sunnudagur, desember 21, 2008

þegar ég vaknaði í morgun fann ég hversu mikið úberhreingerningin hefur fengið á líkamann minn. ef ég vissi ekki betur gæti ég trúað að ég hefði vakað í alla nótt við drykkju, dans, armbeygjur og fjallgöngu. en þar sem ég er að eðlisfari jákvæð ákvað ég að láta líkamlega kvilla ekki á mig fá heldur láta eins og ekkert hefði í skorist. sem ég og gerði.
ég var líka svo dugleg í gær við að standa við loforðið mitt að ég er eiginlega búin að ákveða að láta þetta verða svona loforðadaga. á hverjum degi ætla ég að standa við loforð og þá verð ég líka svo stolt af mér þó að stundum sé erfitt að hafa sig í að gera hlutina.
í dag lofaði ég til dæmis að ég ætlaði að kaupa jólagjafir og hanga með fjölskyldunni. það tókst. makinn keypti gjöf frá mér til hans sem telst þannig með sem ég að kaupa jólagjafir og við fórum með síðburðinum á snjóþotu niður arnarhól oft og mörgum sinnum. það telst með sem ég að hanga með fjölskyldunni.
nú er makinn dottin út í sófanum, frumburðurinn farinn með systur minni á einhverja tónleika, síðburðurinn á fullu að föndra við eldhúsborðið og moi, eða ég sjálf, með lappirnar upp í loft að reyna að vera róleg þó svo að ég fái sting í hjartað í hvert sinn sem ég sé föndurdrasl detta af eldhúsborðinu á glampandi fallega hreina gólfið mitt sem ég lagði svo mikið á mig að gera fínt í gær. (þetta var löng setning í boði kaupþings)
dagur tvö: staðið við loforð. dugleg stelpa.

Engin ummæli: