ég fór í sund í gær ásamt mínum ektamanni. það er alveg í frásögur færandi vegna þess að við fórum barnlaus og slíkt kemur ekki fyrir oft á þessum síðustu og verstu tímum. þetta var óskaplega kósý sundferð, aðallega stíluð uppá hangs í heitum potti og rólegheit innanum fljótandi hár og húðflögur.
þar sem við sátum þarna í pottinum birtist gamall kunningi. drengur sem ég hef vitað af síðan ég var 9 ára og þekkt síðan ég var 13. enginn besti vinur, en þó lenti ég í ýmsu braski ásamt honum og hans bestu vinum út grunnskólann og langleiðina í gegnum framhaldsskólann. í dag er þessi góði drengur orðinn meðlimur í leikhúselítu landsmanna.
,,nei hæ!" sagði ég.
,,hæ hæ" sagði hann.
,,gaman að sjá þig, hvað segir þú gott?" sagði ég.
,,bara allt gott" sagði hann. ,,ég er að setja upp ***** sýninguna og það er allt á fullu".
,,já alveg rétt, ég las einhverstaðar um það. gengur ekki bara vel?" spurði ég.
,,jú jú, bara rosalega mikið að gera, þetta er mikil vinna" svaraði hann.
,,fjölskyldan hress og allir kátir?" spurði ég.
,,já, allt í góðu bara" svaraði hann.
,,til hamingju með þetta allt saman" sagði ég.
,,takk" sagði hann.
og svo var það búið. ég sat þarna með mitt vinalegasta samræðubros á vörum en datt hreinlega ekkert fleira í hug að segja. makinn minn var að ræða við einhverja túrista og ekki fékk ég aðstoð frá leikhúsmanninum. hann þurfti allt í einu eitthvað voðalega mikið að skoða himininn og umhverfi pottarins og svipurinn á honum bar ekki merki um að nokkur sála sem hann kannaðist við væri á svæðinu. ég ákvað að vera ekkert að trufla manninn með rausi þannig að við urðum bara ókunnugt fólk eftir að samræðunum lauk. nokkrum þagnar-mínútum síðar stóð hann upp og óð af stað uppúr pottinum. ég greip í rassgatið á honum með röddinni:
,,gaman að sjá þig og gangi þér vel með sýninguna!" gólaði ég.
,,takk" muldraði hann og dreif sig uppúr.
eftir þetta fór ég að spögúlera. ég veit ekki hvað það er, en ég reyni að gera aldrei svona, sama við hvern ég er að tala. ég hefði spurt á móti, ,,hvað er svo að frétta af þér og þínum?", ,,hvað ert þú að gera þessa dagana?", allt þetta klassíska tsjitt tsjatt sem við förum í gegnum við þessháttar tækifæri. ég er spurð og ég spyr á móti. ég segi frá og ég bið um frásögn á móti.
en sumt fólk er bara svona. það kallast víst egósentrískt (nema hann sé orðinn svona merkilegur með sig blessaður..hehe).
ég þekki nokkra aðila sem eru egósentrískir. að tala við þau er eins og að vera hvíslari í leikhúsi. ég hvísla inn nokkrum stikkorðum sem aðalleikarinn grípur á lofti og notar til að halda áfram með eigin texta.
ég segi ,,barn"
stjarnan segir ,,já, hann gulli minn var að byrja á leikskóla, hann hefur verið svo veikur í vetur. ég fór með hann til læknis um daginn og ble ble........"
að lokum er bara sagt takk og bless.
eintal með passívan hlustanda.
ég og mér og mig og mínum og minna.
það getur vel verið að sumt fólk hafi hreinlega engan einasta áhuga á að vita nokkurn skapaðan hlut um mig eða mín afdrif. ekkert frekar en að ég sé nokkuð að deyja úr spenningi yfir að vita hver sé að vinna hvar. en stundum lendir fólk samt í kurteisistali um daginn og veginn og það þarf alls ekki að vera leiðinlegur eða neikvæður hlutur. ef rétt er haldið á spöðunum.
ef ég hitti hann aftur í pottinum og hann spyr mig ekki hvað ég segi gott, þá ætla ég bara að fara í kaf og vera þar eins lengi og ég get.
hann getur þá kannski rætt um það við næsta viðmælanda að hann hafi hitt mig og sýnst ég eiginlega vera orðin svolítið skrýtin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli