þriðjudagur, júlí 20, 2004

mig vantar átrúnaðargoð.
einu sinni var ég gífurlega skotin í sigga breik, mig minnir að ég hafi verið um 9 ára. þá var hann frægur eins og nafnið gefur til kynna, fyrir að breika. ég hef aldrei þekkt kauða, en mikið óskaplega þótti mér hann merkilegur og fullkominn. svo elskaði ég john taylor og simon le bon úr duran duran. ég man að ég varð óskaplega pirruð þegar simon le bon gifti sig. hann var fram að þeim tímapunkti algerlega fullkominn í mínum augum og ég þráði ekkert heitara en að kynnast honum. ég var á tímabili óskaplega heilluð af elvis presley og horfði löngunaraugum á myndir af honum. verst að hann var dáinn.
einhverntíman þóttist ég finna tengsl á milli mín og johnny logan sem söng hold me now í eurovision. ég átti meira að segja kasettu þar sem ég hafði tekið það lag upp aftur og aftur út alla spóluna, og ég átti það til að sofna útfrá henni....,, hold me now, don´t cry, don´t say a word, just hold me now..." einstök fegurð þar á ferð og hann var fullkominn fyrir að geta látið mér líða svona fallega.
ég heillaðist líka af nokkrum drengjum sem áttu samleið með mér í skóla og þá voru þeir fyrir mér fegurðin ein, ósnertanlegir og bestir, hvort sem það var við að skrifa, spila fótbolta eða kasta í mig snjóboltum. sá fyrsti sem ég man eftir að hafa fallið fyrir var drengur að nafni viggó ásgeirsson. hann er tveimur árum eldri en ég og bjó í blokkinni við hliðina á. mér þótti hann lengi vera fullkomnunin holdi klædd. þegar ég var 6 eða 7 ára man ég eftir því að við vorum eitthvað að leika okkur úti og það voru pollar á gangstéttinni. hann notaði litla fötu til að setja pollavatn í og svo fékk hann sér sopa úr fötunni. þá notaði ég tækifærið og fékk mér líka sopa, nákvæmlega á sama stað og hann hafði drukkið. það má eiginlega segja að það hafi verið minn fyrsti koss. í dag er viggó hamingjusamlega giftur formanni stúdentaráðs og ég get ekki betur séð en að það hafi ræst ágætlega úr honum. hann er samt ekki mín týpa.
þar sem ég virðist vera farin að nota þetta blogg til að koma útúr ýmsum skápum get ég alveg eins rifjað það upp að ég átti tímabil þar sem ég var óskaplega heilluð af placido domingo og kristni sigmundssyni. það er eitthvað við þessa stóru og djúprödduðu óperusöngvara sem ég féll alveg fyrir. mér þykja þeir nú reyndar ennþá sætir enn þann dag í dag, en ég fæ samt ekkert í hnén þegar ég sé þá. tenórarnir hafa mér alltaf þótt síður spennandi.
 
á ákveðnum tímapunkti komst ég að því að mannfólkið er ófullkomið, hvert eitt og einasta eintak. meira að segja súperman er breyskur. síðan þá hefur mér ekki tekist að eignast almennilegt átrúnaðargoð. eins og það var nú spennandi tilfinning að geta horft á myndir af einhverjum og séð ekkert nema ljós.
í þá tíð bjuggu fleiri fiðrildi í maganum á mér.
spurning um að fara að rækta eins og nokkur stykki?
 
 
 

Engin ummæli: