ársfundur nr.1 var haldinn í morgun. þangað mættu stjórnin, nokkrir starfsmenn sjóðsins og einn fulltrúi aðildarfélaga. nokkuð sorglegt miðað við að ég var búin að búa til heljarinar helling af fundargögnum, stóð sveitt við ljósritunarvélina alla vikuna og raðaði þangað til að enginn rúmmillimeter á lófum mínum var bréfaskurðarlaus. þetta ber bara vott um vanhæfni mannskepnunnar til að læra af reynslunni. ég hugsa að samanlagðir gestir á slíka ársfundi síðastliðin 5 ár, fyrir utan stjórn og starfsfólk, séu teljandi á fingrum annarar handar. samt bý ég alltaf til tugi af möppum uppfull bjartsýni um að Í ÁR verði allt breytt, áhugasamir sjóðfélagar muni standa í röðum og bíða eftir að fá að komast að. ég er meira að segja svo bjartsýn að ég tók með mér sérstakt eintak til þess að ljósrita eftir ef ekki væri til nóg. dios mio.
eina manneskjan sem er greinilega farin að leggja saman tvo og tvo er sú sem sér um veitingarnar. í fyrra var víst svakalegt hlaðborð sem ekkert sást á eftir hinn fámenna fund. í ár voru nokkrir bananar skornir niður og epla- og appelsínubátar. svona eins og í leikskólunum. á þeim bænum er attitudið komið úr miklum metnaði yfir í "ó crap, það mætir hvort eð er enginn, skellum bara ávöxtunum sem myndu annars skemmast um helgina í skál fyrir þetta lið...".
mér tókst að halda mér vakandi í gegnum upplestur ársskýrslu, tryggingafræðilegrar athugunar og fjárfestingastefnu. er ég væri spurð myndi ég þó eflaust fáu geta svarað öðru en því að öryrkjum hefur vissulega fjölgað því nú eru andlegir kvillar taldir með.
sem er raunar hin áhugaverðasta stúdía ef út í það er farið.
annað sem ég væri til í að stúdera er pósan sem fólk snappar inní þegar það er orðið að háttvirtum fundarmönnum. hvað er málið með þetta málfar? ég hef bókstaflega horft uppá fólk sem hefur verið hlægjandi og flissandi með sígó úti á svölum, umturnast og breytast í spítukalla með pókerfés sem tala hálfgerða klingónsku.
"...ef mér leyfist með leyfi fundarstjóra að yrða á viðstadda aðila með tilvísun í 3. málsgrein áðurnefndra skjala sem undirrituð hafa verið með gefnu samþykki meðlima stjórnarinnar, og í framhaldi af því væri við hæfi að koma á framfæri þakklæti og velvild í garð títt ræddra nálgana."
gesundheit.
jæja nú er bréfasulta í prentaranum... tíhíhí... alltaf góður þessi.
besta að hrista af sér fundarslenið og fara að leita að hinu krumpaða blaði sem veldur óvelkomnum töfum í útprentunum nauðsynlegra fylgiskjala. ef ÞETTA er ekki spennandi þá skal ég hundur heita.
góða helgi
hundur
Engin ummæli:
Skrifa ummæli