laugardagur, desember 20, 2008

í dag er ég búin að vera hrikalega dugleg. en hann var ansi langur.
ég stóð við loforðin sem ég var búin að gefa mér, meðal annars um að þrífa heimilið. og eins og áður sagði var dagurinn langur. sérstaklega af því að ég var ein heima í allan dag. ég endurtek, ein heima í allan dag að þrífa. fjölskyldan stakk af þegar þau sáu mig í druslugallanum með tusku á lofti og geðveikisglampa í augunum.
eða sko. fyrst fór ég með pólska kokkinn til tannlæknis því hann er með óþekkan endajaxl og bólgna kinn. þá lærði ég nýja setningu á pólsku, ég kann ekki að skrifa hana rétt en hún er svona ya iema naúchecheki eða eitthvað svoleiðis. það þýðir ég er kennari. ég er samt svolítið búin að gleyma henni og hún hefur strokast úr lófanum á mér við öll þrifin en þetta er amk næstum því rétt.
nema hvað. ein heima með gamla tónlist í botni þreif ég skúffur og skápa, sturtu og klósett, svefnherbergi, eldhús, stofu og forstofu. ég er fyrst að setjast niður núna með bjór í hönd og tölvu í fangi eftir um það bil 8 tíma törn sem ég fæ ekkert borgað fyrir nema hausverk og ánægjuna af því að eiga hreint og fínt heimili fyrir jólin. (þetta var löng setning í boði vífilfells)
í gær var ég með hassperur í rassinum. núna er ég líka með þær í lærunum. hvusslags eiginlega líkamsástand erðetta? það hefur amk greinilega verið hamagangur í öskjunni. eða var hamagangurinn í öskunni? nei.... bull.
þegar fjölskyldan kom heim södd, sæl og lyktandi af klór eftir útlegð frá klukkan eitt til hálf níu urðu þau hálf smeyk við að sjá mig. þarna stóð ég á miðju gólfi með hárið út í loftið, bauga undir augunum, blóðtauma í munnvikunum, kinnfiskasogin og sveitt eftir hamaganginn í öskunni. svei mér ef ég gleymdi ekki bara að borða.
svona er ég stundum. slæ framkvæmdum á frest út í hið óendanlega og þegar deddlænið skellur á andlitinu á mér tek ég mig til og tek til. og þá er það ekkert slor, allt sett í botn og botninn er suður í borgarfirði.
í dag stóð ég sko aldeilis við loforðin. ó já.

Engin ummæli: