ég ætla að bjóða mig fram til forseta í næstu kosningum. ég er ekki pólitísk. ég á ekki eins marga óvini og ólafur, ég er ekki eins skrýtin og umdeild og ástþór, ég á örugglega séns í baldur og það er kominn tími á aðra konu á bessastöðum. svo á ég maka frá útlöndum (sem virðist vera orðið skilyrði) og ég tala nokkur tungumál. ég get talað mjög fína íslensku, alveg hreint til sóma fyrir land og þjóð, ég lít ekkert illa út í glæsilegum síðkjólum og ég er voðalega góð í að spjalla við fólk í formlegum boðum. ég á auðvelt með að slá á létta strengi (án þess þó að missa stílinn), ég get sett mig inn í alvarleg og flókin málefni, ég er ekkert tengd inn í baug, norðurljós, sjálfstæðisflokkinn eða frímúrararegluna, ég er scandal-free og ég ætti ábyggilega auðvelt með að nota þokka minn og útgeislun í þágu lands og þjóðar þar sem ég spásseraði á háum hælum meðal þjóðhöfðingja heimsins og sannfærði þá um að öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir. ég myndi beita mér fyrir heimsfriði (á ó-geðveikislegan hátt) og hafa óskaplega réttláta sýn á öll þau málefni sem fyrir mig yrðu borin. undirritun laga myndi ég að sjálfsögðu íhuga vel í hvert sinn, sama hversu stór eða smá málin myndu virðast því að í réttlátu lýðræði skiptir hver og einn máli. ég er ekki af ríku fólki komin og ég á engan pening. af þeim sökum mun kosningabarátta mín hvorki verða bruðl með fé né mafíósaskapur með peningagjöfum. ég mun láta fólkið í landinu um að breiða út orðið auk þess sem ég mun þakka hverjum þeim fjölmiðli er sæi sér fært að leyfa mér að láta ljós mitt skína.
vinsamlegast styðjið málstaðinn og safnið undirskriftum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli