þriðjudagur, júlí 13, 2004

mig dreymdi um daginn. það er eitt af þessum litlu hlutum sem eru orðnir í frásögur færandi á þessum síðustu og verstu tímum rumskandi barna og bleyjuskipta.
en nema hvað,ekki nóg með að mig hafi dreymt, heldur var draumurinn atarna ansi sniðugur, svona einn af þessum sem fær fólk til að hugsa, setja vísifingur á höku og segja hmmm...? ætli þetta séu skilaboð að handan, eða er þetta mitt alter ego að reyna að segja mér eitthvað? er þetta gersamlega tilviljanakennd súpa eða er yfirvaldið að koma upplýsingum á framfæri við mig í gegnum undirmeðvitundina?
ég bara spyr...
en draumurinn var semsagt eftirfarandi:
ég var stödd í byggingu. ég var meðvituð um að þetta væri margra hæða bygging, en hver hæð var ekkert voðalega stór. veggirnir voru dökkmálaðir, en alls ekkert þrúgandi eða sérstakir á neinn hátt. á miðri hæðinni var stigagangurinn en allt í kring voru dyr og gluggar inn í rýmin sem tilheyrðu hæðinni. á hæðinni þar sem ég stóð (ásamt einhverri mannveru sem ég get ómögulega komið fyrir mig), var meðal annars einn stór gluggi sem snéri inn að danssal þar sem hópur fólks var að æfa sig í nokkurskonar ballett. ég horfði aðeins á þau inn um gluggann og langaði eitthvað til að skoða nánar þannig að ég fór og opnaði dyrnar. um leið og ég gerði það sá ég að það var ekkert fyrir innan, en þegar ég lokaði sá ég samt dansarana inn um gluggann.
ég ákvað að gera fleiri tilraunir og það kom á daginn að það sem ég sá inn um gluggana reyndist aldrei vera það sem ég sá þegar ég opnaði dyrnar. og ég flakkaði á milli hæða og prufaði mig áfram, en ekkert breyttist.
þá kom þessi manneskja sem var þarna líka til mín og spurði mig hvort ég hefði pælt í því að kannski væru dansararnir bara á annarri hæð en þeirri sem ég var viss um að þeir væru á. ég var ekki alveg að skilja þetta en þá sagði hún að um leið og ég gerði ráð fyrir því að ég myndi sjá dansara, þá sæi ég þá ekki, þá væru þeir annarstaðar. að ég gæti ekki séð þá fyrr en ég hætti að gera ráð fyrir því að þeir væru staddir fyrir innan dyrnar sem ég var að opna.
þá skildi ég betur og fór aftur á hæðina þar sem dansararnir höfðu verið. ég horfði á þá inn um gluggann en einbeitti mér að því að gera alveg eins ráð fyrir því að sjá ekki nokkurn skapaðan hlut þegar ég opnaði dyrnar.
þegar sú hugmynd var komin vel í hausinn minn ákvað ég að opna dyrnar og viti menn.....
þarna var fullt af fólki að æfa sig að dansa ballett.

svo vaknaði ég.
vinsamlegast leggið inn draumráðningar eftir að tónninn heyrist...
bíp.

Engin ummæli: