vaknaði með stíft bak í morgun og er frekar krambúleraður karakter í dag. lét það þó ekki stöðva mig frá því að vafra um garðinn minn eins og sjá má á mínum eldrauðu kinnum og handleggjum. ég hefði lagst í sólbað ef ég vissi ekki að þá myndi ég festast enn frekar og gæti sennilega ekki staðið upp aftur næstu sólarhringa.
annars þykir mér vænt um að sjá undirtektirnar við fyrirspurn minni um unga efnilega karlmenn á lausu. ég er bara að fatta að ég var ekki komin lengra en svo í hugsuninni að ég hef ekki hugmynd um hvernig ég ætti svo að snúa mér í því að láta blessað fólkið kynnast. enda er ég sosum algerlega laus endi í þessu máli.
en það sakar ekki að reyna. ég er opin fyrir tillögum og uppástungum (sem eru sennilega eitt og hið sama fyrirbærið).
ég ætla svo að gera þetta enn meira spennandi með því að lofa því að þegar ég verð forseti ætla ég að bjóða hinu lukkulega pari til 5 réttaðrar kvöldmáltíðar á bessastöðum. á minn kostnað.
en nóg um það í bili. ég held ykkur póstlögðum ef eitthvað gerist fréttnæmt. (þetta var enskusletta á íslensku í boði hússins).
ég hjólaði á spænska túrista í gær. þar sem ég var á leið til vinnu, enn eina ferðina, þurfti ég sem oftar að hjóla framhjá nordica hótelinu. þar fyrir utan, í kringum klukkan 8:30 á morgnanna, eru alltaf einhverjar rútur og slatti af túristum á leið á gullfoss og geysi, í bláa lónið eða einhverjar aðrar af hinum áræðanlega fjöldamörgu ferðum sem eru á boðstólnum fyrir þá sem nenna og tíma (týma?) að heimsækja skerið. nema hvað, í þetta sinnið voru rúturnar tvær. þeim var lagt samhliða, langsum á bílastæðinu og á milli þeirra var um það bil 3ja metra bil. þeir metrar voru fylltir með spánverjum. ég sá hópinn löngu áður en ég kom að þeim og gerði ráð fyrir að amk einn af uþb 40 manns myndi verða litið í átt til mín og gæti sá hinn sami vonandi bent hinum á að víkja. hópurinn nálgaðist og ég hægði á mér. ekkert haggaðist og ég hægði enn meir. þegar ég var komin alveg að hópnum var ég farin að hjóla löturhægt og var deffinittlí orðin nógu áberandi til þess að fá einhver viðbrögð. en nei. grúppan stóð þarna sem fastast líkt og væru þau keppendur í styttukeppni blindra og heyrnarlausra.
ég bremsaði þegar dekkið var komið eins og eina mannsbreidd inn í þvöguna. ekkert.
þá hóf ég upp raust mína og sagði á spænsku "con su permiso por favor". en það útleggst á íslensku eitthvað svona" með yðar leyfi, ef þið vilduð gera svo vel".
allt í einu var eins og væri kveikt á litlum upptrekktum mörgæsum og allir fóru að afsaka sig og biðjast fyrigefningar hvert ofaní annað. mikil óvissa virtist ríkja um það í hvaða átt hver og einn ætlaði að fara í þeim tilgangi að hleypa mér framhjá. brátt tókst mér að sjá út þrönga en þó mögulega leið í gegnum grúppuna og þá leið smeygði ég mér fimlega og á örskotsstundu. svo hélt ég bara áfram að hjóla.
fyrir aftan mig heyrði ég spænskan klið þar sem beðist var afsökunar og óskað fyrirgefningar hægri vinstri. ég vona bara að þau hafi endanlega áttað sig á því að ég var löngu farin og komið sér upp í rúturnar.
og nú dettur mér í hug önnur dæmisaga af spánverjum. þegar ég sat í heita pottinum ásamt makanum mínum um daginn, eins og ég nefndi hér áður, komu 4 spánverjar út. þar sem við vorum stödd eru tveir pottar. annar heitari en hinn. sá heitari var tómur en hinn var fullur. þar sem spánverjarnir komu tiplandi út heyrði ég þau tjá sig um að nú væri mikið gáfulegra að fara í innri pottinn, enda hann alveg tómur. þar gætu þau verið í friði.
þau komu ansi rauð og soðin uppúr eftir að þau höfðu kveikt á perunni með blessuð skiltin sem hanga fyrir ofan pottana. þar stendur nefnilega hitastigið á vatninu.
þegar mexíkanar segja hafnfirðingabrandara eru hafnfirðingarnir frá spáni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli