ég er búin að bjóðast til að syngja fyrir samstarfsfólk mitt þannig að allir heyri. það var afþakkað. ég bauðst til þess að dansa fyrir þau á meðan þau eru að vinna. það var afþakkað. nú síðast bauðst ég til þess að lesa upphátt fyrir þau allar kennitölurnar og upphæðirnar sem ég er að skrá niður, jafnóðum og ég skrái. það var líka afþakkað. svo segir fólk að ég sé ekki að reyna að gera lífið skemmtilegra. ég held að það ætti nú bara að líta yfir farinn veg og skoða alla þá fjöldamörgu möguleika sem þeim hafa staðið til boða en hafa verið afþakkaðir (á mis-vinalegan hátt).
stundum syng ég nú bara samt og stundum stíg ég nokkur dansspor og stundum tala ég við tölvuna mína og les upphátt úr því sem ég er að gera.
mér finnst það vera alveg óborgaranlegt og gaman. lífgar uppá daginn og svona. það getur samt vel verið að ég sé gersamlega óþolandi samstarfsfélagi.ég gæti jafnvel farið í taugarnar á sjálfri mér. sem betur fer er ég ekki samstarfsfélagi minn.
nú er ég að hugsa um að kvabba aðeins upphátt yfir því að lyklaborðshlutinn á skrifborðinu mínu er farinn að síga ansi óþægilega niður á lærin á mér og pirrar mig við skriftir. svo ætla ég að hamast svolítið með hausinn undir borði og rassinn út í loftið, við að pota og tosa í allt járndraslið sem heldur borðinu saman og röfla yfir því að það sé orðið laust og þetta borð sé ömurlegt. þegar ég verð búin að því ætla ég fram í geymslu til að finna mér skrúflykil og svoleis dótarí og í framhaldi af því ætla ég að stinga hausnum aftur undir borð (alls ekki þegjandi og hljóðalaust) þar sem ég mun skrúfa og herða allt sem ég kem höndum yfir (eða undir). þegar því verður lokið ætla ég að eyða tíma í að blaðra um hvað ég sé sniðug að hafa bara reddað þessu sjálf, hvað þetta sé allt annað líf og að ég þurfi sko ekki á neinni aðstoð að halda.
svo ætla ég að syngja ,,hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður" (með bakröddum og öllu).
segiði svo ekki að það sé ekkert fjör á skrifstofum!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli