í gærkvöldi þar sem ég lá undir sæng og rembdist við að sigra koffínvímuna var ég alveg með á hreinu hvað ég ætlaði að blogga um í dag. það kemur sjaldan fyrir að ég fæ góðar svona fyrirfram-blogghugmyndir, en í gær var semsagt eitt af þeim skiptum. nú get ég ómögulega munað hvað það var sem ég ætlaði að skrifa um. ég man að það var ansi hreint sniðugt hjá mér. nú verð ég ekki í rónni fyrr en ég man hvað í fjáranum það var sem ég hafði hugsað mér. það var ekki þetta með forsetaframboðið, því ég er búin að skrifa það. (er samt enn á því að það sé ansi góð hugmynd). það var ekki um skordýr, því ég er búin að skrifa það... hvað var það? arg.. alveg er það óþolandi þegar heilinn á manni fer í tabula-raza ástandið. (sko! nú sló ég um mig með útlenskum frasa og þykir mér hafa tekist bara vel upp með það).
ég man að ég var eitthvað að hugsa um að blogga á útlensku, en fannst það svo vera frekar ósniðug hugmynd. börnin mín hafa ekki gert neitt afspyrnu afbrigðilegt undanfarið, svo varla ætlaði ég að skrifa um þau... nema hvað að síðburðurinn greindist með bronkítis á laugardaginn. pensilín, púst og andvökunætur í koffínvímu eru svona í grófum dráttum úttekt á helginni minni... en ég ætlaði alveg örugglega ekki að skrifa um það heldur.
ég er ekki að fylgjast með fótboltanum, komst þó ekki hjá því að vita að grikkland vann portúgal í gær. ég þykist vera alveg viss um að ég hafi engan veginn ætlað að blogga um það. hvur fjundinn... þetta er ekkert að koma hjá mér. ég er að reyna að beita útilokunaraðferðinni en það er hreinlega ekki að kvikna á neinum perum.
ofninn í stofunni hjá mér er fastur á funheitu þó svo að skrúftakkinn sýni að það sé slökkt á honum. það er benidorm-stemming í stofunni hjá mér og píparinn svarar ekki í símann. ég veit nú samt að það er ekki eitthvað sem ég var að velta fyrir mér í gærkvöldi, enda vissi ég ekki þá að hann myndi ekki svara í símann.
ég er farin að halda að þessi skyndilegi heiladauði sem ég þjáist af hérna á skrifstofunni séu afleiðingar eins alsherjar samsæris. hérna utar á ganginum eru nefnilega tannsmiðir með bækistöðvar. (tannsmiðir og lífeyrissjóður á sama gangi...hljómar frekar gruggugt...), en allaveganna þá slæðist mjög oft hingað inn til mín, og þá sérstaklega til mín þar sem mér var á mjööög dúbíus hátt skipað að flytja mig á skrifborðið í horninu einmitt þar sem dragsúgurinn síast beinast inn, en allavega þá síast semsagt hingað inn alveg svakaleg skrýtin gas-lykt sem er af einhverju sem ,,tannsmiðirnir" nota. ég er nú alveg hætt að trúa því að þetta séu tannsmiðir, enda eintómar ungar myndarlegar stúlkur í hvítum sloppum, mjög ótannsmíðalegar... þær eru eiginlega meira í átt að Bond-stúlkum... sem bendir eindregið til þess að þær séu handbendi yfirvalda, enda ekkert nema fallegt kvenfólk að vinna fyrir yfirvöld... þannig að ég held semsagt að þetta gas sé hæg-heiladrepandi eiturgufa sem er beint vísvitandi í mín vit í þeim tilgangi að halda skilningarvitum mínum daufum og sköpunarkraftinum í lágmarki. enda aldrei að vita til hvers ég væri vís ef ég væri með fullum fimm. ég væri að minnsta kosti mikil ógn við yfirvaldið á ýmsa vegu.
en ég er nú samt alveg viss um að ég hafi ekki ætlað að blogga um það. enda óþarfi að vera að básúna upplýsingum um þau samsæri sem beinast gegn mér svona á opinberum vettvangi. það mun amk ekki hjálpa mér mikið við forsetaframboðið.
spurning hvort síðburðurinn minn sé á mála hjá þeim... andvökunæturnar mætti líka skoða sem beinskeytta pyntingaraðferð sem ýta undir doða minn, og svo er málið afgreitt enn betur af ,,tannsmiðunum". hverjum hefði dottið í hug að það væri tenging þar á milli? það verður fróðlegt að vita hverju ,,stóri bróðir" tekur uppá þegar hann sér að ég er hérna enn...
hvað í skrattanum ætlaði ég eiginlega að blogga um??!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli