jólin eru rólegur tími. ég er komin í tímabundna tímaleysu, farin að vaka lengi frameftir og fara seint á fætur. núna er klukkan til dæmis að verða þrjú um nótt og ég á leið í rúmið eftir að hafa klárað að horfa á mjög svo skemmtilega þáttaseríu með frumburðinum og systurinni. og ég veit varla hvaða dagur er. ef ég hefði ekki haft rænu á því að fara í miðvikudagsnærbuxurnar mínar í gær gæti einhver logið því að mér að í dag væri sunnudagur.
á morgun ætla ég aftur að fara seint á fætur og dóla mér frameftir með afkvæmunum. svo er hið árlega jólakaffiboð fjölskyldunnar heima hjá ömmu og þar verður sko etið eina ferðina enn. ég er búin að borða svo mikið undanfarna daga að ég yrði ekki hissa ef einhver spyrði mig hvort ég ætti von á tvíburum. en sem betur fer koma þessir tvíburar bara útúr mér í formi síendurtekinna prumpa. eins gott að ég er ekki síamstvíburi því þá væri ég sennilega komin langleiðina með að drepa hinn helminginn af mér.
en nóg um það. á morgun er ég semsagt að fara með afkvæmin til hennar ömmu minnar sem mun gera sitt besta til að framlengja prumpuástandið á mér með mat. æi, úps, ég ætlaði að hætta að skrifa um prump... afsakið.
til þess að láta mér líða aðeins betur með allt átið er ég að hugsa um að notfæra mér þá staðreynd að sú gamla býr á hraunteig og skella mér með krakkana í sund. þá þykir mér við hæfi ef kaffiboðið byrjar klukkan þrjú að áætla eins og klukkara í vatninu. það virkar líka svo helvíti vel til að fá síðburðinn fyrr í rúmið á kveldin. já, svei mér ef þetta er ekki bara ákvörðun tekin hér og nú, í beinni á netinu.
aumingjans makinn missir af kökuflóðinu því hann þarf að sinna veitingahúsabarninu sínu og vakna snemma í þokkabót, en honum finnst það í lagi því hann er hvort eð er ekki mikill fjölskyldumótamaður. annað en hún ég. seisei.
en nú er semsagt kominn tími til að skella sér úr fimmtudagsnærbuxunum og undir sæng. á morgun fer ég svo í föstudagsnærbuxurnar og þannig veit ég að það er að koma helgi og ég get haldið áfram að fara seint að sofa og seint á fætur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli