hér með er hafin síðasta vika fyrir fyrstu fríviku fyrir síðustu starfsviku fyrir aðra fríviku fyrir fyrstu starfsviku í nýju starfi. rosalega líður tíminn hratt.
hér eru flestir í fríi. þar af leiðandi sit ég umvafin háum kennitölufjöllum sem ná varla að klárast áður en næsta fjall er komið í pósti.
sjaldan hefur mér þótt pósturinn óaðlaðandi fyrirbæri en í þetta sinn verður því miður að viðurkennast að mér finnst hann fúll og óspennandi.
annað en í gamla daga þegar ég átti bara von á bréfum frá pennavinum mínum og einu og einu ástarbréfi. þá var pósturinn spennandi.
eftir að ég komst á blað sem ,,fullorðin" fæ ég ekkert heim til mín heldur nema ruslpóst. Þar má meðal annars nefna nýjustu sólstólatilboð rúmfatalagersins, tölvuleikjatilboð bt tölva, sólveggjatilboð húsasmiðjunnar og dótarístilboð hagkaupa. svo fæ ég yfirlit yfir reikningana mína, greiðsluseðla og ítrekanir, tilboð um að ganga í andrésar andar klúbbinn, yfirlit yfir tryggingar og iðgjöld og fréttablaðið.
það er ekki nema rétt yfir jólin sem eitt og eitt handskrifað slæðist inn um lúguna til mín.
ég er farin að kunna sífellt betur að meta handskrift. reyndar segja jólakortin yfirleitt lítið annað en gleðileg jól og takk fyrir allt hitt og svoleiðis, en það er samt fallegt til þess að hugsa að einhver hafi gefið sér tíma til að handskrifa kort til mín. það er ekkert sjálfgefið á þessum síðustu og verstu að fólk kroti annað en undirskriftina sína.
ég sjálf skrifa lang oftast nafnið mitt og einstaka stikkorð á gula miða til að gleyma ekki einhverju. restin fer í gegnum lyklaborðið sem ég er orðin ansi fær í að nota, þó ég segi sjálf frá...
liðin er sú tíð þegar ég hélt dagbækur þar sem ég skrifaði hvern einasta dag samviskusamlega á línustrikaðar blaðsíðurnar, og þegar ég átti í bréfasambandi við svo marga að ég spændi í mig heilu stílabækurnar og skrifaði svo löng bréf að ég var á mörkum sinaskeiðabólgu.
mig minnir að síðasta almennilega handskrifaða bréfið frá mér hafi verið póstlagt árið 1994.
það ætti í raun heima á safni sem minjagripur um breytta tíma...hmmm.... hvert ætli ég hafi sent ansans bréfið...?
í dag held ég dagbók svona eins og ég er að gera núna. þetta er samt eiginlega ekki alveg dagbók, eiginlega meira svona vangaveltusafn, og eins og sjá má er þetta síður en svo handskrifað. ég skrifa líka slatta af bréfum, en þau rata aldrei í umslög. þeim er bara skutlað út í loftið í gegnum allskyns símtengingar og dótarí.
fussumsvei.
kannski ætti ég að reyna að verða mér útum almennilegan pennavin, svona handskrifandi, til þess að gera póstinn aftur spennandi og koma mér aftur í handskriftarform.
eða kannski nenni ég því ekki. ég verð alltof þreytt á því að skrá allar kennitölurnar...
ég ætla samt að reyna að vera dugleg í jólakortunum í ár.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli