mér í hug að líta út um gluggann og niður á neðri hæðina (get eiginlega ekki alveg útskýrt arkítektúrinn í þessu húsi í stuttu máli), en allavega... þar stóð öll stórfjölskyldan í hnapp, grafalvarleg, horfðu upp til mín, og þegar ég setti upp andlit sem var eitt spurningarmerki þá hristi Leonardo frændi hausinn og spurði fyrir hönd hópsins HVURN ANDSKOTANN ÉG VÆRI EIGINLEGA AÐ HLUSTA Á!
þá höfðu þau staðið þarna niðri í svolítinn tíma og fylgst með mér dilla mjöðmunum yfir einhverju júrópoppi frá fyrrverandi sovétríkjunum og áttu ekki til orð yfir því hvað þetta væri hræðileg sjón og heyrn. síðan þá hefur mannorð mitt ekki orðið samt, en þau eru öll sannfærð um að ég hafi ömurlegasta tónlistarsmekk í heimi.
ætli þetta sé ekki spurning um að vera alinn upp við það að þetta sé skemmtileg keppni...
svo var spænski gísli-marteinninn nottlega frábær þar sem hann gólaði AY AY AY...! þegar þeir fengu ekki stig og svo OLÉ!! þegar þeir fengu stig.
legg hér með til að gísli öskri ÓLI þegar ísland fær stig á morgun.
Leonardo og félagar hafa ekki hugmynd um hverju þau eru að missa af...

Engin ummæli: