fimmtudagur, júlí 15, 2004

undanfarið hef ég einhverra hluta vegna verið voðalega mikið að spögúlera í blóti. þá á ég ekki við þorrablót eða þvíumlíkt heldur svona #$$#&$&#$/&%#& blóti.
eins og þeir sem þekkja mig vita, er ég forfallinn málvísindanörd. sem betur fer er þetta þó bara á áhugamannastiginu því að ef ég færi að gera karrír úr þessu mætti íslenska málfarsakademían fara að vara sig.
nema hvað, ég er semsagt að hugsa blót. það er ábyggilega ekki vinsælt hobbí í himnaríki að vera íslenskur blótari, enda virðist massífur meirihluti blótsyrða okkar tengjast gaurnum í kjallaranum.
sem dæmi má nefna: helvítis, djöfulsins, andskotans, fjandans, skrattinn, fjárinn, bölvaður, árinn, bévítans og skrambinn (eða er það ekki?). þetta er í raun nokkuð merkileg stúdía þetta með allar helvítistengingarnar.
svo eigum við eitthvað smá anal líka sbr. hoppaðu eða troddu því uppí rassgatið á þér, en reyndar er þetta með rassgatið aðeins að rugla mig því að talað er um að lítil börn séu svo mikil rassgöt og svo er alls ekki of slæmt að vera borubrattur.
nema hvað. kvenfólk sem pirrar hugmyndasnauða blótara eru stundum kallaðar píkur, tussur eða kuntur. karlmenn geta verið karlpungar (en ekki hvað? kvenpungar?), en ég hef ekki enn heyrt neinn vera kallaðan typpi eða brjóst. frekar er minnst á gáfnafarið og getur viðkomandi þá verið hálfviti, fáviti, vanviti, kjáni, bjáni, auli eða þumbi. það þykir ekki heldur gott að vera ofviti. lengi lifi meðalmennskan.
í barnaskólasamfélaginu fyrir einum 20 árum síðan var ýmislegt notað sem blótsyrði sem er það ekki lengur og ég verð brjáluð ef ég heyri notað í dag á niðrandi hátt. ég man eftir að hafa heyrt (og eflaust notað) hommi, arabi, mongólíti og fatlaður. já og svo var líka ansi ljótt að vera kelling. á tímabili þótti einhverjum ljótt að vera kallaður jónas eða skúli, en ég held að það hafi verið stutt tískutímabil og óska jónösum og skúlum þessa lands alls hins besta með sín fögru nöfn.

nú dettur mér í hug sú lenska að stunda holdafarsblót. hlussa, jussa, fitubolla og spikklessa. það er líka hægt að vera títuprjónn, en eins og hugsunarhátturinn er í dag yrði því sennilega frekar tekið sem hrósi en einhverju öðru.
þetta er svosem ekki allt blót þó svo að ég kalli það svo, ég nenni bara ómögulega að fara útí að skilgreina uppnefni, dónaskap, blót og níðingshátt..eða hvað þetta heitir nú alltsamant. ég á bara við, og vona að það skiljist, það sem fólk lætur útúr sér þegar það er að óska öðrum ferðar til fjandans eða vill minna það á aumingjahátt sinn.

nú er ekki úr vegi að minnast á niðurstöður mínar eftir blótunarskoðun í ólíkum samfélögum. ég komst nefnilega að því að við erum eftir allt saman ósköp krúttaraleg og saklaus í þessum málum, og í raun alveg hrikalega blótsyrðafátæk. sumir bæta sér það upp með því að nota orð sem eru ekkert ljót og segja þau á voða ásakandi hátt þannig að þau hljómi aðeins verr. það gera tildæmis foreldrar mínir þegar þau keyra um bæinn og kalla aðra ökumenn uglur og aparassa.
í mexíkó er mun algengara að farið sé inná kynferðismál og stór hluti uppnefna tengist móður viðkomandi og kynlífi. mjög algengt í spænskumælandi löndum er td. að vera kallaður afkvæmi vændiskonu og í mexíkó gæti fólk átt það til að benda þér á að stunda nú kynlíf með þeirri góðu konu. þetta mæðratal tengist sennilega kaþólskunni og þeim stalli sem móðirin er höfð á sem gyðja. þar sem hún er svona mikilvæg og heilög er nottlega assgoti sárt þegar einhver skítalabbi segir eitthvað ljótt um hana (kúkalabbi og skíthæll). okkur þykir líka vænt um mæður okkar en hin látlausu trúarbrögð lúters lögðu aldrei áherslu á mikilvægi móðurinnar.
en nú er ég hreinlega komin með efni í doktorsritgerð.

asni kúkur fáviti piss.

Engin ummæli: