þriðjudagur, desember 23, 2008

í gærkvöldi vakti ég aðeins of lengi því ég var að klára að lesa bókina konur eftir steinar braga. mér fannst hún óþægileg og átakanleg, sagan sko. stundum skildi ég hana ekki alveg og þá upplifði ég að ég væri ekki nógu heimspekilega og bókmenntalega þenkjandi til að fatta. ég sjálf er hrifnari af því þegar hlutirnir eru sagðir þannig að ég skilji án þess að þurfa að túlka. ég er lélegur túlkur. kann lítið að lesa á milli línanna og þegar fólk reynir að senda mér skilaboð með svipbrigðum, líkamstjáningu eða óræðu tali getur það verið nokkuð öruggt um að ég er úti á þekju. samt þykir mér tvíræðni og orðaleikir skemmtileg en það er ekki það sama finnst mér.
nema hvað, það sem átti hér að koma fram var að í bókinni, sem inniheldur fullt af góðum hlutum þrátt fyrir átakanlegheit heildarinnar, fann ég nokkra kafla sem gripu mig og fengu mig til að hugsa. sá helsti er svona:
,,þegar kom að kröfum sem þurfti að svara, íþyngjandi kröfum sem þurfti að vakna til á hverjum morgni og sinna, voru flestir jarðarbúar líklega verr staddir, að minnsta kosti ekki mikið betur (en hún). hverri manneskju var skammtaður svolítill flötur eða sneið af lífinu - ,,leikvöllur", sem viðkomandi varð að gera á einhvern hátt að ,,sínum", tileinka sér reglurnar, beina þrám sínum og draumum eftir réttum farvegum innan þess skika og uppskera eða sá til samræmis við það hvernig til tókst. (...)(hún þurfti) að ná aftur þeim stærðum, því mikilvægi, sem fólkinu þarna úti - takmarkað hvert í sinni íbúðinni, vinnunni, ástarsambandinu, borginni sem það byggði - hafði tekist að gera að vettvangi hugmynda sinna um líf, tilgang, frelsi. sérhver manneskja spannaði jú aldrei í raun, nema þá um það bil tvo fermetra sem var mannslíkaminn í rýminu. hið eina sem skipti máli var hugurinn, og að hafa völd yfir huganum, sjálfri sér."
æi mér fannst þetta einhverra hluta vegna svolítið gott. það er alltaf gagnlegt að vera minnt á hvað maður takmarkar sig og lifir mikið inni í ,,kassanum". og þar sem ég er háfleyg og djúp í dag ætla ég í þokkabót að skella hingað inn texta við lag sem var mikið sungið í kringum mig sem krakki en það er svona:

dragðu ekki það að dansa þar til þú eldist
því að þá kannski uppaf hrekkurðu heldur skjótt
og hefur hreint aldrei dansað neitt.
taktu heldur því sem þér að höndum ber
það þýðir ekkert um að fást
þú skalt aldrei láta mæðu sækja sinnið á
né súta yfir von sem brást.

og svo er þetta sungið aftur og aftur og orðinu dansa skipt út t.d. fyrir að elska, drekka, ferðast, ríða.... eftir smekk.

en nú er semsagt kominn þorlákur. makinn eina ferðina enn stunginn af á veitingastaðinn hvar hann mun dúsa við þjónustustörf og uppvask langt frameftir degi. ég sjálf þarf að stinga rúmfötum í þvottavél því maður á alltaf að fara að sofa í hreinum rúmum á þorláksmessu. það kenndi hún móðir mín mér. svo þarf ég að ryksuga og til að kóróna skemmtilegheitin neyðist ég til að fara í bónus og ikea. þá er ég búin á einni viku að heimsækja öll helstu svarthol höfuðborgarsvæðisins. fór nefnilega í húsasmiðjuna um daginn líka.
ég lifi þetta vonandi af.
lofa að blogga í kveld til að sannfæra sjálfa mig um að ég lifði af.
þá hef ég líka loforð til að standa við...

Engin ummæli: