mánudagur, desember 22, 2008

jólafrí - dagur þrjú.
eitthvað er ég að gefa mig því þegar ég vaknaði leið mér eins og lest hafi ekið yfir axlirnar á mér. ætli ég neyðist þá ekki bara til að skakklappast í apótek, setja upp hvolpaaugun mín og gráta þangað til einhver vill vera svo vænn að selja mér pillur. kannski verður nóg að ganga inn og biðja um lyfið, gæti verið.
nema hvað, þar sem makinn fékk hér um árið þá snilldarhugmynd að opna veitingahús hefur hann fátt annað að gera þessa dagana en að súpa seyðið af því. hann er fastur þar frá morgni til klukkan fjögur og fimm og jafnvel lengur alla daga vegna jólaanna. (jólaanna og jólahjálmtýr eru sko foreldrar mínir). en semsagt er blessunarlega svo mikið að gera að drengurinn fær ekkert frí eins og ég og börnin. svo er aftur spurning hvort orðið frí eigi við þegar ég er ein með börnin.... mætti kannski frekar kalla þetta jólasamveru, jólalæti, jóla.....álag?
dagurinn í dag verður að minnsta kosti á þennan veg ef allt gengur eftir: makinn vinnur frameftir degi, frumburðurinn fer í kringluna með félögum sínum að kaupa gjöf fyrir körfuboltaþjálfarann og við mæðgur förum á stjá í lind smáranna til að kaupa þær gjafir sem ekki hafa fundist í miðbænum góða. ég vona að ég lifi það af.
ég er eiginlega strax orðin þreytt af tilhugsuninni....
loforð dagsins: klára að kaupa jólagjafir handa fjölskyldu og starfsfólki og lifa af ferð í smáralind með barninu sem aldrei þagnar. sé til á eftir hvort tókst að standa við alltsamant.

Engin ummæli: