föstudagur, desember 19, 2008

mín kona aldeilis í blogggírnum núna. ætli það sé einhverskonar staðgengill jólaskapsins? ég spyr mig...
orð með þremur eins stöfum í röð eru skemmtileg. þátttaka. blogggír. stresssamloka.
mikið svakalega er annars mikið af fólki hér á laugaveginum. nú sit ég inni á söntu maríu og góni til skiptis á tölvuna og út um gluggann. glugggann. glugggannn.
margt fólk í miðbænum getur verið sumarlegt eða jólalegt.
svo rýk ég upp og afgreiði á barnum og sest niður aftur. og svo rýk ég upp og þríf borð og sest niður aftur.
nú er ég sest niður aftur á minn stóra rass.
eitthvað upplifi ég þessa blessaða bloggfærslu sundurlausa. gæti verið af því ég er alltaf að rjúka upp og setjast niður aftur. sennilega. sennnilega.
í morgun fór ég og horfði á síðburðinn syngja á sviði. ég fæ alltaf tár í augun á svoleiðis viðburðum. frekar lúðaleg mamma að því leyti. eftir sönginn var dansað í kringum jólatré og við sungum meðal annars göngum við í kringum einiberjarunn sem er tiltölulega langdregið og einhæft lag. oseisei.
nú og eftir jólahátíðleikann skrapp ég í vinnuna og var alveg hrikalega dugleg. hamaðist og hamaðist alveg þangað til svitinn lak niður bakið á mér. nú er ég aðeins að ýkja en það má samt með sanni segja að ég hafi hamast. var svo alveg gasalega ánægð með afraksturinn. það er merki um að vinnan sé góð þegar maður fer ánægður heim. verkefnunum fullnægt og allir kátir. skrýtin tilfinning samt að vera komin í frí.
einu sinni fannst mér alltaf svo spennandi að fara í frí. núna finnst mér veturinn svo ný skollinn á að ég er eiginlega hálf hissa að vera komin í frí. nú riðlast rútínan aftur og svefntíminn fer í steik. svo verður kósí yfir jólin en eftir nokkra daga mun ég þrá rútínuna mína aftur. ég endist nefnilega aldrei nema bara svo og svo lengi í fríum í einu. fer hreinlega að sakna vinnunnar.
en það er nú svosem ekki skemmtilegt umfjöllunarefni. skiptum þá um.
ég er búin að hlaupa svo oft upp og niður stigann hér á söntu að ég er komin með hassperur í rassinn. er það skemmtilegra umfjöllunarefni? nei? ekki það? nú jæja, þá hætti ég bara í bili...

Engin ummæli: