föstudagur, júlí 16, 2004

ég sé að ég skrifaði sjá í gegn, en að sjálfsögðu átti ég við slá í gegn.
stundum stend ég mig að því að birta skrifin óprófarkalesin og þá slæðast oftar en ekki inn einstaka villingar. þegar slíkt gerist þá slæ ég sjálfa mig í ennið og dreg frá eitt stig í sjálfsáliti.
en jæja, what to do, was macht gefahren, keskonfe, que hacer og hvad kan man lave.
sosum.
 
þegar ég renndi yfir færsluna um bíómyndaleik minn þá mundi ég skyndilega eftir nokkuð skondnu atriði sem átti sér stað við tökur myndarinnar.  þá vorum við stödd fullt af tökuliði og öðru liði í portinu á bak við það sem nú er bónus á laugavegi. þar átti ég að leika atriðið í porsche-inum þegar ég hitti persónu jóns sæmundar í fyrsta skipti. þetta var seint um kvöld og allir voru orðnir frekar þreyttir. eitthvað vesen var með eiganda bílsins sem vildi ekki leyfa okkur að opna húddið eða skottið á bílnum (hvoru megin er vélin í porsche?), en eníhú þá átti hluti atriðisins að snúast um það að jón var að hjálpa mér að koma bílnum í gang og þurfti að kíkja á vélina. nema hvað, það var svo mikið endalaust stapp og rugl með þennan blessaða bíl að leikstjórinn fór í fýlu og rauk í burtu. restin af okkur hékk þarna í einhvern tíma eins og aulabárðar og vissum ekkert hvað skyldi til bragðs taka, enda lá engin smá vinna á bak við að koma öllu draslinu upp og svo virtist það hafa verið allt til einskis. allavega fór liðið smám saman að pakka saman og flestir gerðu sig klára til að stinga af.  þar sem flestir voru uppteknir við að pakka saman og taka til var enginn að skipta sér af mér. barinn sem var þarna við hliðina sem hét ef mig misminnir ekki elvis eða presley eða eitthvað svoleiðis, var lokaður, enda var klukkan komin langt frameftir miðnætti.
nema hvað, mér var orðið svakalega mikið mál að pissa. ég komst ekki inn á barinn og ég bjó í breiðholti og frekar langt að fara á klósettið heima. efst í horninu til vinstri á bílastæðinu stóð stór bíll, svona amerískur van. þar sem enginn var á ferli þar í kring og allir staddir á gangstéttinni við hverfisgötuna ákvað ég að smeygja mér á bak við bílinn og láta vaða. þarna pukraðist ég voða laumuleg, girti niður um mig og sprændi. ég man ekki hvað ég hafði verið að drekka svona mikið en allavega man ég að ég pissaði að því er virtist endalaust.
svo stóð ég upp í rólegheitunum og fór að girða uppum mig þegar ég heyrði gífurleg öskur og læti ekki alls svo langt í burtu.
,,Hver var að hella niður?!, Hvað er þetta?!, Drífið ykkur strákar, kippum mónítornum í burtu!!".
ég lagði ekki strax saman 2 og 2. ég blandaði mér óséð inn í hópinn og fór að fylgjast með því sem á gekk. allt í einu fékk ég út 4. helvítis bílastæðið hallar!
sem betur fer lenti lækurinn bara á smá slatta af vatnsheldum snúrum.
þegar leikstjórinn með höndina ákvað loks að hætta að vera í fýlu og kom aftur var öllu draslinu skellt upp eins og ekkert hefði í skorist og senan var tekin upp.
leyndardómurinn um lækinn og blautu snúrurnar var aldrei leystur
...fyrr en í dag.

Engin ummæli: